Morgunblaðið - 10.09.2014, Blaðsíða 29
MINNINGAR 29
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 10. SEPTEMBER 2014
um okkar, eins og svöng börn úr
heimi Dickens og áttum með þeim
frábærar kvöldstundir á Trader
Vics veitingastaðnum, á Hyde
Park Corner. Sem var einmitt
uppáhaldsstaður langafa míns,
föður Stínu.
Gunnar heilsaði nánast öllu
starfsfólkinu með nafni og passaði
að hann bókaði alltaf borð þegar
pólýnesískur þjónn, Remí að
nafni, var við vinnu. Enda hann og
Gunnar perluvinir.
Gunnar var kærleiksríkur mað-
ur og einlægur. Hann hafði áhuga
á öllum og var mörgum hvatning í
lífinu, þar á meðal undirrituðum.
Ég mun aldrei gleyma öllum góðu
stundunum sem við áttum saman,
við Arna, með Gunnari og Stínu og
ætla ég einhvern daginn að bjóða
soltnum námsmönnum á veitinga-
stað. Ekki eingöngu til þess að
fylla maga þeirra, heldur efla
sjálfstraust þeirra og veita þeim
innblástur, eins og Gunnar gerði
ávallt.
Ég vil votta Stínu frænku og
ættingjum Gunnars samúð mína á
þessum erfiðu tímum. Næst þegar
ég fæ mér Chateaubriand-steik,
þá skil ég eftir helminginn fyrir
Gunnar.
Baldvin Albertsson.
Ótal eru þau verkin sem Gunn-
ar vann öðrum til góðs og var það
alveg frá mínum fyrstu kynnum af
honum sem mér var það ljóst að
hann var fyrirmynd sem ég ætti
oft eftir að hugsa til. Dugnaður-
inn, eljusemin og æðruleysið sem
hann bjó yfir snart mig sérstak-
lega. Áður hafði ég heyrt af þess-
um frænda unnusta míns og nafna
sem glímdi við líkamlega fötlun en
hafði engu að síður áorkað meira
en flestir heilbrigðir menn. Gunn-
ar var glettinn, brosmildur og
hafði sérlega góða nærveru og út-
geislun. Ætíð mun ég þakka fyrir
þær stundir sem ég fékk að eiga
með honum. Ég votta Kristínu
dýpstu samúð mína. Blessuð sé
minning Gunnars Finnssonar.
Anna Hulda Ólafsdóttir.
Ég kynntist Gunnari Finnssyni
Þegar ég sem samgönguráðherra
sat allsherjarþing Alþjóða flug-
málastofnunarinnar (ICAO) í
Montreal í Kanada í september
2001. Hann starfaði hjá ICAO sem
deildarstjóri og sérfræðingur í
rekstri flugvalla og flugmála-
stjórna. Það fór ekki á milli mála
að þar fór mikill öðlingur og eftir
þau kynni var vinátta okkar inn-
sigluð.
Þegar Gunnar hætti störfum
hjá ICAO flutti hann heim til Ís-
lands og settist að í höfuðborginni
okkar með fagurt útsýni til hafsins
og fjallanna. Hann dáði land sitt
og þjóð og hann varð öflugur þátt-
takandi í þeim verkefnum sam-
félagsins sem hann tók sér fyrir
hendur að loknu farsælu starfi er-
lendis. Hann gekk til verka af
þekkingu á íslenska samfélaginu
líkt og hann hefði rétt brugðið sér
af bæ og þess varð ekki vart að
hann hefði búið lengi erlendis.
Þegar breytingar voru gerðar á
Flugmálastjórn Íslands og verk-
efnum skipt upp og Flugstoðir
ohf. stofnaðar til þess að sinna
flugumsjón og rekstri flugvalla
tók hann að sér fyrir mín orð að
sitja í fyrstu stjórn félagsins. Því
starfi sinnti hann vel og miðlaði
þar af mikilli reynslu og þekkingu
og var hollur ráðgjafi samgöngu-
ráðherra í öllu er varðaði flug-
málastarfsemi. Gunnar var þeirr-
ar gerðar að hann tranaði sér ekki
fram og vann verk sín með ein-
staklega hógværum hætti og veitti
hollráð þegar við átti.
Þau voru ófá tölvuskeytin sem
hann sendi mér þegar mikið gekk
á í mínum störfum eða tíðindi voru
af fjölskyldu minni sem hann vildi
minnast á. Og það fór ekki á milli
mála við lestur þeirra skeyta að
þar skrifaði maður sem lét sér
annt um vini sína og samferðar-
menn. Ég vil á kveðjustundu
minnast Gunnars Finnssonar með
þakklæti og virðingu og senda eig-
inkonu og ættingjum samúðar-
kveðjur.
Sturla Böðvarsson.
Látinn er góður vinur, Gunnar
Finnsson rekstrarhagfræðingur.
Leiðir okkar lágu einkum saman á
árunum 1961-78, þegar ég var
framkvæmdastjóri hjá Flugmála-
stjórn. Í upphafi var það 1964-69
meðan Gunnar starfaði sem
fulltrúi hjá forstjóra Flugfélags
Íslands, en þá var félagið að und-
irbúa kaup á fyrstu íslensku þot-
unni. Í aðdraganda kaupanna
þurfti að gera umfangsmiklar
rekstraráætlanir, sem Gunnar
kom að. Einnig þurfti að ná sam-
komulagi við hið opinbera um
fjölda atriða, bæði tengd fjármál-
um og flugtækni. Í upphafi voru
t.d. ekki allir samstiga í því hvort
heimastöð þotunnar skyldi vera í
Reykjavík eða í Keflavík.
Árið 1969 réð Gunnar sig til
starfa hjá Alþjóðaflugmálastofn-
uninni (ICAO) í Montreal, og
starfaði þar samfleytt í 32 ár til
ársins 2001, þegar hann og Kristín
Erla eiginkona hans fluttu heim til
Íslands. Í starfi mínu hjá Flug-
málastjórn fólst töluverð þátttaka
í alþjóðlegum flugráðstefnum,
einkum hjá ICAO. Eftir að Gunn-
ar var kominn til starfa þar gátum
við því endurnýjað tengsl okkar í
Montreal, og þá var gagnlegt að
geta rætt fjölda flugtengdra mál-
efna við Gunnar, sem fylgdist afar
vel með þróun mála á vettvangi
ICAO.
Hann var um tíma gestafyrir-
lesari við Institute of Air and
Space Law við McGill-háskólann í
Montreal.
Gunnar var í upphafi ráðinn
sem hagfræðingur til þeirrar
deildar ICAO, sem fjallar um
rekstur flugvalla og flugumferðar-
þjónustu, og varð síðar deildar-
stjóri þar. Á fyrstu árum þessa
tímabils var almennt sú stefna
ríkjandi, að flugvellir og flugum-
ferðarþjónusta væru að mestu
rekin á kostnað hins opinbera, og
litlar leiðbeiningar um það hvern-
ig standa ætti að gjaldtöku.
Í áranna rás þótti eðlilegra að
notendur flugvalla og loftrýmis
greiddu beint fyrir slíka þjónustu í
stað þess að reikningurinn væri
sendur til skattgreiðenda. Í störf-
um sínum hjá ICAO átti Gunnar
stóran þátt í að móta þær alþjóð-
legu reglur, sem nú gilda á þessu
sviði, og óhætt að fullyrða að
Gunnar varð meðal fremstu sér-
fræðinga í gjaldtöku fyrir flug-
tengda þjónustu.
Á árunum 1978-2000, þegar ég
starfaði sem framkvæmdastjóri
hjá Flugleiðum, hittumst við
Gunnar eðlilega sjaldnar. Þó héld-
um við sambandi okkar, og einnig
eftir að hann kom aftur heim til Ís-
lands. Hann fylgdist mjög vel með
þróun flugmála hér á landi, og
hafði mikinn áhuga á viðvarandi
baráttu fyrir óskertum flugrekstri
á Reykjavíkurflugvelli í Vatns-
mýri. Árið 2012 veitti forseti Ís-
lands honum riddarakross fálka-
orðunnar, en þó ekki fyrir
ævistarf hans tengt flugmálum,
heldur „fyrir störf í þágu endur-
hæfingar og heilbrigðismála“, sem
voru honum mjög mikilvæg.
Gunnar hafði undanfarinn áratug
starfað að þeim af miklum krafti,
m.a. sem stofnandi Hollvina
Grensásdeildar árið 2006, og síðan
sem formaður þeirra.
Ég minnist með þökk vináttu
okkar Gunnars í hálfa öld, og
margra ánægjulegra heimsókna
til hans og Kristínar Erlu í Mont-
real og Reykjavík. Við Oddrún
sendum Kristínu Erlu, og systk-
inum Gunnars og fjölskyldum
þeirra, okkar innilegustu samúð-
arkveðjur.
Leifur Magnússon.
Í dag verður til grafar borinn
góðvinurinn geðþekki, Gunnar
Finnsson, viðskiptafræðingur.
Hann varð bráðkvaddur á heimili
sínu sunnudaginn 31. ágúst sl.
Kynni okkar Gunnars hófust í
Menntaskólanum í Reykjavik, en
við vorum bekkjarbræður í þeim
skóla og samstúdentar, útskrifað-
ir 1960. Með okkur tókst fljótlega
mikil og traust vinátta, sem hefur
enst alla tíð síðan, og hefur aldrei
borið skugga á. Alltaf fylgir því
sársauki að kveðja góðan vin, en
þá rifjast einnig upp margar og
góðar minningar um fjölmargar
ánægjulegar samverustundir,
bæði hérlendis og erlendis.
Á menntaskólaárunum hlust-
uðum við mikið á klassíska tónlist
saman og ræddum síðan um verk-
in á eftir. Oft ræddum við líka önn-
ur mál, sem uppi voru á hverjum
tíma. Við vorum ekki alltaf sam-
mála, en virtum skoðanir hvor
annars, og ég man aldrei til að við
höfum nokkru sinni rifist. Þegar
okkur óx fiskur um hrygg og við
höfðum valið okkur lífsförunauta,
héldum við uppteknum hætti, og
samverustundirnar urðu inni-
haldsríkari og enn ánægjulegri.
Kannski vegna þess að eiginkonur
okkar, Kristín og Guðbjörg Edda,
eru báðar mjög hæfileikaríkar og
kunna góð skil á samræðulist, sem
og matargerðarlist og tónlist.
Þarna sló sem sagt mörgum
strengjum saman, og minningarn-
ar eru margar og ljúfar.
Á þeim árum, sem Gunnar og
Kristín dvöldu í Kanada, komu
þau reglulega til Íslands. Þá not-
uðum við bekkjarbræður hans
tækifærið og efndum til sam-
funda, sem við fórum fljótlega að
kalla „fundi í Gunnars-
vinafélaginu“. Félagið var aldrei
stofnað með formlegum hætti, en
er samt enn við lýði og hefur
breytt starfsháttum sínum eftir að
Gunnar fluttist aftur til Íslands.
Við höfum borðað saman hádeg-
ismat á veitingastaðnum Skrúð
fyrsta föstudag hvers mánaðar frá
september til júní. Höfum við
gjarnan kallað þessar samkomur
„skrúðgöngur“, en Gunnar annað-
ist fundarboðin, enda sjálfkjörinn
foringi hópsins.
Gunnar var einstakur maður,
sem lét sér ekki allt fyrir brjósti
brenna. Hann var ákveðinn í skoð-
unum, rökfastur, skarpskyggn og
réttsýnn, og hann var alltaf tilbú-
inn að hlusta á rök annarra. Hann
var einnig mjög orðheppinn, en
jafnframt orðvar, enda vel þjálf-
aður í diplómatískri orðræðu.
Hann naut víða virðingar og var
m.a. sæmdur Riddarakrossi hinn-
ar íslensku Fálkaorðu.
Blessuð sé minning Gunnars
Finnssonar.
Við hjónin sendum hugheilar
samúðarkveðjur til Kristínar og
systkina Gunnars.
Eyjólfur Þ. Haraldsson
og Guðbjörg Edda
Eggertsdóttir
Við fráfall góðs vinar rifjast upp
fyrstu kynni fyrir 45 árum, frá
1969. Við hjónin höfðum þá ásamt
börnum okkar átt heima um eins
árs skeið í Montréal í Kanada.
Síminn hringir og er þar kominn
Íslendingur að nafni Gunnar
Finnsson, hress í tali. Segir hann
þau konu sína, Kristínu, nýflutt til
Montréal. Þetta var ánægjulegt
enda vissum við ekki til að nokkrir
samlandar ættu heima í þessari
ágætu borg. Skemmst er frá að
segja að kynni við þau Gunnar og
Kristínu reyndust okkur mikil
gæfa og höfum við verið miklir
vinir æ síðan. Í Montréal urðum
við líka nágrannar. Gunnar og
Kristín bjuggu í nýju hverfi á
Nunnueyju í St. Lawrencefljóti.
Þar hafði verið nunnuklaustur en
eyjan síðan seld borginni fyrir
byggingarland. Við hjónin
ákváðum að yfirgefa miðborgina
þar sem leikvöllur barnanna hafði
verið á McGill-háskólasvæðinu
eða bílastæði sem losnaði að lokn-
um vinnudegi hjá skrifstofufólki í
bænum. Við urðum nágrannar
Gunnars og Kristínar á Nunnu-
eyju, þar til við hjónin færðum
okkur um set til Toronto og síðar
til Íslands.
Gunnar vann hjá Alþjóðaflug-
málastofnuninni (ICAO) en höfuð-
stöðvar hennar eru í Montréal.
Þar vann hann sína starfsævi, sér-
fræðingur í rekstri flugvalla og
flugmálastjórna. Á friðsælli
Nunnueyju undum við öll hag
okkar vel og var tíður samgang-
urinn við Gunnar og Kristínu. Það
var gaman að heyra Gunnar segja
frá ferðum þeirra hjóna um heim-
inn en embættiserindi þurfti hann
að reka víða og að manni fannst á
annarlegum slóðum í Afríku og
Asíu. Í þá daga voru þessi lönd
ekki orðin eftirsóttir áfangastaðir
íslenskra skólakrakka á heims-
hornaflakki. En hvað sem leið
hljómi fjarrænna borgaheita var
mest um vert að haukfránn og
ráðsnjall sérfræðingur frá ICAO
var á ferðinni til að ræða við for-
ystu flugmála í þessum löndum.
Þetta voru því tíðum langir og
strangir fundir og ferðalögin líka.
Gunnar naut álits í ábyrgðarstarfi
og kvaddi með heiðri og sóma eftir
30 ár hjá stofnuninni.
Hin góðu kynni okkar héldust
með heimsóknum og bréfum í ald-
arfjórðung en þar kom að Gunnar
og Kristín héldu til Íslands um
aldamótin og höfum við notið ná-
lægðar þeirra og vináttu. Gunnar
starfaði hér landi sem ráðgjafi í
flugmálum og hefur reynsla hans
og mikil þekking nýst vel. En
Gunnar var maður „eigi einham-
ur“. Síðustu árin helgaði hann sig
málefnum hreyfihamlaðra. Hann
var frumkvöðull að stofnun Holl-
vinasamtaka Grensásdeildar. Með
hjálp ötulla samherja hafa sam-
tökin barist fyrir úrbótum. Hefur
Gunnar skrifað ótal greinar í blöð
og m.a. beitt hagfræðilegum rök-
um til að sýna fram á að öflug end-
urhæfing „borgar sig“ fyrir þjóð-
félagið.
Við Jóhanna munum minnast
skemmtilegra samræðna við
Gunnar. Góðlátleg gamansemi
einkenndi frásögn og dóma. Hann
fylgdist vel með gangi mála, fróð-
ur og vís. Þakklátur er ég honum
fyrir stuðning við ýmislegt sem ég
hef unnið að. Uppörvandi viðhorf
hans hefur verið mér mikils virði.
Að leiðarlokum kveðjum við Jó-
hanna með söknuði aldavin. Við
vottum Kristínu, systkinum
Gunnars og fjölskyldum innilega
samúð. Blessuð sé minning Gunn-
ars Finnsson.
Þór Jakobsson.
Fleiri minningargreinar
um Gunnar Finnsson bíða
birtingar og munu birtast í
blaðinu næstu daga.
✝
Móðir okkar, tengdamóðir, systir, amma og
langamma,
ÞÓRUNN STEFÁNSDÓTTIR
frá Skagaströnd,
lést á hjúkrunarheimilinu Nesvöllum
í Reykjanesbæ sunnudaginn 31. ágúst.
Útför hennar fer fram frá Kálfatjarnarkirkju
á Vatnsleysuströnd föstudaginn 12. september kl. 14.00.
Sigurður Kristinsson, Hrafnhildur Bryndís Rafnsdóttir,
Guðmundur Kristinsson,
Lilja Kristinsdóttir,
Margrét Stefánsdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.
✝
Minningarathöfn um ástkæra eiginkonu,
systur, mágkonu og frænku,
GUÐRÚNU HULDU GUÐMUNDSDÓTTUR
hjúkrunarfræðing,
sem lést í Danmörku sunnudaginn 15. júní,
fer fram í Dalvíkurkirkju laugardaginn
13. september kl. 13.30.
Viggo Carlo Block,
systkini, tengdafólk og aðrir ættingjar.
✝
Eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir, afi og
bróðir,
STEFÁN B. GÍSLASON,
lést á hjúkrunarheimilinu Grund
fimmtudaginn 4. september.
Útförin fer fram frá Neskirkju fimmtudaginn
11. september kl. 15.00.
Guðný Jónsdóttir,
Helga Björk Birgisdóttir, Guðmundur Guðbrandsson,
Óskar Ingi Stefánsson,
Kjartan Stefánsson,
Daldís, Arnþór, María, Hekla og
Guðmundur Gíslason.
✝
Elskulegur sonur okkar, bróðir og frændi,
GUÐMAR INGI FINNBOGASON,
lést sunnudaginn 7. september. Útförin fer
fram frá Grafarvogskirkju fimmtudaginn
11. september kl. 13.00. Þeim sem vilja
minnast hans er bent á Styrktarsjóð SÁÁ.
Finnbogi Guðmarsson, Metta Kwanthong,
Anna Finnbogadóttir, Jón Ingimar Jónsson,
María Finnbogadóttir og fjölskylda,
Niyom Kwanthong og fjölskylda,
Araya Kwanthong.
✝
Móðir okkar,
SIGRÚN EYÞÓRSDÓTTIR,
lést á Hrafnistu laugardaginn 6. september.
Ásta Björg Ólafsdóttir,
Guðrún Ólafsdóttir,
Eyþór Ólafsson,
Ólafur Ólafsson,
Dröfn Ólafsdóttir,
Grímur Eggert Ólafsson.
✝
Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma
og langamma,
ÁSTA HAUKSDÓTTIR SIGURZ,
Búlandi 31,
Reykjavík,
andaðist sunnudaginn 7. september
á Landspítalanum Fossvogi.
Útför hennar fer fram þriðjudaginn 16. september
næstkomandi kl. 13.00 frá Bústaðakirkju.
Blóm og kransar afþakkaðir en þeim sem vildu minnast hennar
er bent á Von, styrktarfélag gjörgæsludeildar Fossvogi, sími
543-7658.
Magnús Reynisson, Sigríður Jóhanna Tyrfingsdóttir,
Skúli Eggert Sigurz, Ingunn Þóra Jóhannsdóttir,
Jóhanna S. Ingólfsdóttir,
Ingólfur Ingólfsson,
Sigurður Haukur Sigurz, Björg Eyjólfsdóttir.
✝
Eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi
og langafi,
FRIÐJÓN GÍSLASON,
Helgastöðum,
andaðist í Brákarhlíð, Borgarnesi,
föstudaginn 5. september.
Útförin fer fram frá Borgarneskirkju
föstudaginn 12. september kl. 14.00.
Þeim sem vildu minnast hans er bent á
Minningarsjóð Brákarhlíðar.
Þóra Þórarinsdóttir,
Gísli Friðjónsson,
Sólrún Friðjónsdóttir,
Högni Gunnarsson, Elena Kozlova,
Bjarni Þór Bjarnason, Ingibjörg Smáradóttir,
afa- og langafabörn.