Skessuhorn - 05.06.2013, Blaðsíða 24
24 MIÐVIKUDAGUR 5. JÚNÍ 2013
Fáir segja nú skilið við jafn við-
burðaríkan vetur og hjónin
Bjarni Sigurbjörnsson og Guð-
rún Lilja Arnórsdóttir bændur
að Eiði við Kolgrafafjörð. Eins
og flestir þekkja drápust rúm-
lega fimmtíu þúsund tonn af síld
í firðinum í vetur með ófyrir-
séðum afleiðingum. Aldrei hef-
ur orðið viðlíka síldardauði í jafn
miklu umfangi og þykir atburð-
urinn því einstakur á heimsvísu.
Við tóku einar umfangsmestu
hreinsunaraðgerðir sem gripið
hefur verið til á Íslandi og segja
hjónin aðdáunarvert þrekvirki
hafa verið unnið í þeim efnum.
Blaðamaður Skessuhorns kíkti í
heimsókn að Eiði í síðustu viku,
gerði upp veturinn með þeim
Bjarna og Guðrúnu og innti þau
meðal annars eftir væntingum og
áhyggjum varðandi næsta vetur.
„Allt í einu vissu allir hvar Kolg-
rafafjörður er,“ segir Bjarni er við
settumst niður við eldhúsborðið
að Eiði í síðustu viku. „Enda erum
við löngu hætt að segjast vera frá
Grundarfirði, erum bara frá Kolg-
rafafirði,“ bætir Guðrún við og
hlær.
Það var að kvöldi 13. desemb-
er síðastliðins að Kolgrafafjörður
komst fyrst í fréttirnar þegar um
þrjátíu þúsund tonn af síld drápust í
firðinum. „Unnsteinn Guðmunds-
son hringdi í okkur þann dag og
spurði: „Vitið þið hvað er í fjörunni
hjá ykkur?“,“ segir Guðrún er hún
rifjar upp fyrstu fréttir af síldar-
dauðanum. „Þennan dag var rosa-
lega gott veður, frost og spegillogn.
Við höfðum litið út um gluggann
fyrr um daginn og fannst fjaran
hríma óvenju snöggt þegar féll út.
Við ætluðum hins vegar ekki að
trúa Unnsteini, hlupum hérna út til
þess að kanna ástandið og var mjög
brugðið þegar við sáum alla síldina.
Hún var hins vegar mun dreifð-
ari um fjöruna í þetta fyrra skipti
heldur en við áttum eftir að kynn-
ast þegar seinni síldardauðinn varð
í janúar.“
Hér verður
eitthvað gert!
„Maður vissi í raun ekkert hvað
maður átti að gera,“ segir Bjarni
um viðbrögð þeirra við þessum
fyrri síldardauða. „Við vissum ekki
hvert við áttum að hringja til að til-
kynna þetta eða hvort við ættum yf-
irhöfuð að hringja eitthvert. Þarna
tók líka við tími þar sem lítið sem
ekkert samband var haft við okk-
ur. Við heyrðum af allskonar fund-
um og rannsóknum, en það kom
aldrei neinn hingað á Eiði sem mér
fannst í raun bara dónaskapur. Síð-
an heyrðum við útundan okkur
að gefið hefði verið út að við ætt-
um bara að hreinsa þetta upp sjálf,“
segir Bjarni og vísar til þess þegar
síldardauðanum var líkt við hvern
annan hvalreka þar sem það er á
ábyrgð landeigenda að hreinsa upp
hræið. „Í rúman mánuð talaði eng-
inn við okkur. Það er ekki fyrr en
29. janúar, daginn fyrir seinni síld-
ardauðann, að fulltrúar Umhverf-
isstofnunar, Hafró, Náttúrufræði-
stofnun Vesturlands og umhverfis-
ráðherra komu og ræddu við okkur.
Á fundinum var talað um að þetta
væri einstakt tilfelli og við þyrftum
ekki að hafa áhyggjur af því að þetta
kæmi fyrir aftur. Þá væri stefnt á að
láta náttúruna sjálfa um að vinna
úr þessu. Starfsmenn Hafró sáu
það bara á leiðinni af fundinum að
það væri eitthvað mikið í uppsigl-
ingu. Þá var síldin að byrja að drep-
ast,“ rifjar Bjarni upp. Hann seg-
ir ráðamenn samt sem áður hafa
komið á réttum tímapunkti því þau
gátu fundið lyktina af rotnandi síld-
inni, sem þá hafði legið í fjörunum
við Kolgrafafjörð í rúman mán-
uð, og séð grútinn sem myndað-
ist af henni. „Það leit ekki út fyrir
að neitt yrði gert á vegum ríkisins
og mér var hætt að lítast á blikuna
undir lok fundarins. Þá stóð Svan-
dís Svavarsdóttir ráðherra allt í einu
upp og sagði í algjörri andstöðu við
umræðuna á fundinum: „Hér verð-
ur eitthvað gert!“ Hún tók bara af
skarið og hækkaði til muna í áliti
hjá mér fyrir vikið.“
Bjarni og Guðrún segja margt
fólk hafa staðið við bakið á þeim
og barist fyrir fjölþættum aðgerð-
um og viðbrögðum við síldardauð-
anum. Nefna þau sérstaklega Run-
ólf Guðmundsson, Helga Jens-
son hjá Umhverfisstofnun og Sig-
urborgu Kr. Hannesdóttur for-
seta bæjarstjórnar. „Sigurborg hef-
ur staðið þessa vakt allan tímann og
fylgt málum mjög vel eftir. Okkur
fannst mjög sérkennilegt að heyra
af fólki sem var að funda í Reykja-
vík um síldina í Kolgrafafirði þeg-
ar helmingurinn af þessu fólki hafði
aldrei komið hingað. Þarna var
verið að taka ákvarðanir um við-
brögð, hreinsun og ráðstöfun pen-
inga í verkefnið og Sigurborg fór á
alla þessa fundi og hélt uppi mál-
stað okkar. Hún á heiður skilið fyr-
ir hvað hlutirnir hafa þróast í góða
og rétta átt,“ segja þau.
Fengu börnin í
síldartínslu
Ekki gerðu allir sér grein fyrir
þeim verðmætum sem lágu í fjör-
unni í Kolgrafafirði í desember en
að sögn Guðrúnar voru hestamenn
og bændur þeir einu sem tóku við
sér og náðu sér í síld til þess að gefa
skepnunum. Annað var uppi á ten-
ingnum þegar seinni síldardauðinn
varð.
„Við gátum bara ekki horft á
þessi gífurlegu verðmæti skemm-
ast hérna í fjörunni,“ segir Guð-
rún og Bjarni tekur í sama streng.
„Við sátum hérna við eldhúsborð-
ið þegar Gunna snéri sér að mér
og spyr hvernig þetta hafi eigin-
lega verið í gamla daga þegar skip-
in veiddu of mikið og ekki var næg-
ur mannskapur í frystihúsunum
til þess að vinna aflann. Það gerð-
ist mjög oft hér áður fyrr og lausn-
in var mjög einföld, það var gefið
frí í grunnskólanum. Við hringd-
um því í Önnu skólastjóra, í sam-
ráði við Björn bæjarstjóra, bár-
um undir hana þessa hugmynd og
fengum frábær viðbrögð. Reyndar
fengum við eitt og eitt símtal um að
við værum að stunda barnaþrælkun
en þegar upp var staðið held ég að
þeir foreldrar sem bönnuðu börn-
unum sínum að mæta hafi séð eft-
ir því. Enginn var píndur í eitt eða
neitt og þegar börnunum varð kalt
var farið með þau heim. Þetta var
mjög mikil upplifun fyrir þau og
þau munu aldrei gleyma þessu. Ég
held líka að þau hafi lært helmingi
meira á þessum fjórum klukkutím-
um heldur en þau gera heila viku
í skólanum. Þetta reikningsdæmi
um að fá átta krónur fyrir kílóið var
auðvitað eins og besti stærðfræði-
tími. Við erum alltaf að tala um að
íslenska þjóðin sé á villigötum og
börnin okkar hangi bara í tölvum
allan daginn, en sem betur fer varð
maður að éta það allt ofan í sig eft-
ir þetta því þessir krakkar veltu sér
gjörsamlega upp úr drullunni og
þeim var alveg sama. Þetta var gríð-
arlega dýrmæt reynsla fyrir þau.“
Eins og kunnugt er nýttu fleiri
sér þessa góðu fjáröflunarleið en
Golfklúbburinn Vestarr, fótbolta-
samstarfið á Snæfellsnesi, Víking-
ur Ólafsvík, körfuboltafólk úr Snæ-
felli og íþróttafélög af höfuðborg-
arsvæðinu fóru öll að tína síld en
um fimm hundruð tonn voru seld
í bræðslu frá Kolgrafafirði.
Hreinsunin gekk
frábærlega
Í kjölfar seinni síldardauðans hóf-
ust sem áður sagði skipulagð-
ar hreinsunaraðgerðir í Kolgrafa-
firði. Í fyrstu var keyrt með grút-
inn á urðunarstað í Fíflholtum
en síldin aftur á móti grafin nið-
ur í fjöruna. „Okkur þótti frá byrj-
un hreint út sagt fíflalegt að flytja
grútarblauta möl, eftir þjóðvegin-
um þar sem gilda reglur um þunga-
takmarkanir, í Fíflholt þegar hægt
væri að urða þetta hér á staðn-
um. Þá komu þessi rök að þeg-
ar Umhverfisstofnun setur öðr-
um skilyrði varðandi urðun get-
ur stofnunin ekki sjálf leyft urðun
hvar sem er. En urðun á úrgangi
og umhverfisslys í Kolgrafafirði er
tvennt ólíkt. Svo fór að grúturinn
var fluttur í Fíflholt í nokkra daga
en við fengum að „grafa“ síldina,
ekki urða. Svo kom það á daginn
að þessi leið gæti ekki gengið, enda
gerði fólk sér ekki grein fyrir því
hvað hún myndi kosta. Við grófum
niður tuttugu þúsund tonn af síld á
einni viku á meðan um tvö þúsund
tonn voru flutt í Fíflholt. Það kost-
aði tuttugu og eitthvað milljón-
ir að urða tvö þúsund tonn í Fífl-
holtum en það kostaði sjö milljón-
ir að grafa tuttugu þúsund tonn af
síld í Kolgrafafirði. Ég er ekki með
tölurnar alveg upp á krónu, en þið
sjáið ruglið,“ segir Bjarni. Hjón-
in eru að öðru leyti afar sátt með
hvernig til tókst. „Maður getur
rétt ímyndað sér hvernig ástandið
væri ef þetta hefði fengið að liggja
hreyfingalaust í fjörunni,“ segir
Guðrún. „Ef við værum enn með
metralag af úldinni síld, þrjátíu til
fjörtíu metra breitt á tveggja kíló-
metra kafla - þá værum við senni-
lega ekki hér í matvælaframleiðslu
lengur,“ bætir Bjarni við.
Þegar verið var að skipuleggja
hreinsunarstarfið komu að sögn
Bjarna upp hugmyndir um að fá
jarðýtur og stór tæki að sunnan
til að hreinsa fjöruna. „Við tók-
um það ekki til greina,“ segir hann
„enda stóð ekki til að skipta al-
gjörlega um fjöru. Fullt af tækjum
væru til í Grundarfirði sem stóðu
óhreyfð og mennirnir atvinnu-
lausir því ekki hafði þurft að moka
korni af snjó yfir veturinn. Okkur
fannst mikið nær að nýta þau tæki
og þann mannskap sem þegar var
á svæðinu og fengum því fram-
gengt.“ Guðrún segir þann tíma
er hreinsunarstarfið stóð hafa ver-
ið mjög skemmtilegan. „Karlarnir
komu alltaf til okkar í mat og í kaffi
og hér var mikið líf og stemning,“
segir hún og Bjarni bætir við að
sérstaklega hafi verið gaman að sjá
menn, sem áður höfðu verið í sí-
felldri samkeppni sín á milli, vinna
saman. „Þetta hefur tekist frábær-
lega.“
Margt annað setið
á hakanum
Sauðburði var nýlokið þegar blaða-
maður var á ferðinni í síðustu viku
en Bjarni og Guðrún segja síldar-
dauðann hafa haft töluverð áhrif
á dagleg bústörf að Eiði. Þau reka
blandað bú bæði með kúm og
kindum. „Á tímabili var varla sofið
hér á bænum,“ rifjar Guðrún upp.
„Við þurftum að sjálfsögðu alltaf
að mjólka kýrnar og þegar síldar-
Enn óraunverulegt að þetta hafi getað gerst
Í heimsókn hjá bændunum Bjarna og Guðrúnu að Eiði í Kolgrafafirði
Guðrún Lilja Arnórsdóttir og Bjarni Sigurbjörnsson að Eiði við Kolgrafafjörð.
Grunnskólabörnin mættu eldsnemma einn morguninn og tíndu síld í kör. Fengu þau átta krónur á hvert kíló að launum.
Ljósm. Bjarni Sigurbjörnsson.