Vísbending


Vísbending - 24.12.2012, Blaðsíða 15

Vísbending - 24.12.2012, Blaðsíða 15
15 1861-1862, meðan útilegumannasögurnar voru enn óprentaðar, samdi vinur og nágranni Jóns Árnasonar, skáldið Matthías Jochumsson gamanleikritið Skugga-Svein, þar sem útilegumaður er í aðalhlutverki. Ekkert íslenskt leikrit hefur notið jafnmikilla vinsælda og verið jafnoft sýnt. Fleiri fylgdu í fótspor Matthíasar. Indriði Einarsson samdi leikritið Hellismenn sem sýnt var 1873. Hann fór í vettvangsferð í Surtshelli til að kynna sér minjarnar þar áður en hann settist við skriftirnar. Sigurður Guðmundsson, einn helsti frömuður þjóðlegrar menningarvakningar á Íslandi á seinni hluta 19. aldar, samdi leikritið Smalastúlkan, en lést áður en það var fullbúið til sviðssetningar. Öld leið þar til það var frumsýnt. Einn lærðasti maður Íslendinga á 19. öld, bókmenntafræðingurinn og heimspekingurinn Grímur Thomsen, orti 1861 hið magnaða kvæði Á Sprengisandi sem gjarnan er sungið þegar haldið er upp í óbyggðirnar á miðhálendinu. Þar segir í öðru erindinu: Þei, þei ! Þei, þei ! Þaut í holti tóa, þurran vill hún blóði væta góm, eða líka einhver var að hóa undarlega digrum karlaróm, útilegumenn í Ódáahraun eru kannske að smala fé á laun. „Hlægilega vitlaus hjátrú“ Ekki er tilefni til að ætla að útilegumannatrúin á Íslandi hafi aðeins verið á yfirborðinu eða bundin við fámennan hóp. Ástæðulaust er að rengja orð þjóðsagnasafnarans Jóns Árnasonar, að hún hafi ekki aðeins verið „alþýðumanna trú, heldur einnig skynugra manna skoðun og greindra.“ Þetta fær stuðning úr margvíslegum heimildum öðrum. Má til dæmis vitna í Ferðabók sem enskur prestur, Ebenezar Henderson, skrifaði eftir ferð um Ísland árið 1815. Hann vitnar í Magnús Stephensen yfirdómara, sjálfan frömuð upplýsingastefnunnar á Íslandi, sem segir að um ýmsa þá staði á hálendinu sem Henderson fór um, mundi hann sjálfur ekki hætta á að ferðast um án þess að hafa á sér skammbyssur. Henderson virðist einnig vera að vitna til Magnúsar þegar hann skrifar að „komið hefur það fyrir, að kaupmenn hafi skipt við þá menn, sem eftir útliti þeirra að dæma og einnig hinu, hvað þeir seldu og keyptu, var mikil ástæða til að ætla, að heima ættu í óbyggðum.“ Ef þetta voru skoðanir helsta upplýsingafrömuðar Íslendinga þurfa viðhorf almennings ekki að koma á óvart. Henderson veitir athyglisverða innsýn í þau efni í bókinni þegar hann á einum stað greinir frá ferðalagi milli landshluta yfir óbyggðir á hálendinu: „Um klukkan sjö um kvöldið griltum við fagra sléttu græna undir jöklunum. En þessi uppgötvun olli [íslenskum] fylgdarmönnum okkar slíkum ótta, að jafnaðist á við þá gleði, sem hún veitti okkur, því nú voru þeir vissir um að við mundum lenda í höndum útilegumanna, enda var þess ekki langt að bíða, að þeir bentu okkur á fjölda hrossa, er voru á beit rétt undir jöklinum. Fyrst í stað var ekki laust við að þetta lækkaði í okkar rostann, og við vorum ekki frá því, að hlýða með nokkurri athygli á tillögur þeirra um, hvernig við skyldum verjast. En jafnskjótt og litið var í kíki, breyttust hrossin í stóra steina, er kastast höfðu úr eldfjalli, sem þarna var.“ Svo mikil var frægð útilegumannadalsins Þórisdals, sem til forna var nefndur Áradalur, að hann er merktur inn á Íslandskort frá 1590. Kortið birtist í ferðabók Orteliusar en Guðbrandur Þorláksson biskup er talinn höfundur þess.

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.