Vísbending


Vísbending - 24.12.2012, Blaðsíða 5

Vísbending - 24.12.2012, Blaðsíða 5
5 Þei, þei! þei, þei! BENEDIKT JÓHANNESSON Sagt er að Bandaríkjamenn dýrki útlaga. Kannski eru það ýkjur, en í Hollívúdd-myndum er skúrkurinn oft í hlutverki hetjunnar sem allir dýrka og dá. Líklegast er þessu ekki mjög ólíkt farið hér á landi. Fjalla-Eyvindur var útlagi sem sveipaður er ævintýraljóma. Ekki þarf að deila um að Grettir, Gísli Súrsson og Gunnar á Hlíðarenda voru hetjur þó að þeir væru drepnir sem sekir skógarmenn. Hvernig lítur sagan á þá sem nú hafa komist upp á kant við lögin? Hæstaréttardómari sem er nýhættur störfum segir að dómstólar dæmi eftir almenningsáliti. Um það er erfitt að fullyrða, en á því er ekki vafi að Morgunblaðið ætlaði að taka dómara á taugum þegar það birti forsíðumynd af fimm hæstaréttardómurum, rétt eins og þeir væru drukknaðir sjómenn. Flestir eru sammála því að dómarar eigi að dæma að lögum, en stundum er erfitt að sjá hvar lögin enda og mat tekur við. Fáir virðast átta sig á því að svipuð skylda hvílir á ákæruvaldinu, engan skal ákæra nema saksóknari telji að hann verði dæmdur að lögum. Þetta á einnig við um eftirlitsstofnanir. Þær eiga ekki að beita hæstu sektum sem hægt er að hugsa sér heldur beita þeim af skynsemi og í samræmi við það brot sem framið er. Þetta gleymist oft í því þjóðfélagi hefndarþorsta sem Íslendingar virðast nú hafa búið sér. Viljum við það? Er það markmið að búa til útilegumenn í óeiginlegum skilningi? Er ekki brýnna að leysa vanda þeirra sem fóru illa út úr hruninu en hefna einhverra misgjörða eða glæpa án fórnarlambs? Endurreisnin er komin af stað, en drjúgur verður síðasti áfanginn. Eins og áður er efni jólablaðs Vísbendingar fjölbreytt blanda af fróðleik og skemmtun sem ekki er endilega bundin við viðskipti eða efnahagsmál. Það er heiður fyrir blaðið að fá að birta ljóðaþýðingar Hannesar Péturssonar, en þetta er í fyrsta sinn sem þær birtast. Ásgeir Jónsson rekur hvernig Íslendingar heimtu, og misstu, frelsi í verslun. Það virðist nánast vera náttúrulögmál að þjóðin tapi því frelsi og leggi sjálfviljug á sig höft sem hinir bestu menn telja svo óráð að spretta af. Leiftursóknin var tilraun til þess að segja þjóðinni fyrirfram að hún þyrfti að færa fórnir til þess að komast úr kreppu. Það vildi enginn heyra þá fremur en nú. Ísafjörður á sér merka sögu og þar eru mörg hús sem gætu hvert um sig verið efni í heilar bækur. Jón Páll Halldórsson, sem lengi var í forystu í atvinnu- og stjórnmálum bæjarins, segir frá þeim í skemmtilegu viðtali. Á meðan menn lesa blaðið kemst Golfstraumurinn um 30 kílómetra nær Íslandi. Gluggagægir er velkominn á jólum en síður á öðrum árstímum. Í jólalaginu sem fylgir að venju koma álfar, jólasveinar og Grýla við sögu eins og vera ber því það er gaman á jólum. Þetta blað er jólakveðja Talnakönnunar og Heims til vina sinna. Við óskum þeim öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi árum og þökkum fyrir samskiptin á líðandi ári. V

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.