Vísbending


Vísbending - 24.12.2012, Blaðsíða 6

Vísbending - 24.12.2012, Blaðsíða 6
6 LEIFTuRSÓKNIN – SJáLFSTæðISmENN LEggJA FRAm SKýRA KOSNINgASTEFNu Í október 1979 sprakk skammlíf vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar og skömmu síðar var boðað til kosninga í desember. Skoðanakannanir bentu til þess að sjálfstæðismenn ynnu stórsigur, en minna varð úr þeim sigri en þeir vonuðust til. Margir kenndu kosningaplaggi flokksins um. Titill þess þótti glannalegur: Leiftursókn gegn verðbólgu. Innihaldið var líka róttækt að ýmsu leyti. Nýstárlegustu hugmyndirnar snerust um frelsi í viðskiptum. Þær urðu flestar að veruleika árin og áratugina á eftir og vöktu þá yfirleitt ekki miklar deilur. Eftir á að hyggja virðist helst mega efast um að áætlunin hefði dugað til að ráða niðurlögum verðbólgunnar – þrátt fyrir nafnið. Aftur viðreisn eftir vinstri stjórn? Um miðjan október tók Benedikt Gröndal við embætti for- sætisráðherra. Hann stýrði minnihlutastjórn Alþýðuflokks, sem tók við af stjórn þriggja flokka: Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Framsóknarflokks. Sjálfstæðismenn studdu minnihlutastjórnina, sem skyldi sitja fram yfir kosningar. Marga sjálfstæðismenn dreymdi um að sagan væri að endurtaka sig. Svipað mátti raunar segja um marga Alþýðuflokksmenn líka. Árið 1958 studdi Sjálfstæðisflokkurinn minnihlutastjórn Alþýðuflokks eftir að vinstri stjórn sprakk. Þetta varð upphafið að samstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks, Viðreisnarstjórninni, langlífustu stjórn Íslandssögunnar til þess tíma, en hún sat í tæplega tólf ár. Með fyrstu verkum hennar var að gefa innflutning frjálsan að miklu leyti. Vorið 1978 hafði stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarmanna hrökklast frá völdum eftir mikinn kosningaósigur flokkanna beggja. Verra var þó í huga sjálfstæðismanna að þeir misstu meirihluta sinn í borgarstjórn Reykjavíkur, sem þeir höfðu haft frá stofnun flokksins, 1929. Í kjölfarið urðu harðar umræður í flokknum um stefnuna, ekki síst meðal ungra manna. Stjórninni sem sat 1974- 1978 hafði ekki tekist að kveða niður verðbólguna. Hún þokaði engu um mikil afskipti ríkisins á ýmsum sviðum. Ríkisstofnanir ákváðu enn verð á vörum og þjónustu og vexti í lánasamningum. Lögboðnir vextir voru langt undir verðbólgu. Ekki mátti kaupa gjaldeyri á frjálsum markaði. Stjórnin stóð fyrir mislukkaðri fjárfestingu í Kröfluvirkjun, en þar fannst ekki næg gufa þegar ræsa átti aflvélarnar, sem búið var að setja upp. Þorsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins, sagði um þetta árið 1979: ,,Þegar farið er yfir þingmál Sjálfstæðismanna frá 1974 til 1978, kemur í ljós, að þar kennir ekki margra grasa, er bent geti til þess, að þingmenn flokksins hafi á löggjafarsamkundunni unnið að framgangi sjálfstæðisstefnunnar. Þingflokkurinn var ekki tilbúinn til þess að berjast fyrir breytingum á efnahagskerfinu á grundvelli frjálshyggjunnar.“ i Var markmiðið kannski bara pot í þágu sérhagsmunahópa? Þorsteinn segir frá fyrirgreiðslustjórnmálamanni sem lagðist alltaf gegn sálfræðingum á opinberum vettvangi. Þannig vildi hann leggja áherslu á ,,hægri viðhorf“. En jafnframt var það vinnuregla hans að sinna beiðnum allra sem leituðu til hans. Sálfræðingar sem fóru á hans fund fengu að sjálfsögðu úrlausn sinna mála.ii Um Kröfluvirkjun segir Þorsteinn: ,,[Hún] sýndi, að Sjálfstæðismenn voru reiðubúnir til þess að nota aðgang sinn að almannafé í því skyni að reisa sér minnisvarða sem einstaklingum án tillits til arðsemi ... Ríkisstjórnin verður ekki nema að takmörkuðu leyti sökuð um þau tæknilegu mistök, sem þarna urðu. Kjarni málsins er sá, að Kröfluvirkjun var og er fjármálalegt ævintýri burt séð frá gufuleysinu.“ iii Annar ungur sjálfstæðismaður, Davíð Oddsson borgarfulltrúi, lét orð falla í svipaða átt: ,,Sjálfstæðisflokkurinn stóð ekki gegn gegndarlausri opinberri fjárfestingu í síðustu ríkisstjórn. Hann stóð að henni.“ iv Davíð fjallaði um sigur Alþýðuflokksins í kosningunum 1978, sem var ekki síst sigur hægri krata: ,,Hvers vegna sveigja Alþýðuflokksmenn sig svo að stefnu sem öll lögmál segja að Sjálfstæðismenn hljóti að berjast fyrir? Þeir skynja að hrein sjálfstæðisstefna, frjálshyggja, hefur sjaldan átt meiri hljómgrunn með þjóðinni en nú ... Alþýðuflokkurinn vann stórsigur þegar hann lét greipar sópa um mörg eiginleg baráttumál Sjálfstæðisflokksins.“ SIguRðuR JÓHANNESSON HAgFRæðINguR

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.