Vísbending


Vísbending - 24.12.2012, Blaðsíða 13

Vísbending - 24.12.2012, Blaðsíða 13
13 og förunautur hans. Móðir Arons bjó á Rauðamel syðra, sem er í fjögurra kílómetra fjarlægð frá Gullborgarhrauni. Segir sagan að þeir hafi leitað á náðir hennar. „Og litlu síðar var þeim fylgt til eins hellis, er þar var í hrauninu mjög langt frá bænum. Og hefur sá hellir þar af nafn tekið og er kallaður Aronshellir. Síðan voru þangað fluttar vistir af trúnaðarmönnum þeirra og klæði, svo að þeir máttu bjargast við, og námu þar staðar um hríð“, segir í Guðmundar sögu. Það er því ekki útilokað að þarna sé fundinn Aronshellir. útilegumenn á sautjándu öld Lengst af er vitneskja um útilegumenn á Íslandi brotakennd og sveipuð þoku. En eftir að farið var að halda opinberar gjörðabækur um dóma yfir sakamönnum á Alþingi á Þingvöllum snemma á sautjándu öld verða heimildir traustari. Á þeim bókum hittum við fyrir nafngreinda útilegumenn og kynnumst sögu þeirra eins og hún horfir við valdsmönnum landsins. Frekari upplýsingar um þessa menn er síðan hægt að sækja í margvíslegar aðrar ritheimildir frá sama tímabili, svo sem prestþjónustubækur og sóknarmannatöl. Annálum, sem greina frá samtímaviðburðum, fjölgar mjög á þessum tíma og geyma þeir einnig mikilvægar heimildir um sakamenn sem lagst hafa út. Elsta heimildin um útilegumann í Alþingisbókum er frá árinu 1602. Þar er greint frá dómi yfir „vandræðamanninum“ Birni Þorleifssyni sem fjórum sinnum hafi fallið í hórdóm og síðan verið staðinn að útilegu og þjófnaði. Bendir þetta til þess að Björn hafi flúið til fjalla undan réttvísinni og að líkindum stolið sauðum sér til matar. Hann var dæmdur til dauða og tekinn af lífi. Um útilegu Björns er ekkert vitað en í Skarðsárannál er aftur á móti mögnuð lýsingu á aftöku hans: „Biskupinn herra Oddur áminnti hann sjálfur. Hann kvaddi menn með handabandi, áður sig niður lagði á höggstokkinn, og bauð svo öllum góða nótt. Var hann með öllu óbundinn. Jón böðull, er höggva skyldi, var þá orðinn gamall og slæmur og krassaði í höggunum, en Björn lá kyr á grúfu, og þá sex höggin voru komin, leit Björn við og mælti: Höggðu betur, maður! Lá hann svo grafkyr, en sá slæmi skálkur krassaði ein 30 högg, áður af fór höfuðið, og var það hryggilegt að sjá.“ Næstu árin koma útilegumenn öðru hverju fyrir í dómabókunum og öðrum heimildum. Áður en öldin er liðin eru karlarnir, sem nafngreindir eru, orðnir átta til viðbótar og konurnar tvær. Raunar eru konurnar fjórar samkvæmt sumum heimildum, ef rétt er að eiginkona og frilla eins útilegumannsins hafi farið til fjalla með honum. Útilegumennirnir á sautjándu öld eru þó mun fleiri ef með eru taldir þeir sem ónafngreindir eru í annálum og hvergi koma fyrir í dómabókum. Ólíklegt er að allir þeir menn séu hugarburður annálaritara; varðveisla dómabóka var misjöfn og ekki komu öll mál útilegumanna til meðferðar dómstóla. Rætur flestra mála hinna nafngreindu manna liggja í brotum á hinum ströngu siðferðisreglum Stóradóms. Ofan á þau bætast síðan yfirleitt þjófnaðarbrot í útilegunni sem reynist skammgóður vermir. Enginn útilegumannanna gat hulist yfirvöldunum til lengdar. Einn karlmannanna komst að vísu úr landi með enskum fiskimönnum og er sagður hafa kvænst úti, en allra hinna, karla sem kvenna, biðu grimm örlög. Fylgikonu þess, sem slapp úr landi, var drekkt eftir að hún hafði alið barn þeirra sem getið var í vetrarvist þeirra 1609-1610 í helli einhvers staðar í Kollafirði á Ströndum. Sex karlanna sjö sem fundust voru teknir af lífi, en einn er sagður hafa látist á felustað sínum, óþekktu jarðhýsi í Hjarðardal í Dýrafirði, áður en tókst að flytja hann til byggða. Sá hafði átt barn með hálfsystur sinni; hún fylgdi honum ekki í útlegðina en hlaut sinn miskunnarlausa dóm engu að síður; var drekkt á Þingvöllum. útilegumenn á átjándu öld Átjánda öldin er mesti hörmungartími Íslandsögunnar frá því að drepsóttirnar gengu yfir landið á fimmtándu öld. Hvert áfallið fylgdi öðru; bólusótt 1707 til 1709 sem lagði um fjórðung þjóðarinnar að velli, hungursneyð 1751 til 1758 sem leiddi til þess að landsmönnum fækkaði um sex þúsund, og loks Skaftáreldar og Móðuharðindin 1783 til 1785 sem lögðu hluta af byggðum landsins í eyði og felldu um 20% landsmanna úr hungri og sjúkdómum. Það kemur ekki á óvart að í slíku árferði sé mikið um sauðaþjófnað, innbrot í fjós og annan ránskap til matar. Áreiðanleg vitneskja er um 26 útilegumenn, flesta á fyrstu árum aldarinnar, þar af aðeins um eina konu. Og nú bregður svo við að það eru ekki siðferðisbrotin sem hrekja menn í felur eða til óbyggða eins og á öldinni á undan heldur oftast þjófnaðir. Átta þessara útilegumanna voru dæmdir til dauða og líflátnir, en einn var drepinn af öðrum útilegumanni. Ef lýsingar annála á framferði útilegumanna á þessum tíma eru á rökum reistar, gætu þær sem hægast verið rótin að útilegumannaóttanum sem mjög var til umræðu á 19. öld. Í mörgum annálum er sagt frá því hvernig útilegumenn sitja um vegfarendur á Talið er að Fjalla-Eyvindur hafi búið í þessum helli í Hvannalindum fyrir 1770. Hann er lítill en í honum er rennandi vatn.

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.