Vísbending


Vísbending - 24.12.2012, Blaðsíða 24

Vísbending - 24.12.2012, Blaðsíða 24
24 Í asanum við uppbyggingu hins nýja Íslands á tuttugustu öld varð margt gamalla húsa og minja framkvæmdagleðinni að bráð. Jarðýtutennur sléttuðu út húsarústir landnámsmanna til sveita og ruddu torfbæjum ofan í svörð. Í kaupstöðum voru fúnir húshjallar rifnir og brenndir og ný hús steypt upp á auga-lifandi bragði. Gamlir bátar voru dregnir á áramótabrennur og eldur lagður í gömul hús í æfingaskyni fyrir slökkvilið. Nútíminn var mættur á staðinn og enginn tími til þess að velta því fyrir sér hvort nýtt væri undantekningarlaust betra en gamalt. Á seinni hluta tuttugustu aldar fór að ryðja sér til rúms sú hugsun að gömul hús gætu verið verðmætar minjar þótt þau væru ekki beinlínis fornleifar í hefðbundinni merkingu orðsins. Víða í þéttbýli reis andóf gegn stjórnlausu niðurrifi og eflaust minnast margir deilna og átaka kringum förgun eða varðveislu húsanna við Lækjargötu í Reykjavík sem almennt eru kölluð Bernhöftstorfan. Þeirri orustu lauk með sigri friðunarsinna en margar aðrar orustur töpuðust. Utan Reykjavíkur var ekki um auðugan garð að gresja eftir gömlum húsum með sál og sögu. En á nokkrum fornum verslunarstöðum stóðu langt fram á 20. öld gömul pakkhús og verslunarhús sem fólu Íslandssöguna í fúnum þiljum og tjörguðum bitum. Einn þessara staða er Ísafjörður sem fékk kaupstaðarréttindi 1786 um leið og Reykjavík og Grundarfjörður. Á Ísafirði stóð enn í lok 20. aldarinnar þyrping af fornum verslunarhúsum þar sem heitir frá fornu fari Neðstikaupstaður. Elst þeirra húsa sem þar standa er krambúð einokunarverslunarinnar frá 1757, íbúðarhús faktorsins, byggt 1765, Tjöruhúsið, byggt 1781 og Turnhúsið, byggt 1784. Í þessum húsum var starfrækt verslun í eigu dönsku einokunarverslunarinnar til 1788 en eftir það í eigu ýmissa erlendra kaupmanna til 1883 þegar Ásgeirsverslun á Ísafirði tók við rekstrinum. Þegar kom fram á áttunda áratug aldarinnar voru gömlu verslunarhúsin í Neðsta farin að láta töluvert á sjá. Hin hljóðu eyðingaröfl unnu starf sitt hægt og örugglega og gömlu húsin biðu örlaga sinna með iðandi athafnalíf hafnarinnar á aðra hönd og brambolt og suðuglampa skipasmíðastöðvar Marsellíusar á hina. Nútíminn var löngu kominn á Eyrina eins og annars staðar þótt tíminn stæði í stað innan veggja hinna öldnu húsa. ÍSAFJöRðuR: ÞAR SEm gAmLI TÍmINN LIFIR Neðst á eyrinni á Ísafirði stendur eina samstæða þyrping verslunarhúsa á Íslandi sem varðveist hefur frá tímum danskrar einokunar. Framsýni fáeinna heimamanna og þrautseigja varð til þess að þau voru ekki rifin heldur endurgerð af stakri vandvirkni og eru einn helsti fjársjóður og aðdráttarafl Ísafjarðar í dag. Gamla sjúkrahúsið á Ísafirði setur mikinn svip á bæinn. Það var vígt 1925, byggt eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar. Í dag hýsir það bókasafn og skjalasafn og er sérlega lifandi og skemmtilegur staður. Faktorshúsið í Neðstakaupstað. páLL áSgEIR áSgEIRSSON BLAðAmAðuR

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.