Víkurfréttir


Víkurfréttir - 24.09.2009, Blaðsíða 17

Víkurfréttir - 24.09.2009, Blaðsíða 17
8 BLÓMSTRANDI MANNLÍF VÍKURFRÉTTIR 9VÍKURFRÉTTIR BLÓMSTRANDI MANNLÍF Ungmennafélagshugsjónin barst hingað til lands frá Noregi laust eftir aldamótin 1900 og náði að skjóta rótum víða um land á ótrúlega skömmum tíma. Ungmennafélagshreyfingin varð brátt að öflugri fjöldahreyfingu sem frá upphafi var ein styrkasta stoð félagslegs starfs í byggðarlögum landsins. Ungmennafélögin urðu driffjöðurin víða í félagsstarfi og hagsmunabaráttu í byggðarlögum sínum. Þau létu sér fátt mannlegt óviðkomandi og vildu stuðla að aukinni menntun og menningu þjóðarinnar undir markmiðinu „Ræktun lýðs og lands„ og kjörorðinu „Íslandi allt“. Veigamikill hluti starfsins fólst í íþróttaiðkun og almennri félagastarfsemi. Þetta átti ekki síst við um starf Ungmennafélagsins í Keflavík. Lítill knattspyrnuáhugi Lítt örlaði á knattspyrnuáhuga í Keflavík á fyrstu áratugum 20. aldar en í Sögu Keflavíkur kemur fram að skömmu fyrir fyrri heimsstyrjöldina hafi nokkrir unglingar farið að stunda íþróttina og gert sér einkonar knattspyrnuvöll á Melnum svokallaða. Þar æfðu þeir í eitt eða tvö ár en síðan lagðist iðkun boltaíþrótta af í Keflavík um tveggja áratuga skeið. Jóna Sigurjónsdóttir barnakennari mun einnig hafa staðið fyrir fimleikaæfingum stúlkna og hafði á sínum vegum sýningarflokk sem m.a. kom fram á almennum skemmtunum í byggðarlaginu seint á öðrum áratug aldarinnar. Ungmennafélag Keflavíkur stofnað Sunnudaginn 29. september 1929 safnaðist hópur ungs fólks saman í samkomuhúsinu Skildi í Keflavík í þeim sérstaka tilgangi að stofna með sér félagsskap „sem starfaði á svipuðum grundvelli og ungmennafélög landsins“, eins og segir í fyrstu fundargerð félagsins. Vafalaust hefur þessi félagsstofnun átt sér töluverðan aðdraganda eins og jafnan þegar slík félög eru stofnuð. Áhugafólk hafði hittst og borið saman bækur sínar og sannfærst endanlega um að grundvöllur væri fyrir slíku félagi í héraði þeirra. Að lokum hafði svo hugmyndinni verið hrundið í framkvæmd. Tilraun mun hafa verið gerð til að stofna ungmennafélag í Keflavík snemma á 2. áratugnum en sú tilraun fór út um þúfur. Hinn 29. september 1929 kom hins vegar saman áðurnefndur hópur fólks í Skildi til þess að stofna með sér ungmennafélag. Á þessum stofnfundi Ungmennafélags Keflavíkur fóru fram umræður um störf og stefnu félagsins auk þess sem rætt var um nafngift þess. Kom þar m.a. fram tillaga um að félagið yrði látið heita Ungmennafélagið Bjarg en ekki fékk sú uppástunga hljómgrunn. Ákveðið var að kenna félagið einfaldlega við Keflavík og nefna það Ungmennafélag Keflavíkur. Af fundargerðinni sem skráð var á fundi þessum má glögglega marka að ekki hefur aðbúnaður til fundarhalda verið alltof góður. Líflegt starf og umræður Stofnun Ungmennafélags Keflavíkur vakti töluverða athygli í þorpinu, ekki síst meðal ungu kynslóðarinnar. Fjöldi manns gekk í félagið og frá upphafi urðu líflegar umræður á fundum félagsins um stefnumál þess varðandi margskonar umbætur í Keflavík. Í fundarlok var það tíðast að bekkjum var raðað upp við veggi og fólk fékk sér snúning við harmoníkuundirleik. Einnig var farið með ýmis gamanmál. Leiklistin á dagskrá Af fundargerð fyrsta almenna félagsfundarins í UMFK sem haldinn var 6. október 1929, má ráða þann hug sem var í fólki að hrinda í framkvæmd ýmsum áhugamálum sínum. Á þessum fundi bar þrjú mál hæst. Það fyrsta var leiklistarstarfsemi, en um það mál flutti Bergsteinn Sigurðsson framsöguræðu, er hann nefndi: „Félagið þarf að leika góð leikrit“. Annað málið var bygging sundskýlis „á hentugum stað við sjó“ og þriðja málið var svo fjármögnun starfsins og koma þar fram í umræðunum ýmis vandamál sem þekkt eru hjá íþróttahreyfingunni enn þann dag í dag. Bygging sundskýlis Helst var talið líklegt til árangurs að efna til hlutaveltu, en nokkrir félaganna voru þó á móti því. Þeir sögðu að það væri ekki nógu gott að byrja félagsstarfsemina „með betli og mundi hljótast af því óorð hið mesta“, eins og haft er eftir einum fundarmanna. Þegar bygging sundskýlisins bar á góma komu líka fram ýmis vandamál, m.a. staðarvalið, og einnig var bent á hættu af hákörlum, sem sagt var að gengju hættulega nærri landi. Örlagavaldur í sögu Kefl avíkur Um 1933-34 ruddu UMFK- félagar íþróttavöll á melunum ofan við Keflavíkurkirkju. Hann var 80 m langur og 50 m á breidd. Völlurinn var vígður 29. júlí 1935 með fyrsta leik keflvísks knattspyrnuliðs við utanbæjarlið. Haukar frá Hafnarfirði unnu leikinn 3:0. Engar heimildir eru um annað íþróttafélag í Keflavík en UMFK á þessum árum. Þegar breska setuliðið lagði Hringbrautina um 1940, lagðist íþróttastarf niður á melunum og íþróttamenn fluttu sig í kvosina sem síðar varð Skrúðgarður Keflavíkur. Stjórn Ungmennafélags Keflavíkur 1959. Frá vinstri: Hörður Guðmundsson ritari, Guðfinnur Sigurvinsson meðstjórnandi, Þórhallur Guðjónsson formaður, Gunnar Sveinsson varaformaður og Steinþór Júlíusson gjaldkeri.

x

Víkurfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.