Neytendablaðið


Neytendablaðið - 01.03.2009, Blaðsíða 20

Neytendablaðið - 01.03.2009, Blaðsíða 20
Það er ljóst að íslenskt efna- hagslíf hefur um langt skeið verið í miklu ójafnvægi. Ólafur Darri Andrason, hag- fræðingur ASÍ, segir að margt hafi valdið því að hér fór allt úr böndunum. „Bankarnir voru einkavæddir og á sama tíma var gott aðgengi að ódýru erlendu lánsfé. Íbúðalánasjóður hóf að bjóða 90% húsnæðislán og bankarnir fylgdu á eftir og buðu lægri vexti á íbúðalán en áður höfðu sést, ekkert þak var á lánsupphæð og lánshlutfallið gat farið upp í 100%. Þá stóðu yfir umfangsmiklar stóriðjuframkvæmdir við Kárahnjúka og stækkun verksmiðju Norðuráls. Stjórnvöld lækkuðu skatta á tímabilinu og ríkisútgjöld jukust. Við gagnrýndum stjórnvöld fyrir að ýkja hagsveifluna í stað þess að dempa hana. Þar á bæ gleymdu menn því að sígandi lukka er best.“ Ítrekað hefur verið bent á að ríkið hafi náð að greiða niður skuldir á undanförnum árum. Var það ekki góður árangur? Miðað við tekjur ríkissjóðs hefði þá verið hægt að greiða niður skuldir að fullu og jafnvel safna í sjóði? „Það var jákvætt að ríkið gat greitt niður skuldir sínar. Hér verðum við að hafa í huga að í mikilli þenslu eins og við bjuggum við jukust tekjur ríkisins mjög mikið. Tekjuskattar jukust með hækkandi tekjum, veltuskattar gáfu af sér áður óþekktar tekjur og það sama átti við um fjármagnstekjuskatta og tekjuskatta fyrirtækja. Eins voru eignir ríkisins seldar, s.s. bankarnir og Síminn. Það var því ekki mikið afrek að skila ríkissjóði hallalausum og greiða upp skuldir. Við hefðum þurft að eiga miklu stærri varasjóð þegar við komum út úr þenslunni til að geta tekist á við niðursveifluna. Í þessu ljósi var efnahagsstjórnin óábyrg.“ Það er ljóst að fyrirtæki og heimilin hafa tekið gríðarleg lán á undanförnum árum. Skuldsetning þjóðarinnar var þegar orðin áhyggjuefni upp úr síðustu aldamótum. Hvað hefði verið hægt að gera til að stöðva þessa útlánaþróun? „Á þenslutímum standa menn á bremsunni. Stjórnvöld hefðu átt að sleppa því að lækka skatta, fara varlega í að auka ríkisútgjöld og sleppa því að setja íbúðamarkaðinn á annan endann með því að rýmka útlánareglur Íbúðalánasjóðs árið 2004. Þetta hefði dregið úr þenslunni í hagkerfinu og þar með sókninni í lánsfé. Seðlabankinn hefði til viðbótar sínum háu stýrivöxtum mátt þrengja meira að bönkunum, t.d. með hertri bindiskyldu.“ Það er ekki laust við að meiri gagnrýni gæti í skýrslum ASÍ árin 2004, 2005 og 2006 en í skýrslum frá 2007 og 2008. Þó hafði allt þróast til verri vegar; verðbólgan hafði aukist, viðskiptahallinn einnig, stýrivextirnir voru með því hæsta sem þekkist, krónan hafði fallið og skuldir heimila og fyrirtækja höfðu aukist. Hvernig stendur á því að spáin 2007 var ekki svartsýnni? Voru menn orðnir samdauna ástandinu? „Spá ASÍ árið 2007 var nokkuð bjartsýn og það má m.a. rekja til þess að bankarnir höfðu ráðist í breytingar á starfsemi sinni eftir þá miklu gagnrýni sem þeir urðu fyrir snemma árs 2006. Margt benti til þess að bankarnir hefðu tekið til í sínum ranni og stæðu traustum fótum. Lánshæfismat bankanna hækkaði og það var almenn trú manna að fjármálakerfið stæði styrkari fótum árið 2007 en 2006. Við vorum því nokkuð bjartsýn árið 2007 á að ekki yrði mikill samdráttur í lok stóriðjuframkvæmdanna, m.ö.o. að lending hagkerfisins yrði mjúk. Vorspáin 2008 er hins vegar mun svartsýnni en þar spáðum við snarpri aðlögun hagkerfisins með tveggja ára samdrætti landsframleiðslunnar. Þó að við værum hér orðin svartsýn þá verður að játast að okkur óraði ekki fyrir því hruni sem framundan var, frekar en aðra.“ Er hægt að kenna heimskreppunni einni um hrunið? Ólafur Darri telur að svo sé ekki: „Við höguðum okkur óskynsamlega og súpum nú seyðið af því. Við hefðum líklega sloppið við að missa alla bankana ef ekki hefði komið til þessi alvarlega alþjóðlega fjármálakreppa en við getum ekki kennt henni einni um því að miklu leyti er við heimagerðan vanda að etja.“ Þegar horft er til framtíðar telur Ólafur Darri að þrátt fyrir mikinn vanda sé margt jákvætt sem geti hjálpað okkur: „Þrátt fyrir hrunið erum við ein ríkasta þjóð í heimi og búum yfir miklum auðlindum; við eigum fiskinn í sjónum, orkuna í fallvötnunum og jörðinni og mikinn mannauð. Við getum því verið fljót að vinna okkur út úr vandanum. Samhliða því að við tökumst á við aðsteðjandi bráðavanda verðum við að ákveða hvernig við ætlum að tryggja hér stöðugleika og byggja upp góð lífskjör og öflugt atvinnulíf til framtíðar. Eitt af því sem hrunið hefur kennt okkur er að við getum ekki komið hér á stöðugleika með því að halda í krónuna. Við þurfum því að ákveða hvað kemur í stað krónunnar. Þar blasir við að innganga í Evrópusambandið og upptaka evru er langbesti kosturinn í stöðunni ef við fáum viðunandi undanþágur í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.“ -BP- Sígandi lukka er best Ólafur Darri Andrason áfram á fyrstu mánuðum þessa árs og það á meiri hraða en árið 2004. Þær skýringar eru gefnar á þessu misræmi orða og athafna, að það taki tíma að tæma loforðin í útlánapípunum. Seðlabankinn treystir því enn að áform um breytingar til hins betra gangi eftir, enda er mikið í húfi.“ Skollaeyrum skellt Athygli vekur að útlán bankanna héldu áfram að aukast mikið þrátt fyrir ákall Seðlabankans. Bankarnir virtust ekkert mark taka á viðvörunum SÍ og fóru sínu fram og virtust hafa fullt frelsi til þess. Þá vekur athygli að SÍ lækkaði bindiskylduna 2003 til að samræma hana evrópskum seðlabönkum. Fram hefur komið að bankinn hafi ekki talið að bindiskyldan væri til þess fallin að hefta útlán bankanna. Spurningum ósvarað Neytendablaðið sendi SÍ nokkrar spurningar sem sneru m.a. að því hvað bankinn hefði gert til að hefta útlánaaukningu bankanna og hvort það hafi yfirhöfuð verið raunhæft að halda aftur af verðbólgu með stýrivaxtahækkunum á sama tíma og ríkisútgjöld jukust, almenningur og fyrirtæki höfðu greiðan aðgang að lánum og skattar voru lækkaðir. Einnig var spurt með hvaða hætti Seðlabankinn hafi verið ríkisstjórninni til ráðuneytis á undanförnum árum í gjaldeyris- og peningamálum og hver viðbrögð stjórnvalda við ráðleggingum SÍ hefðu verið. Því miður sá SÍ sér ekki fært að svara spurningum Neytendablaðsins en álag á starfsfólk hefur verið mikið í bankanum að undanförnu. Við væntum þess að spurningunum verði svarað þegar um hægist og munum birta þær í næsta blaði. 0 NEYTENDABLA‹I‹ 1. TBL. 2009

x

Neytendablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Neytendablaðið
https://timarit.is/publication/904

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.