Neytendablaðið


Neytendablaðið - 01.03.2007, Blaðsíða 8

Neytendablaðið - 01.03.2007, Blaðsíða 8
Nú liggja fyrir tveir dómar Héraðsdóms Reykjavíkur vegna krafna um skaðabætur vegna verðsamráðs olíufélaganna. Í báðum tilvikum voru olíufélögin dæmd til að greiða bætur. Annarsvegar er um að ræða skaðabætur til Reykjavíkurborgar og hins vegar til einstaklings en að baki þess máls stóðu Neytendasamtökin. Samráðið staðfest Lengi hafði almannarómur haldið því fram að samkeppni olíufélaganna væri ekki með eðlilegum hætti. Þetta var staðfest þegar fyrri hluti skýrslu Samkeppnisstofnunar lak í fjölmiðla sumarið 2003. Þar kom fram að samráð olíufélaganna var staðreynd. Mikil reiðialda greip um sig í samfélaginu enda töldu flestir hér um mjög gróft brot að ræða. Þetta leiddi ekki aðeins til hækkunar á þeim vörum sem olíufélögin seldu því samráðið leiddi einnig til þess að verð á ýmsum öðrum vörum og þjónustu hækkaði. Loks leiddi samráðið til þess að vísitölubundin lán hækkuðu. Það er því ljóst að tjón neytenda var verulegt. Í skýrslu Samkeppnisstofnunar var beint tjón af samráðinu áætlað 6,5 milljarðar króna á því átta ára tímabili sem það stóð og samfélagslegt tap var áætlað 40 milljarðar króna. Hagnast ekki á samráði! Raunar hafa olíufélögin haldið því fram að ólögmætt samráð þeirra hafi ekki leitt til aukins hagnaðar þeirra. Þessu hafa fjölmargir aðilar hafnað, meðal annars Héraðsdómur Reykjavíkur með áðurnefndum dómum. Enda verður það að teljast afar hæpið að aðilar í viðskiptum skuli sammælast um að brjóta eina mikilvægustu grein samkeppnislaga nema til þess að hagnast umfram það sem þau hefðu gert ella. Einnig liggur fyrir viðurkenning olíufélaganna á ólögmætu samráði, en þau báðust afsökunar á framferði sínu með auglýsingum í kjölfar úrskurðar samkeppnisyfirvalda. Neytendasamtökin höfða skaðabótamál Í desember 2004 héldu Neytendasamtökin opinn fund um samráð olíufélaganna. Í kjölfar hans var ákveðið að hvetja neytendur, sem áttu bensínkvittanir frá því tímabili sem verðsamráðið stóð yfir, að skila þeim til Neytendasamtakanna. Á annað hundrað neytendur sendu Neytendasamtökunum gögn um viðskipti sín við olíufélögin. Í framhaldi af því fólu Neytendasamtökin Lögfræðistofu Reykjavíkur að höfða mál fyrir einn þeirra sem sendu samtökunum gögn og annaðist Steinar Guðgeirsson hrl. málflutninginn fyrir hönd viðkomandi einstaklings. Neytendasamtökin tóku á sig fjárhagslega ábyrgð vegna málsins enda var litið á það sem prófmál sem greitt gæti götu annarra neytenda. Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur Þann 6. desember sl. var svo kveðinn upp dómur hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, en málið var höfðað gegn Keri hf. (Olíufélaginu). Ker hf. var sýknað af aðal- og varakröfu, en þrautavarakröfu og þrautarþrautarvarakröfu var vísað frá dómi auk kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu. Að mati Neytendasamtakanna var þessi niðurstaða mikið áfall fyrir neytendur enda hafa fjölmargar rannsóknir sýnt að samráð fyrirtækja leiðir til hækkaðs verðs og þar með stórfellds tjóns fyrir neytendur. Auk þess var það mat Neytendasamtakanna og Lögfræðistofu Reykjavíkur að slaka þyrfti á sönnunarkröfum í máli sem þessu. Í dómnum var hluta krafnanna vísað frá með þeim rökstuðningi að stefnandi hefði getað aflað sér mats til stuðnings kröfum sínum. Það er ljóst að mat hagfræðinga á svona flóknu máli hefði kostað óhemju mikla fjármuni og ekki fyrir einstaklinga að leggja út í það og reyndar ekki fyrir samtök með takmarkaða fjármuni á milli handanna. Kært til Hæstaréttar Stjórn Neytendasamtakanna samþykkti í framhaldinu að kæra til Hæstaréttar niðurstöðu Héraðsdóms um að vísa hluta málsins frá. Hæstiréttur kvað síðan upp dóm þann 18. janúar sl. þar sem lagt var fyrir Héraðsdóm að taka kröfuna um bætur að álitum til efnismeðferðar, þ.e. að Héraðsdómur tæki efnislega afstöðu til kröfunnar. Í framhaldi af þessu var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi 16. febrúar sl. þar sem Keri hf. var gert að greiða viðkomandi neytanda skaðabætur. Dæmdar skaðabætur voru reyndar ekki háar, eða 15.000 krónur, en dómurinn verður engu að síður að teljast sigur fyrir neytendur enda er hann fyrstur sinnar tegundar á Íslandi. Fram hefur komið í fréttum að Ker hf. muni áfrýja niðurstöðu Héraðsdóms til Hæstaréttar. Lög um hópmálsókn Samráð olíufélaganna hefur sýnt ljóslega nauðsyn þess að sett verði lög um hópmálsókn. Ef slík lög væru fyrir hendi hefðu Neytendasamtökin í einu máli getað höfðað skaðabótamál fyrir stóran hóp neytenda. Neytendasamtökin skrifuðu Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra bréf þann 12. apríl sl. þar sem hann var hvattur til að beita sér fyrir að samið yrði frumvarp um þetta efni að norrænni fyrirmynd og lýstu Neytendasamtökin sig reiðubúin til samstarfs um þetta. Dómsmálaráðherra sendi þetta erindi til umsagnar réttarfarsnefndar en Neytendasamtökunum hefur ekki borist formlegt svar við erindinu. Samráð olíufélaganna – skaðabætur dæmdar  NEYTENDABLA‹I‹ 1. TBL. 2007 Cl ick to b uy N OW !PD F- XCh ange Viewer w w w.docu-track .c om Cl ick to b uy N OW !PD F- XCh ange Viewer w w w.docu-track .c om

x

Neytendablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Neytendablaðið
https://timarit.is/publication/904

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.