Neytendablaðið


Neytendablaðið - 01.03.2007, Blaðsíða 10

Neytendablaðið - 01.03.2007, Blaðsíða 10
Umhverfis- og samgöngumál haldast í hendur, enda eru umhverfisáhrif af bílum ekki einkamál bíleigenda heldur samfélagslegt vandamál. Neytendablaðið hefur áður fjallað um samgöngumál, m.a. í greininni „Bíllaus - fótalaus?”, sem birtist í október 2004. Þar var fjallað um þann möguleika að leggja einkabílnum en það hugnast fæstum enda margir þeirra skoðunar að daglegu amstri sé ekki hægt að sinna án einkabílsins. Kosturinn við að hafa sinn eigin bíl til umráða er óumdeildur en það hljóta að vera takmörk fyrir því hversu marga vegi og bílastæði er hægt að leggja undir sístækkandi bílaflotann. Góðar almenningssamgöngur hljóta að vera lykilatriði ef markmiðið er að fækka í einkabílaflota landsmanna. Allir með strætó...á Akureyri! Sveitarfélög hafa farið ólíkar leiðir til að efla almenningssamgöngur. Bæjarstjórnin á Akureyri ákvað að bjóða öllum frítt í strætó frá og með síðustu áramótum og árangurinn er um 60% aukning á farþegum. Á sama tíma hækkuðu fargjöld í strætó um 10% á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. hjá Strætó bs. Á tæplega 6 árum hafa nokkrir gjaldskrárliðir hjá Strætó bs hækkað um 40-100%. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um tæp 25% á sama tíma. Hér er því um að ræða tvær gjörólíkar leiðir og forvitnilegt verður að fylgjast með þróuninni á Akureyri og því hvort þessar breytingar leiði til minni bílaumferðar og minni svifryksmengunar sem hefur verið vandamál þar. Það er dýrt að reka strætó Rekstrarvandi Strætó bs er mikill og sveit- arfélögin á höfuðborgarsvæðinu þræta um rekstrarframlögin. Þá hefur Strætó bs höfðað til ríkisins um að lækka álögur sem lagðar eru á starfsemina, enda um samfélagslegt verkefni að ræða. Fram hefur komið að kostnaður á hvern íbúa við rekstur strætisvagna er mun meiri á höfuðborgarsvæðinu en á Akureyri. Árið 2002 var kostnaður á hvern Akureyring 2.758 kr. en 6.703 kr. á hvern höfuðborgarbúa. Neytendablaðið kann ekki skýringu á því hvers vegna munurinn er svona mikill en að öllu eðlilegu ætti kostnaður að vera minni eftir því sem stærri hópur stendur á bak við reksturinn. Þá er spurning hvort íbúar höfuðborgarsvæðisins væru ekki almennt sáttir við að greiða um 3.000 kr. á ári í aukaútsvar til að standa að baki rekstri á ókeypis strætó og minnka þannig álagið á götum borgarinnar. Eigðu afganginn Strætó bs hefur haft þó nokkra búbót af þeim leiða sið að gefa ekki til baka þegar um einstök fargjöld er að ræða. Neytendablaðið hefur ekki tölur um hverju það skilar í kassann en í dag er fargjaldið 280 kr. Farþegar sem eru bara með þrjár hundrað krónu myntir í vasanum eru neyddir til að gefa Strætó bs 20 kr. í þjórfé. Þessi tekjulind hefur greinilega ekki hjálpað Strætó bs nægilega en það er umhugsunarefni hvað íslenskum neytendum er boðið uppá. Það eru alltaf færri og færri sem ganga með smáaura á sér og þá er óskiljanlegt af hverju ekki er boðið uppá kortagreiðslur í vögnunum. Það er mun líklegra að almenningur splæsti í afsláttarmiða (11 ferðir) sem kosta 2500 kr. hjá vagnstjóra ef hann væri með greiðslukortaposa. Í dag er það þannig að vagnstjórinn getur ekki einu sinni gefið til baka af 3.000 kr. Kannski eru þetta smámunir, en allt skiptir máli til að fá almenning til að nota strætó. Ef strætó væri ókeypis næðist að sjálfsögðu töluverð hagræðing þar sem ekki þyrfti að kosta umsýslu við sölu á farmiðum og afsláttarkortum. Allir geta hjálpast að Á annatímum myndast oft umferðarteppa í höfuðborginni og ekki þarf mikið út af að bregða til að töf verði. Á mörgum vinnustöðum er veittur styrkur til að stunda leikfimi og hreyfingu; af hverju ekki að veita styrk til að kaupa strætókort? „Skildu bílinn eftir heima”, gæti verið átaksverkefni á vinnustöðum, t.d. með launauppbót fyrir þá sem ekki nota bílastæði. Einnig mætti hugsa sér styrkveitingu til kaupa á reiðhjólum og tilheyrandi öryggisbúnaði fyrir starfsfólk. Sveitarfélög ættu einnig að setja samgöngur hjólandi og gangandi vegfaranda í forgang í þjónustu sinni, t.d. í hálku eða snjókomu. Að vetri til væri réttara að byrja fyrst á göngustígunum við salt- eða sanddreifingu og hætta þeim leiða sið að ryðja snjónum af akvegum upp á gangstéttirnar. Gangandi og hjólandi eiga ekki lengur að vera annars flokks vegfarendur í umferðinni. Umhverfisráðherra, Jónína Bjartmars, hefur kynnt tillögur starfshóps um svifryksmengun á vegum þar sem m.a. kemur fram að mikilvægt sé að efla almenningssamgöngur og örva hjólreiðar og gangandi umferð með bættu stígakerfi. Þetta hafa t.d. hjólreiðamenn bent á í mörg ár en talað fyrir daufum eyrum. Samnýting á bíl Það er visst frelsi fólgið í því að eiga sinn eigin bíl því fólk vill geta tekið bílinn og skotist í heimsókn, innkaupaferð eða bara í bíltúr. En það þarf ekki endilega að eiga bílinn sjálft til að það sé mögulegt. Svokallað „carsharing” eða samnýting á bíl hefur fest rætur í mörgum borgum erlendis. „Carsharing” var upphaflega stofnað í Sviss fyrir um 30 árum og hefur alls staðar fengið mjög góðar viðtökur, bæði frá íbúum og borgaryfirvöldum. Klúbbarnir bera mismunandi nöfn og hafa sínar eigin reglur og eigin gjaldskrá og meðlimir geta bókað bíl á netinu eða í síma með stuttum eða löngum fyrirvara. Þannig geta meðlimir sem borga árgjald haft aðgang að bíl þegar þeim hentar og einungis er greitt fyrir afnotatíma bílsins. Gjaldið dekkar tryggingar, bensín og annan rekstrarkostnað. (www.carsharing. net). Skipulag Reykjavíkur og nágrennis býður kannski ekki uppá svona félagsskap, en þó er ýmislegt hægt að gera. Landsbyggðarfólk hefur einnig tök á því að samnýta ferðir og Strandamenn hafa t.d. komið sér upp samgöngutorgi (www.strandir.is) með það að markmiði að sameina bíla og nýta ferðir. Í Reykjavík gefur heimasíðan www. samferða.is einnig góð fyrirheit en hún er ekki enn komin í gagnið. Almenningssamgöngur - almannaheill 10 NEYTENDABLA‹I‹ 1. TBL. 2007 Cl ick to b uy N OW !PD F- XCh ange Viewer w w w.docu-track .c om Cl ick to b uy N OW !PD F- XCh ange Viewer w w w.docu-track .c om

x

Neytendablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Neytendablaðið
https://timarit.is/publication/904

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.