Ský - 01.06.2007, Blaðsíða 25
sk‡ 25
áhugamál ráðherra
Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur áreiðanlega í mörg horn að líta í starfi
sínu en hann lætur sig þó ekki muna um að sinna áhugamálum sínum. Það
má reyndar deila um hvort líkamsrækt sé áhugamál fyrir mann í hans stöðu
eða bara lífsnauðsyn í svo krefjandi starfi en í kosningabaráttunni sást hann
vinna með einkaþjálfara í Laugum og lagði sig vel fram, auk þess sem hann
bregður undir sig betri fætinum og skokkar þegar tækifæri gefst. Einnig
hefur hann sagst hafa unun af því að lesa bækur. Flestir vita hinsvegar
hver helsta ástríða Geirs er þegar kemur að frístundum en það er tónlistin
og þá einkum söngur. Hann tók meira að segja óperutónlist sem valgrein
í einum þeirra bandarísku háskóla sem hann stundaði nám í. Geir hefur
fallega og hljómmikla söngrödd og hefur komið fram sem söngvari við ýmis
tækifæri. Hann hefur líka lagt sig eftir því að læra mál óperunnar, ítölsku,
fór á námskeið til Ítalíu fyrir nokkrum árum og heldur sér svo við með
námskeiðum í endurmenntunardeild H Í. Þá hefur hann einnig lagt stund
á nám í fleiri tungumálum sem hann segir að komi sér vel í starfinu, enda
ekki amalegt að geta talað milliliðalaust við starfsbræður sína á þeirra eigin
tungu ef svo ber undir.
Geir H. Haarde forsætisráðherra
Bregður undir sig betri fætinum og
brestur í söng
Geir H.Haarde á sér mörg áhugamál.
Hér sést hann að tafli.
Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra er dýralæknir að mennt og því ekki
að undra að dýrin fái stóran hluta af frístundum hans þótt auðvitað hafi
fjölskyldan forgang en börn hans stunda íþróttir og hann fylgist vel með
afrekum þeirra á því sviði þegar færi gefst. Hann hefur mikinn áhuga á
hestum og hestamennsku og grípur hvert tækifæri til að þeysa á fráum fáki
um nágrenni Hafnarfjarðar. Fyrir kosningarnar 2003 hélt hann myndarlega
kosningavöku í hesthúsi sínu sem stendur við Kaldárselsveg og bauð
þangað gestum og gangandi. Hann hefur einnig látið sig mál hestamanna
nokkru skipta og kemur fram sem fulltrúi ríkisstjórnarinnar á ýmsum þeim
vettvangi sem hestamenn láta sig varða. Árni hefur nú nýverið fest sér til
leigu jörðina Kirkjuhvol í Þykkvabæ og flutti þangað lögheimili sitt í kjölfar
kjördæmaskipta sinna síðastliðið vor, úr Suðvesturkjördæmi og í Suðurkjör
dæmi. Ekki er vafamál að hann mun geta sinnt hestamennskunni af enn
meiri krafti úr sveitinni en hægt er innan StórReykjavíkursvæðisins og hver
veit nema dýralæknirinn taki sig til og komi sér upp almennilegu búi með
kindum, kúm og grísum í sveitasælunni?
Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra
Dýralæknir á hestbaki
Árni M. Mathiesen er hestamaður af lífi og sál og
hefur látið sig málefni hestamanna miklu varða.