Ský - 01.06.2007, Side 26
26 sk‡
áhugamál ráðherra
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefur oft
sagt í blaðaviðtölum að tímaskortur sé það sem helst hrjáir
hana enda er í mörg horn að líta þegar ung börn eru á heimili og
ábyrgðarmikið starf á útivellinum. Áhugamál hennar miðast því
helst við fjölskylduna. Má þar einna helst nefna hestamennsku
en fjölskyldan heldur nokkur hross í húsum og fer í hestaferðir
á sumrin, öllum til mikillar ánægju. Íþróttir hverskonar heyra
undir menntamálaráðuneytið og því kemur það sér vel að
Þorgerður Katrín hefur líka mikinn áhuga á íþróttum og er
gallharður FHingur í dag þó hún hafi sjálf leikið handbolta með
ÍR og jafnvel orðið bikarmeistari með því liði árið 1983. Sjálf
sagt má rekja liðskiptin til þess að „sætasti strákurinn var í
liðinu,“ eins og hún orðar það á heimasíðu FH, en eiginmaður
hennar, Kristján Arason, er þekktur fyrir handboltaleik, bæði
með FH og íslenska landsliðinu. Það kemur svo ekki á óvart
að menntamálaráðherrann Þorgerður Katrín hefur unun af lestri
góðra bóka og á oft góðar stundir í sveitakyrrð með bók í hönd.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra
Handbolti og hestamennska
Menntamálaráðherra á auðvelt með að blanda saman
vinnu og skemmtun en mörg áhugamála hennar heyra
undir menntamálaráðuneytið.
Kristján Lúðvík Möller samgönguráðherra segist hafa verið pínulítill þegar hann fór á skíði
í fyrsta skipti. Siglufjörður er heimabær hans og þar hafa skíðabrekkurnar togað hann til
sín í gegnum áratugina.
„Mér þótti þetta gaman og þessu fylgdi alltaf mikið fjör. Á barns og unglingsárunum var
ég meira á gönguskíðum og keppti í skíðagöngu. Ég man enn þann dag í dag þegar ég
keppti í skíðagöngu í fyrsta skipti. Ákafinn var svo mikill að ég gleymdi að setja á mig
ólarnar á skíðastöfunum sem varð til þess að ég kom stafalaus í mark.”
Svigskíðin tóku svo fljótlega við og segja má að Kristján hafi lagt gönguskíðin á hilluna.
„Það sem heillar mig við skíðamennskuna er útiveran, skemmtilegur félagsskapur,
frjálsræðið og keppni.”
Kristján og eiginkona hans, Oddný Hervör Jóhannsdóttir, er einnig gömul keppnismanneskja
á skíðum en hún er frá Bolungarvík. Þau eiga þrjá syni og eru þeir allir miklir skíðamenn;
Kristján segir að skíðamennskan sé mikið fjölskyldusport. Elsti sonurinn, Jóhann, fékk til
dæmis undanþágu til að keppa fimm ára gamall á Andrésar andar leikunum á sínum tíma
og keppti til tólf ára aldurs samfellt, sem hinir synirnir gerðu einnig.
Kristján rennir sér ennþá á skíðum og mest á Siglufirði. Hann hefur þó haft fá tækifæri
til þess síðastliðinn vetur. Hann fékk til að mynda brjósklos í vetur og þurfti að fara í
bakaðgerð. „Ég tók þó þátt í skíðakeppni frambjóðenda sem haldin var á Akureyri um
síðustu páska og þar kom upp gamla keppnisskapið.” Kristján sigraði í þeirri keppni.
Kristján L. Möller samgönguráðherra
Kom stafalaus í mark
„Það sem heillar mig við skíðamennskuna
er útiveran, skemmtilegur félagsskapur,
frjálsræðið og keppni.”