Ský - 01.06.2007, Qupperneq 28
28 sk‡
áhugamál ráðherra
„Áhugamál stjórnmálamanna eru skrítin. Urriðinn í
Þingvallavatni er mitt helsta áhugamál,” segir Össur
Skarphéðinsson á bloggsíðu sinni en hann hefur
einnig lýst því yfir úr ræðustól Alþingis að kynlíf
laxa félli undir áhugamál hjá sér. Hann hefur enda
skrifað heila bók um urriðann sem fræðimaður en
Össur er líffræðingur að mennt. Bókin heitir Urriða
dans: um ævi og ástir stórurriðans í Þingvallavatni,
kom út hjá Máli og menningu árið 1996 og er löngu
uppseld. Hann hefur líka áhuga á dauðdaga laxins
og stuðlar gjarna að honum sjálfur en Össur er mikill
lax og silungsveiðimaður og líkar best að veiða
í Þingvallavatni sem hann hefur kallað „hápunkt
sköpunarverksins”.
Á veturna sinnir hann íþróttum hugans og segist
sjálfur vera slarkfær skákmaður. Hann sést oft
á skákmótum, enda hefur hann sagt að það sé
andrúmsloftið í kringum skákina sem heillar hann ekki
síður en heilaleikfimin. Hann lagði líka sitt af mörkum
til að Bobby Fischer fengi íslenskan ríkisborgararétt.
Össur hefur kennt dætrum sínum tveimur að tefla og
er sú eldri, Birta, þrettán ára, farin að hafa yfirleitt
betur í viðureignum þeirra feðgina. Össur er einn af
stofnfélögum taflfélagsins Hróksins.
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra
Ástir laxa og urriðadans
Össur Skarphéðinsson hefur yndi af öllu lífshlaupi laxa og
silunga, frá getnaði til graflax.
Það kemur sennilega fæstum á óvart sem hafa fylgst með
Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra undanfarin ár að
vinnan er áhugamál hennar. Hún hefur enda verið óþreytandi að
sinna málefnum þeirra sem minnst mega sín og tala máli þeirra
í þingsölum. Þegar frístundir gefast leggja þær Jóhanna og kona
hennar, Jónína Leósdóttir, lönd undir fót og ferðast á framandi
slóðir, enda var Jóhanna flugfreyja á yngri árum og eimir enn eftir
af ferðabakteríunni. Þá njóta þær þess að eiga tíma með börnum
og barnabörnum og halda þá gjarna stórveislur þar sem eflaust
er oft glatt á hjalla.
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra
Félagsmál og fjölskyldan
Jóhanna sinnir starfi sínu af áhuga en frístundum
eyðir hún með fjölskyldunni