Ský - 01.06.2007, Page 37

Ský - 01.06.2007, Page 37
 sk‡ 37 sem magnaðist með árunum. Einu sinni mölbraut ég splunkunýja ljósakrónu, grýtti henni í gólfið eftir að við höfðum rifist lengi um hvernig ég ætti að festa hana upp. Nú get ég ekki munað hver ágreiningurinn var, ég meina, það getur varla verið nema ein leið til að festa upp ljósakrónu. Einu sinni rifumst við um ártal, hvort Ísland hefði fyrst tekið þátt í Júróvisjón árið 1985 eða 1986. Það endaði með því að María barði mig með krepptum en máttlausum hnefum og rauk síðan út með hurðaskellum. Og ég hafði ekki einu sinni áhuga á Júróvisjón. Auðvitað þótti mér vænt um hana þó að við værum ekki lengur hrifin hvort af öðru - hvað er annars það að vera ástfanginn og er það einhver eftir 20 ára hjónaband? En smám saman varð leiðinn allri ánægju og vanahlýju yfirsterkari. Skyndilega voru börnin vaxin úr grasi og mér fannst ekkert halda í mig lengur. Ég ákvað því að láta drauminn um miðbæjareinlífið rætast. Maríu varð óneitanlega brugðið þrátt fyrir óteljandi innantómar skilnaðarhótanir á báða bóga í gegnum tíðina, en hún var líka of stolt til að reyna að telja mér hughvarf. Einlífið stóð ekki undir væntingum. Miðbæjaríbúðin mín var dimm og drungaleg og fyllti mig doða. Ég kom því ekki í verk að kaupa mér ljósakrónur svo hlífðarlausar Osram-perurnar héngu á vírum niður úr loftinu. Málningin var flögnuð af stofuveggjunum en ég nennti ekki að mála. Það var fúkkalykt á baðherberginu og einhver önnur vond og óskilgreind lykt í eldhúsinu. Af einhverjum ástæðum hættu konur að gefa mér auga eftir að ég flutti út frá Maríu. Mér fannst ég líta sífellt verr út í speglinum, andlitið eltist um mörg ár á nokkrum vikum. Fötin fóru mér allt í einu illa og ég var alltaf að fá bletti í þau. Skyrtan leitaði sífellt upp úr buxnastrengnum. Mér leið vandræðalega á kránum og hætti strax að sækja þær. Ég þorði ekki að gefa mig á tal við stúlkurnar þar, ég hafði glatað öryggi og sjálfstrausti sem fylgir því að vera giftur. Það er allt öðruvísi og miklu þægilegra að horfast í augu við ókunnugt kvenfólk með giftingarhring á fingri. Einu sinni heimsótti María mig óvænt og þáði kaffisopa. Hún jagaðist í mér allan tímann: „Hvers vegna málarðu ekki stofuna hjá þér maður, guðminngóður, hvers vegna reynirðu ekki að taka aðeins til hérna?“ Ég svaraði henni ekki. Í fyrsta skipti á ævinni fannst mér notalegt að hlusta á þrasið í henni. „Þú getur ekki boðið börnunum þínum upp á þetta.“ „Börnunum mínum? Halló María, börnin okkar eru fullorðin.“ Við horfðumst þögul í augu dálitla stund og síðan brustum við í hlátur. Við skellihlógum í langan tíma. Við hefðum átt að gera meira af því áður. III. Ég lærði markaðsfræði af tveimur ástæðum: í fyrsta lagi vegna þess að það hljómaði eins og leið til að verða ríkur og í öðru lagi fannst mér það aðlaðandi tilhugsun að geta haft áhrif á hegðun fólks með vísindalegum hætti, þó ekki væri nema til að stjórna því hvað það keypti. Ég starfa sem markaðsráðgjafi á auglýsingastofu og launin eru ekkert sérstök. Þó að starfið sé ekki laust við markaðsvísindi fer miklu meira fyrir daglegum reddingum og veseni sem ómenntaður maður gæti hæglega sinnt: þras um kostnað og reikninga, villur í auglýsingum og birtingalistum, endalausar vangaveltur um umbrot á bæklingum og samninga við prentsmiðjur. Fyrir nokkrum vikum byrjaði ný stelpa í markaðsdeildinni. Hún heitir Aðalheiður og er einhleyp, aðeins 29 ára. Hún er með falleg brún augu sem fara ákaflega vel við brúnt hárið sem er sítt og slétt. Hún er vingjarnleg, brosir oft til mín og við eigum notalegt spjall um daginn og veginn. Dögum saman reyndi ég telja í mig kjark til að bjóða henni út og loks ákvað ég að láta til skarar skríða einn daginn. Þann morgun leit ég óvenjulega illa út í speglinum en ég komst að þeirri niðurstöðu að hárið væri aðalvandamálið, það var allt úr sér vaxið og ekki nokkur leið lengur að koma þokkalegu lagi á það með geli. Auk þess er maður alltaf svo frísklegur og vel lyktandi eftir nýja klippingu. Ég hringdi í Júlla upp úr tíu og pantaði klippingu klukkan hálfeitt. Ég ákvað að bíða með að tala við Aðalheiði þar til eftir hádegið. Það yrði ágætisinngangur að erindinu að heyra hana kommenta á nýju klippinguna mína. Fannar hafði ekki farið með fleipur. Ég sá strax að Júlli var breyttur. Hann hafði grennst, bjórvömbin var nánast horfin. Það hafi slést úr andlitinu og hann var allur frísklegri. Og hann heilsaði mér ekki með fýlusvip eins og vanalega heldur glaðlegu brosi. Ég settist í stólinn og sá bílana úti á götu í speglinum. Ég horfði á tímaritastaflann í gluggahillunni. Allt var kunnuglegt en samt fékk ég á tilfinninguna að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera. „Jæja lagsmaður, nú þarf einhver að svara til ábyrgðar.“ Júlli kveikti á rakvélinni. Hann skælbrosti í spegilinn. „Svara til ábyrgðar - fyrir hvað?“ Hann stífnaði upp eitt augnablik, varð móðgaður á svipinn. „Er eitthvert hneyksli í gangi?“ Ég reyndi að hljóma auðmjúkur. „Opinbert kynlífsfé.“ Hann brosti aftur. Það hringlaði í óróa sem hékk á útidyrahurðinni og maður á aldur við Júlla gekk inn á stofuna. Júlli veifaði glaðhlakkalega til hans. Maðurinn fékk sér sæti og dró bók upp úr vasanum. Júlli skellti glanstímariti í kjöltuna á mér og benti á forsíðuna. Þar var mynd af forstöðumanni trúarlegrar meðferðarstofnunar. Maðurinn hafði verið mikið í fréttum vegna fjármálaóreiðu og kynlífshneykslis. Nú skildi ég loksins hvað Júlli var að tala um og reiðin blossaði upp í mér. Þetta var gamall og ófríður náungi og mér blöskraði hvað hann var búinn að fleka fallegar stúlkur út á einhverja trúaróra. „Þennan náunga vil ég fá beint í djeilið.“ Ég dúndraði vísifingri á blaðið til áhersluauka. Júlli hló. Hann slökkti á rakvélinni og sneri sér að hinum viðskiptavininum: „Jæja. Ert þú ekki einn af þessum mönnum?“ Maðurinn hrökk upp úr lestrinum. „Afsakið. Hvað sagðirðu?“ „Nú einn af þessum mönnum ... sem rannsaka fortíðina?“ „Ha? Jú, jújú, ég er sagnfræðingur.“ „Og hvað finnst þér þá um þetta allt saman?“ „Bíddu, nú skil ég ekki aaalveg - hvað finnst mér um hvað?“ Ég greip fram í og útskýrði stuttlega um hvað við vorum að tala. „Nújá, það. Skelfilegt mál. Alveg skelfilegt mál. Já, ég er hræddur um að menn þurfi að svara til ábyrgðar. Hvernig þetta var látið viðgangast árum saman?“ „Sko, þetta sagði ég,“ sagði Júlli og horfði á mig eins og ég hefði eitthvað verið að rengja hann. Hann kveikti aftur á rakvélinni og færði hana að hnakkanum á mér. En hreyfingar hans virtust ómarkvissar. Þó var erfitt fyrir mig að dæma um það. En svo fann ég allt í einu fyrir rakvélinni á jakkakraganum. „Þær voru allar hjá mér þessar stelpur. Þær komu allar hingað. Ég hringdi í blöðin en þeir vildu ekkert skrifa um þetta þá. Í tvö ár vissi ég allt um þetta en enginn vildi gera neitt.“ Ég fann enga áfengislykt af honum. Ég reyndi að telja mér trú um að hann myndi klippa mig vel af gömlum vana. En hann hélt bara áfram að juða með rakvélina í hnakkanum á mér og af og til slóst hún í jakkakragann. skjólið

x

Ský

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Ský
https://timarit.is/publication/1110

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.