Morgunblaðið - 22.01.2015, Blaðsíða 38
38 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 22. JANÚAR 2015
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Franska kvikmyndahátíðin hefst í
Háskólabíói á morgun og er nú hald-
in í fimmtánda sinn. Hátíðin stendur
til 2. febrúar og verður einnig haldin
í Borgarbíói á Akureyri, 26. janúar
til 1. febrúar. Alliance française í
Reykjavík, sendiráð Frakklands á
Íslandi og Græna
ljósið standa í
sameiningu að
hátíðinni með
stuðningi frá
kanadíska sendi-
ráðinu og verða
tíu myndir sýnd-
ar að þessu sinni
sem eiga það
sameiginlegt að
töluð er í þeim
franska en eru
frá ýmsum löndum, m.a. Frakklandi,
Kanada og Fílabeinsströndinni.
Markmið hátíðarinnar er að sýna
fjölbreytni og frumleika í franskri
og frönskumælandi kvikmyndagerð
og í ár verða m.a. sýndar kvikmynd-
ir sem notið hafa gríðarmikillar að-
sóknar í Frakklandi. Ein slík er opn-
unarmynd hátíðarinnar, Qu’est-ce
qu’on a fait au Bon Dieu? eða Öm-
urleg brúðkaup eins og hún heitir í
íslenskri þýðingu. Um 12 milljónir
manna sáu hana í Frakklandi og hef-
ur engin frönsk kvikmynd þar í landi
notið viðlíka aðsóknar frá því In-
touchables sló þar öll met árið 2012.
Önnur er La famille Bélier, Bélier-
fjölskyldan, sem hlotið hefur mikið
lof franskra gagnrýnenda sem spá
því að þetta verði mynd ársins 2015.
Tíu þúsund gestir að jafnaði
Aðsóknin að hátíðinni í gegnum
árin hefur verið góð, að jafnaði um
tíu þúsund gestir árlega, að sögn Ír-
isar Hrundar Þórarinsdóttur, vís-
inda- og menningarfulltrúa hjá
franska sendiráðinu. „Tíu þúsund
manns á tíu myndir þykir nokkuð
gott,“ segir hún og bendir á að hátíð-
in sé í raun fyrsti stóri menningar-
viðburður ársins í Reykjavík.
Íris segir sendiráð Kanada styðja
sérstaklega við hátíðina í ár en sýnd
verður myndin Laurence Anyways
eftir kanadíska leikstjórann Xavier
Dolan. Hún segir áherslu lagða á að
hafa ólík þemu í myndunum, á dag-
skránni sé gaman og drama, tilfinn-
ingarík sjónarspil, teiknimyndir og
allt þar á milli. Þær séu flestir glæ-
nýjar eða nýlegar en tvær gamlar og
sígildar, Jules og Jim og Konung-
urinn og hermikrákan, verði einnig
sýndar þar sem um sé að ræða tvo
merka stólpa í franskri kvikmynda-
gerð. „Það er mikil áhersla á minni-
hlutahópa,“ segir Íris þegar hún er
spurð að því hvort myndirnar teng-
ist að einhverju leyti hvað umfjöll-
unarefni varðar. „Umfjöllunarefnin
eru þó af öllu tagi svo áhorfendur
munu klárlega hafa úr nógu að
velja“.
Fjölmenningarlegt samfélag
Í Ömurlegum brúðkaupum er
fjallað með gamansömum hætti um
kaþólsk heldri hjón sem eiga erfitt
með að kyngja því þegar dætur
þeirra ganga að eiga Kínverja, gyð-
ing og múslima. Spurð að því hvers
vegna hún telji myndina hafa notið
svo mikilla vinsælda í Frakklandi
segir Íris ólíka menningu sameinast
í Frakklandi og geti það skýrt áhug-
ann. „Ég tel að margir tengi við Öm-
urleg brúðkaup. Það er talað um að
20% giftinga í Frakklandi séu milli
fólks af ólíkum uppruna þannig að
fólk tengir sterkt við þetta. Þetta er
svo fjölmenningarlegt land. Svo er
myndin auðvitað bráðskemmtileg,“
segir Íris. Tveir af aðalleikurum
myndarinnar verða sérstakir boðs-
gestir á hátíðinni, þeir Noom Dia-
wara og Medi Sadoun.
Að lokum ber að geta þess að Ís-
lendingar tengjast tveimur myndum
hátíðarinnar því annars vegar verð-
ur sýnd kvikmynd fransk-íslenska
leikstjórans Sólveigar Anspach,
Lulu femme nue, Lulu nakin, og
hins vegar De toutes nos forces, Af
öllum kröftum, sem Barði Jóhanns-
son samdi tónlistina við. Sólveig
mun svara spurningum gesta að lok-
inni sýningu myndar sinnar annað
kvöld og Barði á laugardagskvöldi
að lokinni sýningu De toutes nos for-
ces. Sýningarnar hefjast báðar kl.
18.
Sýningartíma kvikmynda og nán-
ari upplýsingar má finna á vefsíðu
hátíðarinnar, www.fff.is
„Mikil áhersla á
minnihlutahópa“
Franska kvikmyndahátíðin haldin í fimmtánda sinn
Brúðkaupsógleði? Úr gamanmyndinni Qu’est-ce qu’on a fait au bon dieu?
eða Ömurleg brúðkaup, eins og hún er kölluð á íslensku.
Íris Hrund
Þórarinsdóttir
Eftir að lögum af væntanlegri
hljómplötu Bjarkar Guðmunds-
dóttur, Vulnicura, var lekið á netið
um helgina brást hún við með því að
gefa hana út á iTunes í gær, sex vik-
um fyrir fyrirhugaðan útgáfudag.
Útgáfudagur plötunnar á geisladisk
og vínyl er óbreyttur og helst í hend-
ur við opnun sýningar Bjarkar í Mu-
seum of Modern Art í New York 7.
mars næstkomandi.
Björk er síðust í röð listamanna
sem lenda í því að óprúttnir aðilar
brjóta á höfundarrétti þeirra með
því að leka efninu í óleyfi á netið.
Nýlega var lögum af nýrri plötu Ma-
donna lekið og brást hún ókvæða
við, talaði um listræna nauðgun.
Tónleikaröð í New York
Fjögur ár eru frá útgáfu síðustu
plötu Bjarkar, Biophilia. Blaðamað-
ur The Guardian sem hlýtt hafði á
nýju plötuna lýsti henni í gær sem
einskonar samtali við eða systur-
plötu Vespertine sem kom út árið
2001. Vulnicura sé „andstæða
bjartra vonanna á Vespertine“. Í til-
kynningu frá Björk segir hún lögin á
plötunni mörg fjalla um brostnar
vonir í kjölfar sambandsslita. Hún
vonar að lögin geti verið öðrum hjálp
og sýni hve „líffræðilegt þetta ferli
geti verið, sárið og lækning þess.
Andlega og líkamlega.“
Björk segir ennfremur í tilkynn-
ingunni sem fylgir útgáfu plötunnar
á iTunes að listræn stefna verksins
hafi tekið breytingum þegar upp-
tökustjórinn Alejandro Ghersi,
þekktur sem Arca, hafi komið til
samstarfs við hana. Hann hefur
meðal annars unnið með Kanye
West and FKA Twigs.
Í fyrradag tilkynnti Björk enn-
fremur að hún kæmi fram á sex tón-
leikum í New York í tengslum við
sýninguna í MoMA. Þeir fyrstu
verða í hinu sögufræga tónlistarhúsi
Carnegie Hall að kvöldi opnunar-
dagsins 7. mars. efi@mbl.is
Listakonan Ný mynd af Björk birt-
ist á samfélagssíðu hennar.
Björk gaf Vulnicura
út á iTunes eftir leka
Ömurleg brúðkaup (Qu’est-ce
qu’on a fait au Bon Dieu?)
Virðuleg hjón eiga fjórar dætur
sem komast á giftingaraldur hver
á fætur annarri ... en tengdasyn-
irnir eru þeim hjónakornunum
ekki endilega að skapi.
Laurence, hvernig sem er
(Laurence Anyways)
Laurence er transkona sem þarf
að takast á við fjölskyldu sína og
lífið. Þrátt fyrir að öðrum reynist
erfitt að sætta sig við Laurence í
sinni réttu mynd er hún eftir sem
áður bara Laurence fyrir þeim
sem þekktu hana fyrir leiðrétt-
inguna.
Konungurinn og hermikrákan
(Le Roi et l’Oiseau)
Teiknimynd lauslega byggð á
ævintýri H.C. Andersens, Smalast-
úlkunni og sótaranum. Konungur
stjórnar ríki sínu harðri hendi, hef-
ur óbeit á þegnum sínum og þeir á
honum. Enginn þorir að standa
uppi í hárinu á honum nema fugl
sem kemur sér vel þegar kóng-
urinn leggur ást á smalastúlku.
Lyktin af okkur
(The Smell of Us)
Mynd sem fjallar um hóp ung-
linga í París sem stunda hjóla-
bretti, ástir og rokk en eiga sér
hvert sína sögu.
Af öllum kröftum
(De toutes nos forces)
Kvikmynd byggð á afrekum
bandarísku feðganna Dicks og
Ricks Hoyts. Julien er bundinn við
hjólastól og á ekki hægt með að
láta draumana rætast. Hann telur
föður sinn á að keppa með sér í
þríþraut og öll fjölskyldan leggst á
eitt í þessari ótrúlegu áraun.
Heimilislífið
(La vie domestique)
Juliette er húsmóðir í úthverfi
Parísar. Lífið hjá henni líkt og
flestum konum í hverfinu gengur
út á að koma börnunum í skóla,
útrétta, kaupa inn, elda mat og
sækja börnin í skólann. Þetta er
ekki lífið sem hana dreymdi um og
bindur hún vonir við atvinnuviðtal
hjá útgáfufyrirtæki.
Jules og Jim (Jules et Jim)
Sígild mynd François Truffaut,
byggð á raunverulegum atburðum.
Jules er austurrískur, Jim franskur.
Báðir eru listhneigðir og með þeim
tekst mikil vinátta sem ekkert
haggar, hvorki Catherine, sem báð-
ir elska, né styrjöldin, þar sem þeir
berjast í andstæðum fylkingum.
Eftir stríð endurnýja þau sam-
bandið sem markast af vináttu,
vonum, vonbrigðum og þrám.
Aya de Yopougon
(Aya frá borginni Yop)
Teiknimynd frá Fílabeinsströnd-
inni sem var tilnefnd til frönsku
Sesar-kvikmyndaverðlaunanna. Í
Yopougon hverfi í Abidjan, höf-
uðborg Fílabeinsstrandar, búa Aya
og vinkonur hennar tvær, 19 ára
gamlar. Aya ætlar sér að verða
læknir en vinkonur hennar lifa fyrir
líðandi stund. Og mannlífið í kring-
um þær er í fjölskrúðugasta lagi.
Lulu nakin (Lulu femme nue)
Lulu klúðrar atvinnuviðtali,
missir viljandi af lestinni heim og
tekur sér frí frá ráðríkum eig-
inmanni og fjölskyldu. Hún kynnist
sérkennilegu og skemmtilegu fólki
á jöðrum samfélagsins og fær nýja
sýn á tilveruna og sjálfa sig.
Bélierfjölskyldan
(La famille Bélier)
Kennari ungrar sveitastúlku tek-
ur eftir því að hún hefur einstaka
söngrödd. Hann hvetur hana til að
taka þátt í hæfileikakeppni en for-
eldrar stúlkunnar og bróðir eru
heyrnarlaus og hún er sú sem þau
reiða sig á til að hafa samskipti við
umheiminn. Hún verður að gera
upp á milli fjölskyldu og frama-
drauma … eða hvað?
Fjölbreyttar hátíðarmyndir
MYNDIRNAR TÍU SEM SÝNDAR VERÐA Á HÁTÍÐINNI
Kraftur Úr kvikmyndinni De toutes
nos forces, Af öllum kröftum.