Húnavaka - 01.05.1980, Blaðsíða 137
HÚNAVAKA
135
áður en ég lagði útí, dýpið var í brjóst. Kalt var að fara í fötin á eftir en
mér hitnaði strax af göngunni.
Jón var búinn að segja mér að ef ég kæmi að Hraunsvatni og sæi
hólma í því þá ættu þeir hann, og svo heppinn er ég að ég kem að
vatninu og sé hólmann og geng austur með því. Jón hafði sagt mér að
á rynni norður úr Hraunsvatninu og ég skyldi ganga með henni, þá
væri ég á réttri leið. Ég geng því með henni nokkurn spöl, heyri þá
einhvern hóa nokkru fyrir norðan mig og geng á hljóðið. Þá eru þeir að
smala þarna af Skaganum. Ég næ tali af manni á grárri bikkju, með
því að hlaupa fyrir ærnar sem hann var að reka. Mér veitti ekki af
hreyfingu því kuldinn var mikill. Þeir voru nokkrir saman, en þessi
maður var Þorsteinn á Selá. Þeir fá sér snafs nokkrir gangnamenn og
bentu mér síðan á veginn sem lá þar skammt frá. I því kemur maður
ríðandi, mikill fyrir sér, þetta var þá Steinn á Hrauni. Hann yrðir ekki
á mig og ríður áfram, en ég held í humátt á eftir honum, kem þá að
tjaldi og fer heim að því. Þar er þá Sveinfríður Jónsdóttir kona Ólafs
Ólafssonar á Kleif með kaffi og góðgerðir. Ég þigg þar kaffi og hvíli
mig. Það endaði með því að á Kleif var ég um nóttina. Þá eru komnir
þar Kristján Guðmundsson í Hvammkoti og Stefán Hólm og gistu þar
líka, því að ekki leist okkur á meiri göngur þennan dag. Sveinfríður
vakti alla nóttina við að þurrka af okkur fötin og fengum við miklar
góðgerðir um morguninn.
Morguninn eftir vildi ég borga næturgreiðann og skildi peninga
eftir hjá henni, um 200 krónur. Hún vildi ekkert taka fyrir, en matur
og kaffi var prýðilega útilátið.
Svo héldum við af stað og komum að ánni sem rennur úr Langa-
vatni, þá var komin hellirigning. Stefán Hólm var á steingráum fola
og Kristján var líka ríðandi, hann skellti sér yfir ána og hesturinn fór á
miðjar síður þarna. Hólmi var í ánni skammt þaðan sem við fórum yfir
og sáum við að lambrolla stóð þar. Við skiptum okkur ekkert af henni.
Gráni hans Stefáns fór í keng þegar ég henti mér á hann fyrir aftan
Stefán, og ekki datt mér annað í hug, en skepnan myndi setja okkur
báða af þarna útí ánni. Síðan héldum við rakleiðis heim að Fjalli og
skildum þar kindurnar eftir sem við komum með úr Kleifarrétt.
Þar hjálpaði Kristján mér við sundurdrátt á fénu, hann var mark-
glöggur maður og þekkti flest mörk í Skaga- og Vindhælishreppum.
Þegar við komum að Fjalli rigndi enn eins og hellt væri úr fötu, þá
bjuggu á Fjalli Dagný Guðmundsdóttir og Jóhannes Björnsson. Þau