Húnavaka - 01.05.1980, Blaðsíða 138
136
HÚNAVAKA
buðu okkur inn og tókum við eftir því að göngin voru farin að leka, svo
mikil var rigningin, og inni í baðstofunni var vaskafat sett undir
lekann á einum stað. Dagný sauð hafragraut og þótti okkur gott að fá
hann. Við stóðum þarna við, góðan tíma, ég, Stefán og Kristján. Þegar
við vorum að fara, kom Vilhjálmur Benediktsson á Brandaskarði
helkaldur allur og rennvotur, því enn var úrhellisrigning. Honumvar
boðið inn líka. Hann var klæddur lélegri kápu, sem ekki var vatnsheld.
Nú rákum við safnið sem komið var þarna saman til Hofsréttar, sem
hafði verið byggð þá um sumarið 1946, og þótti stæðileg og vel byggð,
hlaðin úr torfi og klömbruð á streng.
Eg átti að hirða okkar fé í réttinni og koma því í Landsendarétt hjá
Réttarholti, sem ég gerði, daginn eftir. Við gistum á Steinnýjarstöðum
um nóttina, okkur var vísað þar upp á loft um kvöldið af Jóni Árna-
syni og vorum við að gantast þarna uppi á loftinu því menn voru lítið
eitt við skál og lá vel á Jóni. Þar sváfum við Lárus Björnsson frá
Neðra-Nesi, Hallgrímur Jóhannesson og Pétur Jónsson, svo var þar
gamall maður Stefán Sveinsson.
Eg gat þá skilað prikinu sem ég hafði fengið lánað á leiðinni norður
og hafði komið sér vel í ferðalaginu. Daginn eftir dró ég féð og kom því
í Landsendarétt, gangandi á bússunum þungu og góðu og var ég þá
búinn að skila mínu verki og gekk þaðan heim í Kambakot eftir að
hafa hitt Andrés oddvita og fengið greiðsluna fyrir ferðina. Tel ég
þetta hafa verið einhverja alerfiðustu ferð sem ég hef farið gangandi
enda á þessum þungu bússum allan tímann.
Eg ætla að bæta við að ég gat farið á hesti í þessa útrétt, en útlitið
var alveg djöfullegt og ég ókunnur á þessum slóðum og mikið af
fenjum og gjótum í heiðinni, sem ég hefði kannske misst hestinn ofaní,
þess vegna fór ég gangandi í Kleifarrétt.
Eftir hríðina sem gerði þarna, fundust víða kindur fenntar og
dauðar.