Húnavaka - 01.05.1980, Blaðsíða 98
96
HÚNAVAKA
lingar með til verslunar í þeirri ferð. Tók þessi ferð sólarhring, og meira
af fremri bæjum. Svo var sláturferð á haustin, og þær oft tvær. Var féð
rekið út eftir daginn áður en því var slátrað. Oft mun hafa farið á
þriðja dag að koma því úteftir af fremstu bæjum. í þá daga var allt
hirt; haus, fætur, ristill, vömb, vinstur, langi, lungu, hjörtu, nýru og
mör. Blóð var flutt í belgjum, var það oftast að fleginn var belgur af
sæmilega vænum kindum því að þunn skinn gátu gefið sig og vildu
leka. Belgur var þannig fleginn að rist var fyrir á milli hækla á
afturfótum, en enginn fótur skorinn af. Var svo flegið aftanfrá og
skinninu flett fram af skrokknum. Bundið var fyrir hálsinn og blóðinu
hellt í belginn og bundið vandlega fyrir opið. Síðan voru allir fætur
bundnir saman og þannig sett á klakk. Var þetta vandasamur
flutningur, því að oftast var komið að myrkri, er búið var að binda upp
á lestina. Þetta var hálf sóðalegur flutningur meðan allt var flutt í
pokum og bundið í bagga. Vildu föt öll verða blóðug og gorug. Síðar
var farið að nota tréskrínur undir innmatinn og var það ólíkt þokka-
legra. Þetta voru leiðinda ferðir oft í myrkri meirihluta af leiðinni og
hægt varð að fara. Ég man ekki hve langan tíma það tók, en ég hugsa
að það sé ekki fjarri að leiðirnar hafi verið yfir 10 tíma lestargangur.
Þess skal að lokum getið, að þegar ég var krakki heima í Meðal-
heimi, innan við 9 ára aldur gistu Framsvíndælingar þar iðulega á
haustin, á heimleið úr sláturferðum.
Það mun hafa verið 1908-09 að gerð var sleðabraut frá Klaufum
upp Hnjúkaflóann og upp á Laxárvatn, sunnan við Sauðanes. Af
Laxárvatni á Hafratjörn, þaðan fram Tindakeldu suður á Leiti á
Búrfellskeldu, suður neðan Litla-Búrfells að Svínavatni um Sandnes
sem er beint á móti Langatanga, en hann skerst austur úr Kúlunesi.
Var þetta þannig unnið að ristar voru af allar þúfur á rúmlega sleða-
breidd og hlaðnar úr þeim smá vörður við aðra brúnina svo að hægt
væri að halda brautinni þó að talsverður snjór væri, því að þær voru
allar sömu megin við brautina. Var þessi braut talsvert notuð um
langan tíma að vetrinum, einkum hörðu árin 1916-20, því að þá voru
svo miklir fóðurflutningar. Svíndælingar munu þó oftast hafa farið frá
Laxárvatni vestan við Laxárós neðan við Hamrakot, suður sundin á
Orrastaðatjörn og þaðan suður á Svínavatn og fram Grundar- og
Snæringsstaðaflóa. Á þessari leið var engin braut gerð frá Laxárvatni.
Þó munu ystu bæir í austanverðum Svínadal hafa farið austari leiðina
og upp Kúluveitu.