Húnavaka - 01.05.1980, Blaðsíða 53
HÚNAVAKA
51
Á Grund áttum við heima til ársins 1901, en þá fluttumst við að
Bakkakoti. Þá var fjárgæsla mitt aðalstarf að hausti og vori. Þær voru
rásgjarnar rollurnar og sóttu mjög út að Sölvabakka í sælgætið sem
þar er að finna í fjörunum. Hart var eftir þvi gengið að ég passaði þetta
starf samviskusamlega, og væri kinda vant, varð ég að leita þeirra og
finna strax. Þarna í Bakkakoti, á röltinu við rollurnar, mun ég fyrst
hafa gert mér grein fyrir því, hvað ég vildi verða. Ég skyldi verða
bóndi, og ekki nóg með það, ég sló líka föstu hvar ég ætlaði að búa. Það
varð að vera á Sölvabakka. Bakkakotsærnar, sem ekki vildu annars
staðar tolla en þar útfrá, sögðu mér að þar væri sauðbónda hentug
dvöl. Líka sá ég að auk margvíslegra gæða landsins, var þar margt
girnilegt fang sótt í sjó — og Sölvabakkinn varð mitt draumaland.
Mikið vatn átti eftir að renna til sjávar, áður en sá draumur varð að
veruleika, því að leið mín þangað varð bæði krókótt og löng. Með
foreldrum mínum fluttist ég frá Bakkakoti að Kúskerpi, og þaðan að
Svangrund. Þar komst ég í snertingu við sjóinn í fyrsta sinn, og síðan
hefur hann átt allsterk ítök í mér. Við eignuðumst þar bát og stund-
uðum róðra, eftir því sem ástæður leyfðu frá bústörfum, og varð af
búsílag, sem um munaði. Svangrund er sögð byggð úr landi Sölva-
bakka, og hefur nú horfið til upphafs síns.
Frá Svangrund fluttum við árið 1915 að Skrapatungu. Þá hættu
foreldrar mínir búskap, en við Finnur bróðir tókum við og var móðir
okkar fyrir innan stokk hjá okkur, því báðir vorum við ókvæntir þá, og
gekk svo til ársins 1920, en þá gekk ég að eiga heimasætu frá næsta bæ,
Balaskarði. Hún hét Magdalena Karlotta Jónsdóttir, Sigurðssonar,
Sigurðssonar frá Undirvegg í Kelduhverfi. Móðir hennar var Guðný
Málfríður Pálsdóttir, Jónssonar hreppsstjóra af Eyjarætt. Magdalena
var fædd 7. desember 1892.
Giftingarárið fluttum við að Brún í Svartárdal, og vorum þar í tvö
ár í nokkurs konar húsmennsku. Höfðum túnnytjar, sem námu hálfu
kýrfóðri, og annan heyskap svo sem við gátum nýtt. Þessa aðstöðu
greiddum við með vinnu okkar, eftir samkomulagi. M.a. batt ég allt
sem heyjað var á jörðinni þessi tvö ár. Á Brún eignuðumst við dreng,
sem skírður var Jón Árni.
Frá Brún fórum við svo aftur að Skrapatungu, og vorum þar eitt ár.
Þaðan fórum við að Háagerði á Skagaströnd og vorum þar annað ár,
en þá fór að létta undir í suðri. Sölvabakki varð laus til ábúðar og ég sá
grilla í að minn gamli draumur gæti kannski rætst. Jörðin var þá í eigu