Húnavaka - 01.05.1984, Blaðsíða 48
KRISTINN PÁLSSON:
Síðasti bóndinn
í heiðinni
Halldór Guðmundsson, hét hann og bjó í Hólma, sem áður hét
Hróarsstaðasel. Við kölluðum hann alltaf Halldór í Hólma og vorum
ævinlega spennt, þegar hann kom í heimsókn að Hofi.
Hann kom oft er hann var á leið í kaupstaðinn. Þá var hann
vel ríðandi, oft með tvo til reiðar, áði fyrir neðan bæinn,
kom heim, var boðinn velkominn af húsbændum, þáði kaffi og
spjallaði. Þá voru málin oft rædd af tilfinningu og rökrætt af kappi,
kaffið drukkið af undirskálinni, sogið úr yfirskegginu og viða leitað
fanga af rökfimi og mælsku.
Við unga fólkið sátum álengdar og hlustuðum með andakt á full-
orðna fólkið, létum lítið fara fyrir okkur, en drukkum i okkur hvert
orð, hvort heldur rætt var um veðrið eða Jónas frá Hriflu.
Ég man hann líka vel, þeysandi með tvo til reiðar í göngunum í
Skagaheiðinni, alltaf hressan og kátan, þótt eitthvað bjátaði á og
fararefni væru ekki mikil.
Heiðin var hans draumaland hvort heldur hann var þar í hestaleit
eða veiðiferð að ná í silung til matar. Alltaf var hann með augun opin
fyrir náttúrunni umhverfis. Það var gaman og fróðlegt að heyra hann
lýsa aðförum sefandarinnar er hún var að verja hreiðrið sitt eða dansi
himbrimans á heiðarvötnunum.
Hann bjó búi sínu í heiðinni alla sína búskapartíð og vildi hvergi
annars staðar vera. Þegar margir granna hans fluttu á mölina í fjöl-
mennið og þangað sem meiri var fjáraflavonin, var hann kyrr í heið-
arselinu, undi glaður við sitt, gerði litlar kröfur, nema til sjálfs sín, en
hélt á fund heiðarinnar, sem fagnar þeim á sinn hátt, er kunna að
hlusta á raddir náttúrunnar og njóta þeirra.