Húnavaka - 01.05.1984, Blaðsíða 100
98
HÚNAVAKA
vitað um föðurnafn hans. Sagt er að hann gæfi kirkjunni messuklæði
og fleiri góða gripi. Annars eru heimildir næsta fátæklegar um sögu
kirkjunnar, fyrr en kemur fram á seinni hluta 19. aldar. Öld eftir öld
hefur þó fólkið lifað þar og dáið, eins og annars staðar.
Fyrr á öldum mun kirkjan hafa staðið upp á hólnum, fram af
bæjarhlaði, og kirkjugarður þar umhverfis. Þegar sr. Stefán M. Jóns-
son, síðar prestur á Auðkúlu, kom þangað 1876, var þar torfkirkja
mjög hrörleg, og árið 1882 var ákveðið að byggja nýja timburkirkju.
Upphaflega átti þetta hús, sem fengið var tilhöggvið frá Noregi, að
verða vöruskemma á Sauðárkróki. Aðeins var bætt við turni á teikn-
inguna. Kirkjan var svo reist sumarið 1883 undir yfirumsjón hins
þekkta kirkjusmiðs Þorsteins Sigurðssonar á Sauðárkróki. Afram var
grafið um nokkurt skeið i garðinum upp á hólnum.
f vísitasíu sr. Hjörleifs Einarssonar prófasts frá 14. júní 1895, er sagt
að kirkjugarður sé þá nýbyggður vestan kirkjunnar. Hann hefur síðan
verið stækkaður oftar en einu sinni. Gamli garðurinn upp á hólnum
var þá sléttaður og sjást hans nú engin merki utan einn járnkross.
Samkvæmt skráðum vísitasíum og úttektum mun þak kirkjunnar
ekki hafa verið nógu vel frágengið. Talað er oft um þakleka. Var fyrstu
árin aðeins timbursúð. Síðar var settur pappi á suðurhlið, en járn-
þakin var hún ekki fyrr en árið 1906.
Árið 1915, fyrsta dag ágústmánaðar, var söfnuðinum afhent Bergs-
staðakirkja til umsjónar og eignar úr hendi sr. Björns Stefánssonar.
A árunum 1958-1960 var kirkjuhúsið mjög farið að láta á sjá. Var þá
kirkjan endurbyggð að miklu leyti, undir forustu þáverandi formanns
sóknarnefndar, Guðmundar Jósafatssonar frá Brandsstöðum. Yfir-
smiður var Einar Evensen byggingameistari á Blönduósi. Kirkjan var
síðan endurvígð 16. júlí 1960 af Sigurbirni Einarssyni biskupi.
Þótt þessi viðgerð á kirkjunni væri vel unnin á allan hátt, hefur
síðan komið í ljós, að grunnur kirkjunnar er ekki nógu traustur og gæti
þar þurft um að bæta. Kirkjan rúmar um 90 manns í sæti. Ekkert
söngloft er í henni. Kirkjan er 10.5 metrar að lengd og 6.5 metrar að
breidd. Vegghæð er 3.5 metrar. Kirkjuklukkur eru í turni.
Bergsstaðir voru prestssetur um aldir, og staðinn hafa setið margir
merkir prestar og búhöldar. Jörðin er víðlend og skilyrði til heyöflunar
góð, eftir því sem gerist í Svartárdal. Hlunnindi, sem margar jarðir
áttu, hafa ekki fylgt jörðinni, nema sagt er að nýbýlið Kóngsgarður
hafi fyrr á öldum legið að hálfu undir Bergsstaði á móti Stafni.