Húnavaka - 01.05.1988, Blaðsíða 210
208
HUNAVAKA
Jakobssyni frá Syðra-Tungukoti í Blöndudal. Gengu þau í hjónaband
árið 1906. Það reyndist gæfuspor og varð hjónaband þeirra farsælt.
Fyrstu árin voru þau í vinnumennsku í Geldingaholti og síðar í
Stóru-Seylu i sömu sveit, en um 1910 lá leið þeirra vestur í Bólstaðar-
hlíðarhrepp. Á þessum árum lá jarðnæði ekki á lausu, og dvöldu þau
næstu árin á ýmsum stöðum í Húnaþingi, ýmist í húsmennsku eða
sjálfra sín, sem kallað var.
Árið 1934 fluttu þau að Brattahlíð í Svartárdal. Fyrsta árið voru
þau leiguliðar hjá bóndanum þar, Jónasi Illugasyni, en er hann fluttist
til Blönduóss, hófu þau búskap á jörðinni og keyptu hana stuttu síðar.
í Brattahlíð bjuggu þau allan sinn búskap eftir það.
Brattahlíð er fremur lítil jörð, en sæmilega hýst á þeim tima, var þar
timburþiljaður torfbær, sem enn stendur að nokkru leyti. Búnaðist
þeim hjónum vel í Brattahlíð, þótt ekki söfnuðu þau veraldlegum
auði, enda samhent um allt, er að búskapnum laut.
Þau eignuðust einn son, Valtý, bónda í Brattahlíð, nú til heimilis að
Eiríksstöðum, kona hans er Ingibjörg Baldvinsdóttir frá Dæli í Sæ-
mundarhlíð, og eiga þau fimm börn á lífi.
Guðmundur, maður Bjarnveigar, lést vorið 1959, þá 75 ára að aldri.
Það varð henni þungbær missir. Tóku þá Valtýr og Ingibjörg við
búsforráðum í Brattahlíð og hjá þeim dvaldi Bjarnveig. Þar átti hún
sannkallað skjól í ellinni.
Árið 1978 fluttist öll fjölskyldan að Eiríksstöðum, næsta bæ við
Brattahlíð. Var Brattahlíð í eyði eftir það, en jörð nytjuð frá Eiríks-
stöðum.
Á Eiríksstöðum dvaldi Bjarnveig til ársins 1981, er hún, þá 95 ára að
aldri, varð að fara á Héraðshælið á Blönduósi sökum veikinda í fæti,
og þaðan átti hún ekki afturkvæmt. Er þangað kom, varð Bjarnveig
fyrir því óhappi að lærbrotna tvívegis með stuttu millibili, og náði sér
ekki eftir það. Var hún að mestu rúmliggjandi þaðan í frá, en andlega
hress fram undir það síðasta og fylgdist vel með því, sem var að gerast
kringum hana. Hún undi hag sínum bærilega á sjúkrahúsinu og var
þakklát fyrir hjálp og umönnun, en ætíð var hugurinn bundinn við
dalinn kæra, þar átti hún alltaf heima.
Þann 24. október 1986 hélt Bjarnveig upp á 100 ára afmæli sitt.
Þann dag tók hún á móti vinum og vandamönnum, hress og glöð að
vanda, og naut þess að blanda geði við þá.