Húnavaka - 01.05.1990, Page 62
60
HUNAVAKA
Sauðadalinn og Strjúgsskarðið, þvert yfir Kárahlíðarhnjúkinn og
Grundarkotshnjúkinn út í Haugsskarðið, eftir Syðri-Kinn og að end-
ingu upp í Ytri-Kinn. Þar var lítið snjóhús með tveimur hvolpum
í, á að giska rúmlega þriggja vikna gömlum. Þetta mátti teljast stór-
sigur miðað við það sem áður var búið að reyna þetta vor. Leiðin
frá Gautsdal var orðin ótrúlega löng með öllum þeim krókum sem
verða þegar slóð eftir tófu er rakin og ekki bætti úr skák að sums
staðar var orðið hálfautt. Ég var matarlaus, orðinn uppgefmn og
rennandi af svita, því að ófærð mikil var í giljum, en ekki var um
neitt annað að ræða en leggjast á grenið ef greni skyldi kalla. Ég
kom þarna síðari hluta dags í háaroki og 10 stiga frosti. Þegar sól
gekk til viðar tók ég því að skjálfa af kulda, því að ég var mjög
illa búinn, eiginlega ekki í neinni skjólflík, miðað við það að leggjast
þarna fyrir í háaroki og brunafrosti. Ekki hafði mig órað fyrir því
þegar ég gekk til kindanna að heiman um morguninn að ferðalagið
yrði svona langt og því síður að ég þyrfti að leggjast á greni þann
dag.
Ég hefi stundum hugsað um hvað það er í raun og veru ómannúð-
legt að liggja á greni. Sitja þar um líf móðurinnar, sem er að koma
til að vitja um sín afkvæmi. Sjálfsagt tekur það minna á refinn, móð-
urástin er að öllu jöfnu sterkari. En refir sem drepa lömb hafa líka
sært móðurást. Þetta kuldakvöld komust slíkar hugsanir ekki að.
Klukkan að ganga sjö um morguninn argaði læðan á vesturbrún
Haugsskarðsins og tók þaðan beint strik heim á greni. Hún sótti
svo fast á grenið að færið varð óþægilega stutt vegna þess að dreifmg
haglanna er þá lítil sem engin. Ekki var ég neitt sérstaklega vel upp-
lagður til að skjóta, hríðskjálfandi og stormurinn var til óþæginda.
Læðan féll þó við fyrsta skot. Þetta var mikið flykki og er sú allra
þyngsta grenjalægja sem ég hefi tekið upp, enda alveg sílspikuð. Ekk-
ert varð vart við refinn þessa nótt.
Nú var ekki um annað að gera en halda af stað heim, matarlaus,
svefnlaus og ískaldur, því að enginn heima vissi hvert ég hafði farið.
Setti ég hræðu við snjóholuna sem hvolparnir voru í ef refurinn skyldi
koma heimundir. Hvolpana tók ég iifandi heim með mér, ef hægt
yrði að ná refnum á þá, nóttina eftir. Seint sóttist ferðin heim enda
færið vont og göngumaður illa til reika. Ég lagði mig fljótlega er
heim var komið. Um kvöldið var lagt aftur af stað út í Haugsskarðið.
Einar frá Þverá fór með mér og ætluðum við að freista þess að ná
refnum.