Húnavaka - 01.05.1990, Page 68
66
HUNAVAKA
þess að í skýrslunni hefði sjónarvottur sagt að það hefði engu verið
líkara en konan hefði gengið viljandi fyrir bílinn. Hafði hún ætlað
að fyrirfara sér?
Bragi hrökk við og starði í blind augun. Ósjálfrátt strauk hann
hendinni yfir hár sitt og andvarpaði. Honum hafði tekist að fá hana
til að tala og hann var viss um að hún segði sér hver hún var,
áður en langt um liði.
- Jæja vinan, sagði hann góðlátlega og stóð upp. Ef það er eitthvað
sem þig vantar eða þú vilt tala um, þá skaltu bara spyrja eftir mér.
Ég vona að þú hafir það gott þar til ég sé þig aftur.
Hún svaraði engu og hann gekk fram á gang.
- Þú vildir tala við mig, sagði Bragi um leið og hann settist á
rúmið hjá blindu konunni. Hún sat uppi en hendurnar lágu undir
sænginni.
Hún kinkaði kolli og snéri andlitinu að honum.
- Ég hef hugsað svo mikið síðan í gær, sagði hún lágri, þýðri
röddu. Mig langar til að vita, hvort það er möguleiki að fá sjónina
aftur, ef ég fer í aðgerð.
- Gunnar læknir taldi það, svaraði Bragi varfærnislega. Hann
vildi ekki vekja falskar vonir hjá henni. En það eru jafn miklar líkur
á að aðgerðin heppnist ekki.
- En það er samt möguleiki? Röddin var aðeins hvísl en Bragi
heyrði hvað hún sagði.
- Já, það er möguleiki, sagði hann blíðlega. Ég er búinn að lesa
skýrslu Gunnars og ég er sammála honum. Þú tapar engu á að reyna.
- Þökk fyrir læknir, sagði konan og hallaði sér aftur í rúmið. Ég
ætla að hugsa betur um þetta.
- Viltu segja mér hvernig þú varðst blind? spurði Bragi hægt.
- Ég varð fyrir bíl fyrir átján árum, svaraði hún lágt. Sjóntaugin
skaddaðist eitthvað og ég varð blind. Árum saman gekk ég á milli
lækna en enginn þeirra gaf mér neina von, fyrr en nú og.... Röddin
brást henni og tár komu fram í augun. Hún þurrkaði þau með ann-
arri hendinni, en Bragi tók um hina og þrýsti hana.
Um leið og hún dró hendina til sín varð honum litið á hana og
hjartað í honum tók kipp. Hann deplaði augunum og starði, líkt