Húnavaka - 01.05.1990, Blaðsíða 71
HÚNAVAKA
69
þú yfirgafst mig forðum. Þú varst ekki með öðrum manni. Þú misstir
sjónina og vildir ekki verða baggi á mér, ekki satt?
Salóme kinkaði kolli og tárin komu fram í augu hennar.
- Ég elskaði þig svo mikið, hvíslaði hún. Þú hefðir ekki getað
lært til læknis með blinda konu.
- Hver veit hvort það hefði tekist, sagði Bragi hægt. Að minnsta
kosti hefðirðu átt að leyfa mér að ákveða það. Ég hef aldrei getað
gleymt þér, Salóme.
- Ég hefalltafelskað þig, Bragi, sagði Salóme lágt.
- Ertu til í að reyna aftur?
- Viltu það?
- Já, ég vil það, vinan.
- Ó, Bragi. Salóme rétti fram hendurnar og andartaki síðar lá
hún í faðmi hans. Ég vil gjarnan vera hjá þér.
Bragi kyssti hana lauslega á varirnar. Honum fannst hann vera
ungur í annað sinn.
☆ ☆ ☆
SPÁÐ FYRIR VEÐRI VETRAR
Eins og fyrir sumarbyrjun hafa menn gert sér far um að spá fyrir veðurfari vetrar-
ins með ýmsum hætti. Einna kunnastar voru þær aðferðir að spá í vetrarbrautina,
kindagarnir eða milta úr stórgripum.
Vetrarbrautina átti að lesa frá austri til vesturs, en hún þótti sjást best í nóvember.
Henni var skipt í þrjá hluta og vetrinum sömuleiðis. Þar sem voru þykkir kaflar
í vetrarbrautinni, átti að verða snjóþungt um veturinn á samsvarandi tíma.
Þegar spá skyldi í sauðagarnir, var aðeins mark takandi á fyrstu kindinni, sem
slátrað var heima um haustið. Byrjað var að skoða garnirnar frá vinstrinni og táknaði
hún upphaf vetrar. Síðan var haldið ofan eftir. Jafnan er nokkuð um tóma bletti
í görnunum og áttu þeir að boða harðindakafla á vetrinum.
Þegar spáð var í milta, voru skornir tveir eða þrír skurðir í það, helst blindandi,
og það síðan hengt upp á vegg. Menn greinir lítið eitt á um það, hvort taka ætti
mark á skurðunum sjálfum, hversu djúpir þeir yrðu, eða þeim hlutum miltans,
sem urðu á milli þeirra, og virðist það algengara. Miltað hvítnar smám saman,
þegar það hangir og þornar, og áttu þeir hlutar þess, sem fyrst hvítnuðu, að segja
fyrir um snjóasömustu kafla vetrarins.
Saga daganna.