Húnavaka - 01.05.1990, Page 78
76
HUNAVAKA
og útgerðarstaðurinn Bolungarvík en á hægri hönd var fyrst
Snæfjallaströndin og Geirsfjall, þá Jökulfirðir og Slétta. Utan við
Sléttunes er Lækjarfjall (473 m) og er suðurhlíð þess snarbrött í
sjó. Heitir hún Bringur syðst en utar Grænahlíð og er mjög algengt
að skip leiti vars undir henni í norðanveðrum. í Ritaskörðum þar
fyrir utan er steindrangur, sem nefndur er Dovri eða Darri. Segja
munnmæli að vættur búi í klettinum er haldi verndarhendi yfir sjó-
mönnum. Er fjallið þar frá og norður fyrir að Skálardal nefnt Ritur,
tignarlegt fjall, víða þverhnípt í sjó en ekki mjög hátt (300 m). Á
styrjaldarárunum síðari hafði erlent setulið, er þá dvaldist í landinu,
varðstöð mikla uppi á fjallinu. Mun sú varðstöð einkum hafa þótt
mikilvæg meðan vopnaflutningar Bandaríkjamanna voru sem mestir,
norður og austur um Grænlandshaf, norður fyrir ísland til Hvítahafs-
strandar Rússlands.
Þegar við sigldum fyrir Ritinn opnaðist Aðalvíkin, stór vík á milli
Ritsins að sunnan og Straumnesfjalls að norðan. Ekki var laust við
að einhver undarleg tilfinning gripi mig þegar við nálguðumst fyrir-
heitna landið, sambland af eftirvæntingu og dálitlum kvíða fyrir
óvissunni um hvað við tæki í þessari ókunnu veröld. Þetta var fallegt
sumarkvöld, örlítið kul en bjart. Suðurhluti víkurinnar sást í fjarska.
Innan Skálardals sást Skálardalsbjarg og Búðanes. Þar er Sæból,
áður stór og mikil jörð og var risið þar dálítið þorp á fimmta ára-
tugnum. Upp af Sæbóli er Garðadalur. Suðvestur af honum eru mýr-
ar og holt fram að Staðarvatni. Prestssetrið Staður í Aðalvík var
við austurenda þess.
Norðan við Sæbólsvíkina er Hvarfnúpur. Norðan í honum eru
skriður, illar yfirferðar til Miðvíkna, þar sem Miðvíkurós rennur til
sjávar. Hann getur verið illur yfirferðar vegna sandbleytu og oft
vatnsmikill. Norðan Miðvíkna er Mannafjall og þar norður af
Stakkadalur og Stakkadalsós sem er eins og Miðvíkurós illur yfirferð-
ar. Þá tekur við víðáttumikið sléttlendi yfir að Látrum þar sem um
aldamót var lítt gróinn sandur en er nú orðinn allmikið gróinn án
þess að mannshöndin hafi komið þar nærri. Heitir þar Melur.
Það var á Látrum sem við vorum ferjaðir í land um klukkan tíu
um kvöldið og skildu þá leiðir okkar og Utivistarhópsins sem hélt
áfram norður í Hornvík. Ákveðið var að hittast í Hlöðuvík eftir tvo
sólarhringa eða að kvöldi sunnudags.
Við tjölduðum á litlum grasbala og fórum síðan í kvöldgöngu.