Húnavaka - 01.05.1990, Page 80
78
HÚNAVAKA
Eftir að hafa skoðað okkur vcl um héldum við niður Öldudal ofan
að rústum bæjarins Rekavíkur þar sem hvönnin réði ríkjum. Afram
inn með Rekavíkurvatni. Við höfðum skilið bakpokana okkar eftir
þar sem vegurinn sveigir upp á Straumnesfjallið til þess að vera
léttari á okkur á göngunni. Komum við nú beint að þeim og tókum
síðan stefnuna á Kjöl, sem er langur fjallgarður á milli Rekavíkur
og Fljótsvíkur, inn af Hvestu.
Reyndist okkur gangan yfir Kjöl mjög erfið því nú bárum við
í fyrsta skipti allan farangurinn, 30-40 kg hvor. Oft þurftum við
að nema staðar og sleikja sólskinið sem var í meira lagi. Leiðin er
löng en vel vörðuð og fallegt var að sjá af brúninni yfir hið 4 km
langa Fljótsvatn og víðáttumiklar, grösugar og fallegar engjar, ásamt
tjörnum og smávötnum í Fljótsvík. Ekki er furða þó Geirmundur
hafi kosið sér hér búsetu. Stórt veiðihús er nú á landnámsjörðinni
Atlastöðum. Stígurinn niður af fjallinu er mjög brattur en víða mótar
fyrir hleðslum og gömlum lagfæringum ennþá.
Skemmtileg er sagan af því í Landnámu þegar Vébjörn Sygna-
kappi og þau sjö systkinin brutu skip sitt austan við Kögur og Atli
í Fljóti, þræll Geirmundar, tók við þeim öllum og ,,bað þau engu
launa vistina; sagði Geirmund eigi vanta mat.“ Pegar þeir svo
hittust, Atli og Geirmundur, spurði hann Atla ,,hví hann var svo
djarfur að taka slíka menn upp á kost hans.“ Atli svaraði: ,,Pví
að það mun munað meðan ísland er byggt, hversu mikils háttar
sá maður mundi vera, að einn þræll þorði að gera slíkt utan hans
orlof.“ Fyrir þetta svar hlaut Atli frelsi og bú það er hann hafði
varðveitt. í Landnámu heitir víkin Barðsvík og bærinn Atlastaðir
heitir í Fljóti.
Við komum niður í Tungudalinn á milli Kónga og Nónfells. Þar
stóð bærinn Tunga. Akváðum við að hafa þarna næturstað enda
orðnir uppgefnir. Komum við þarna um klukkan níu í mjög góðu
veðri. Gengum við snemma til náða og hvíldumst vel. Göngumælir-
inn sýndi 20 km eftir daginn.
Sunnudagurinn rann upp sólríkur og mjög heitur. Vöknuðum við
klukkan átta. Einhverjir strengir gerðu vart við sig um morguninn
en þeir gleymdust fljótt. Við ákváðum að drífa okkur af stað um
ellefuleytið eftir að hafa tekið daginn rólega í fyrstu. Ætlunin var
að hitta Utivistarhópinn í Hlöðuvík um kvöldið og þangað var langur
gangur. Við gengum fyrir Tunguhornið og við okkur blasti Fljóts-