Húnavaka - 01.05.1990, Síða 117
HÚNAVAKA
115
hann verkjaði í hana af hita. Hann horíði á Gránu sem engdist af
kvölum þó hún lægi næstum máttlaus í krónni og hugsaði með sér
hvað þetta gæti verið. Honum datt bara eitt í hug sem hann hafði
einu sinni lesið að örsjaldan kæmi fyrir kindur að lömbin dræpust
inni í þeim og úldnuðu föst við þær, og í staðinn fyrir að láta þeim
strax þá reyndu þær að bera þegar lambið er gróið fast við, jafnvel
ekki fyrr en á venjulegum sauðburðartíma. Hann komst að því þegar
hann kannaði betur hvernig lambið var, að það gat ekkert annað
verið. Lambið var bara klessa, fast við Gránu.
Hann vissi hvað hann þyrfti að gera, skjögraði heim í hríðinni,
setti skot í kindabyssuna, gekk lotnari í herðum en áður til vesturhús-
anna með byssuna í hendinni. Þegar inn kom tók hann Gránu sína
upp og hélt á henni út í fanginu. Þar lét hann hana niður, klappaði
henni í síðasta sinn, vissi að í gegnum þjáningarnar fannst henni
það gott. Svo skaut hann hana og horfði á hvernig blóðið litaði hvítan
snjóinn, horfði á dauðakippina. Núna fann hann ennþá betur hvað
allt var í rauninni breytt. Hann gleymdi hríðinni, gróf sig niður í
gráa ullina og grét.
Skrifað í nóvember 1986.
☆ ☆ ☆
SKÖPUN OG DAUÐI KVÁSIRS
Goðin höfðu ósátt við það fólk, er Vanir heita. En þeir lögðu með sér friðarstefnu
og settu grið á þá lund, að þeir gengu hvorir tveggja til eins kers og spýttu í
hráka sínum. En að skilnaði þá tóku goðin og vildu eigi láta týnast það griðamark
og sköpuðu þar úr mann. Sá heitir Kvásir. Hann er svo vitur, að engi spyr hann
þeirra hluta, er eigi kann hann úrlausn.
Hann fór víða um heim að kenna mönnum fræði, og þá er hann kom að heimboði
til dverga nokkurra, Fjalars og Galars, þá kölluðu þeir hann með sér á einmæli
og drápu hann, létu renna blóð hans í tvö ker og einn ketil, og heitir sá Óðrerir,
en kerin heita Són og Boðn. Þeir blendu hunangi við blóðið og varð þar af mjöður
sá, er hver, er af drekkur, verður skáld eða fræðamaður. Dvergarnir sögðu ásum
að Kvásir hefði kafnað í mannviti, fyrir því að engi var þar svo fróður, að spyrja
kynni hann fróðleiks.
Snorri Sturluson - Skáldskaparmál.