Húnavaka - 01.05.1990, Page 164
162
HÚNAVAKA
ljós punktur var þó, en það vissum við sem í eldrauninni stóðum
ekki fyrr en í hléi. Manninum lá ákaflega lágt rómur þótt ódrukkinn
væri og enn lægra talaði hann undir áhrifum Bakkusar þannig að
fátt eitt heyrðist af tali hans niður í sal. Og vissulega gladdi það
okkar hrjáðu sálir þegar kona ein úr leikfélagi staðarins kom til okkar
í hléi og upplýsti okkur um þetta, ásamt beiðni um að við kæmum
þeim boðum til hans að hann yrði að tala hærra ef áhorfendur ættu
eitthvað að heyra af tali hans. Við leyndum fognuði okkar vel, lofuð-
um engu og svikum þar af leiðandi ekkert, því boðin fékk hann aldrei
og lái okkur hver sem vill.
Og einhvern veginn tók þessi sýning enda eins og aðrar. Það voru
ekki mjög mikil fagnaðarlæti hjá áhorfendum, eiginlega fremur lítil,
og undraði engan er að sýningunni stóð, og enn í dag er ég þakklát
fyrir að hafa ekki orðið vör við, hafi einhverjir gengið út á meðan
á þessu stóð. En vel man ég andlit sem greyptist svo í vitund mína
að jafnvel nú stendur mér það ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Því
jafnvel þó svo að sá sem á sviðinu er eigi alls ekki að horfa fram
í sal þá kemur slíkt óneitanlega fyrir. Einhvern tíma í þessari tveggja
tíma martröð sá ég áhorfanda, hann sat eða hálflá í sætinu, hafði
greinilega teygt vel úr sér, studdi hönd undir kinn og á andliti hans
var svipur sem erfitt er að lýsa, sambland af hræðilegum leiðindum,
einhverskonar samúð og einhverju enn öðru sem ég hef aldrei getað
áttað mig á hvað var, skein út úr þessu andliti sem festist svo í
huga mínum. Og það hefur verið mér leiðarljós í glímu minni við
leiklistargyðjuna að fá aldrei, aldrei aftur að sjá slíkan svip því ef
það gerist, ja, þá er eitthvað meira en lítið að því sem verið er að
sýna. Og sem betur fer hef ég sloppið en ef til vill hef ég bara ekki
horft nógu mikið í salinn.
Má vera að atvik þetta sé orðið bráðfyndið í dag, ég hlæ hugsan-
lega að þessu á morgun — og þó!