Húnavaka - 01.05.1990, Page 183
HÚNAVAKA
181
Uppstigningardagur 1921 er mér minnisstæður dagur. Það hafði
verið úrhellisrigning í lengri tíma, allt ílóandi í vatni, lækir fossuðu
í öllum giljum og skriður féllu. Þá kom stór skriða í Fossgilinu og
óhljóðunum þegar hún steyptist fram af fossinum veit ég ekki við
hvað hægt er að líkja. Það var eins og fjallið væri að hrynja. Ærnar
voru í óðakappi að bera og við vorum að ganga til þeirra og hjálpa,
þar sem þess þurfti með. Eiginlega var þetta hættulegt ferðalag því
að í mörgum giljunum runnu skriður og stóreflis steinar voru á hraðri
ferð í bröttu fjallinu svo að maður mátti hafa augun opin til þess
að verða ekki fyrir þeim. En þetta tókst giftusamlega þótt maður
væri satt að segja með lífið í lúkunum allan þennan dag.
Enn eitt gil er þarna í fjallinu nokkru norðar en þau sem ég þegar
hefi nefnt og heitir það Bæjargil, enda beint upp undan bænum á
Gunnsteinsstöðum. Þetta gil nær upp að efstu brún fjallsins og niður
undir tún. í þessu gili kom líka feikna mikil skriða og átti hún upptök
sín uppi við efstu brún fjallsins, rann með feikna hraða niður bratt
gilið, niður á tún, breiddi þar úr sér og huldi stórar sléttur aur og
grjóti. Það var tilkomumikil sjón og ægileg að horfa á þessar ham-
farir.
Stutt utan við Bæjargilið er djúp skál inn í fjallið og er kölluð
Ketill. Þeir eru nú reyndar tveir, Efri- og Neðriketill. í Efrikatlinum
kom líka stór skriða en gerði ekki teljandi skaða, því að hún fór
aðeins stutt niður. Nokkru utan við Efriketilinn opnast Strjúgsskarð,
sem liggur austur í gegnum fjallgarðinn milli Langadals og Laxár-
dals. Eftir skarðinu rennur lækur, sem venjulega er vatnslítill, en
getur þó vaxið mikið þegar þannig viðrar og heitir Strjúgsá þegar
hann nálgast Langadalinn og rennur í Blöndu. Það þótti skrítið að
þennan dag var árfarvegurinn neðan við Strjúgsgilið svo til þurr
um tíma. En svo kom skýringin. Uppi í skarðinu að sunnanverðu
höfðu margar og miklar skriður komið og runnið niður í ána og
stíflað hana með feikna dyngju af aur og grjóti. Þegar nógu mikið
af vatni hafði safnast fyrir ofan hana ruddi það stíflunni á undan
sér niður klettagilið, sem er neðst í skarðinu, og þaðan niður á tún
á Strjúgsstöðum og huldi meirihluta túnsins með aur og stórgrýti.
Á þessum tíma voru öll hús á Strjúgi, eins og bærinn var oftast
kallaður, með gamla sniðinu, hlöðnum veggjum úr torfi og grjóti.
Sjálfur bærinn stóð svo sem tvö til þrjú hundruð metra frá gilkjaftin-
um fyrir ofan. Skriðan lenti á bænum og fjárhúsunum og náði jafn-