Húnavaka - 01.05.1990, Page 188
PÉTUR A. ÓLAFSSON:
Mín bernskuár á Skagaströnd
Inngangur
Fyrir löngu síðan haíði ég ásett mér, ef ég lifði svo lengi, að skrá-
setja þegar ég væri sjötugur helstu atriðin úr lífsferli mínum. Ekki
fyrir það að neitt einstætt eða nýstárlegt hafi á daga mína drifið.
Fjöldamargir hafa þá sömu sögu að segja að hafa með árvekni og
ásettum vilja, efnalausir og upp á eigin spýtur, rutt sér og sínum
sæmilega lífsbraut til jarðneskra gæða og gengis. Það er að vísu það
mark sem flestir ungir menn, er hafa metnað til að skara eitthvað
fram úr fjöldanum, keppa að.
En þegar aldurinn færist yfir, asinn er runninn af og athafnaþráin
dofnar, komast líklega flestir að þeirri niðurstöðu að þetta sé ekki
allur vegurinn til velsældar. Skrifað stendur; ,,í sveita þíns andlits
skaltu þíns brauðs neyta“, með öðrum orðum, þú skalt ávallt hafa
eitthvað nytsamlegt fyrir stafni og aldrei sitja auðum höndum. Þetta
er gullvæg kenning sem allir ungir menn ættu að temja sér en ekki
einhlít. Lífið hér á jörðu er lítið meira en eitt tímaslag miðað við
eilífðina. Þeir sem á hana trúa og annað æðra og betra líf ættu því
jafnframt að hafa hugfastan undirbúning undir það líf sem tekur
við hinum megin. Enda þótt ég trúi að áframhaldslífið sé í alla staði
fegurra, bjartara og áhyggjuminna, þá efast ég ekki um að það gangi
þrep af þrepi, í hlutfalli við hegðan og líferni hvers einstaklings á
fyrsta stigi tilverunnar. Mér hefur einlægt fundist að uppistaðan fyrir
góðri hegðan hérna megin væri fyrst og fremst í því fólgin að breyta
svo við aðra sem maður vill að aðrir breyti við sig. Þetta hefi ég
reynt að temja mér þó hvorki hafi það kannski tekist né sé einhlítt.
Þetta var nú dálítill útúrdúr en enginn hégómi. Ég er nú 73 ára
þegar ég loks byrja á þessum endurminningum og er því fallvalt
hvort tími vinnst til að ljúka við þær. Hefir ýmislegt tafið og ég
stend heldur ekki sem best að vígi því minnið er farið að sljóvgast,