Dagblaðið Vísir - DV - 05.06.2009, Side 38
föstudagur 5. júní 200938 Helgarblað
Samræmast þessi áform þeirri
markmiða- og verkefnaáætlun sem
Samfylkingin lagði fram skömmu
fyrir kosningarnar 2007 og kallaðist
Fagra Ísland?
„Fagra Ísland snerist í grunninn
um það að búa til almennar reglur
og almennan ramma um nýtingu
og verndun náttúruauðlinda. Þar er
hvergi minnst nokkuð á Bakka eða
Helguvík. Í lok þessa árs klárum við,
vonandi, rammaáætlun um vernd og
nýtingu náttúruauðlinda þjóðarinn-
ar og það sem hún gefur okkur, loks-
ins, er heildarmynd af kostum okk-
ar. Það er að segja, verndarkostum
og nýtingarkostum. Og þegar þetta
er komið ætla ég svo sannarlega
að vona að við Íslendingar hættum
að klofna upp í tvo hópa, með og á
móti, út af einstaka svæðum á land-
inu. Þá erum við komin með heild-
armynd af landinu og heildarmynd
af kostunum sem farið hafa í gegn-
um málfundinn sem heitir Alþingi
og fá þannig lögformlega stöðu, auk
þess sem allir hafa fengið tækifæri til
að senda inn sínar umsagnir. Þetta
má segja að hafi verið kjarninn í
Fagra Íslandi.“
„Hálffraus“ andspænis
ráðherratillögunni
Spjallið berst að því hvernig það kom
til að Katrín varð iðnaðarráðherra
í nýrri ríkisstjórn Samfylkingar og
vinstri grænna. Hún fékk að vita um
þetta nýja hlutverk sitt aðeins þrem-
ur klukkstundum áður en þetta var
tilkynnt opinberlega.
„Þetta var ákveðið á fundi okkar í
þingflokknum. Þegar ég kom til þess
fundar vissi ég að ég hlyti að koma
sterklega til álita, bæði í ljósi þing-
reynslunnar og góðs árangurs í próf-
kjörum í stærsta kjördæminu tvisvar
í röð,“ segir Katrín en þótt undar-
lega hljómi er hún að verða á meðal
þeirra sem lengstan starfsaldur hafa
á Alþingi þrátt fyrir að hafa einungis
setið þar síðan 2003.
„Ég hlaut því að gera ráð fyrir því
að ég væri allavega í púlíunni. Engu
að síður kom ég til þess fundar al-
gjörlega viss um að ég yrði ekki þar
vegna þess að ég var sannfærð um
að þá hefði verið hringt í mig. En svo
var lögð fram tillaga á fundinum þar
sem ég var á blaði.“
Hvað fór um huga þinn þegar þér
varð ljóst að þú varst að verða ráð-
herra?
„Ég eiginlega hálffraus í smá tíma
af því að ég hafði svo innilega ekki
gert ráð fyrir þessu. Þetta var mjög
skrítinn dagur, ég skal alveg viður-
kenna það. Í gegnum huga mér fóru
líka alls konar hugsanir um son minn
sem er tíu ára, hvaða áhrif þetta gæti
haft á hann og hans líf og eitthvað
svona sem ég hafði aldrei velt fyr-
ir mér áður. Slíkar hugsanir þustu í
gegnum huga mér þennan dag en
svo ákvað ég bara að þetta væri ein-
stakt tækifæri, sem ég reyndar vissi
auðvitað fyrir. Svo settist ég niður
við skrifborðið á mánudeginum og
byrjaði að vinna og sór sjálfri mér að
ég myndi gera mitt allra, allra besta
í þessu ráðuneyti. Meira get ég ekki
gert og minna ætla ég alls ekki að
gera.“
Sonurinn svekktur með
sumarfrísskortinn
Hvarflaði einhvern tímann að þér,
þegar allar þessar hugsanir þustu í
gegnum huga þinn, að þú gætir ekki
tekið við embættinu?
„Nei, aldrei nokkurn tímann. Það
sem fór í gegnum huga mér var að
ég var að átta mig á breytingunum.
En þú getur ekki áttað þig á þeim
fyrirfram. Þær verða bara að koma.
Og þær verða kannski ekkert meiri
en þú lætur þær verða. Þetta verður
breyting á mínu lífi, ég er alveg viss
um það, en til góðs vonandi.“
Katrín er einstæð móðir en hún á
tíu ára gamlan son, Júlíus, með Flosa
Eiríkssyni, bæjarfulltrúa Samfylking-
arinnar í Kópavogi. Aðspurð hvernig
það gangi að samræma ráðherra-
starfið og hlutverk hinnar einstæðu
móður segist Katrín ekki óvön því að
þurfa að tvinna einkalífið saman við
tímafreka vinnu.
„Þingmennskan er mjög anna-
söm og getur þýtt mikla fjarveru.
Oft þarftu að sitja þingfundi fram á
kvöld algjörlega án þess að vita hve-
nær þú ert búin. En ég er bara svo
ofboðslega lánsöm að ég á pabba
og mömmu sem eru alveg einstök.
Pabbi tekur á móti stráknum mín-
um á hverjum einasta degi klukk-
an 14 og er með hann eins og þarf.
Mamma tekur Júlíus svo oft á kvöld-
in fyrir mig og þá fær hann stundum
að gista hjá ömmu sinni í dekri – og
það finnst honum ekki leiðinlegt,“
segir Katrín og hlær.
„Ég er líka býsna hörð á því að
taka hann oft með mér til að hann
viti hvað ég er að gera. Síðan er svo
skrítið að hann er ofboðslega sjálf-
stæður og sterkur strákur, þrátt að
vera bara tíu ára. Hann er mjög
sterkur félagslega þannig að hann á
sitt eigið félagslíf sem er kannski far-
ið að taka meiri tíma frá samveru-
stundum okkar heldur en vinnan
mín,“ segir Katrín og hlær aftur. „En
við erum ofsalega góðir vinir þannig
að þetta gengur bara vel.“
Hann sýnir þessu þá alveg skiln-
ing að þú þurfir að vinna svona mik-
ið?
„Já, hann hefur alltaf gert það.
Hann er hins vegar svolítið svekktur
að fá ekki sumarfrí með mér í sumar,
svona almennilegt. Ég tek kannski
langar helgar en sé ekki að mögu-
legt sé að fara í eitthvað sumarfrí að
þessu sinni.“
Róttækari en mamma hans
Júlíus á sér þann draum að hann
og mamma hans opni lítið kaffihús,
„þar sem hann getur alltaf komið
eftir skóla og hjálpað til“ segir Katrín
og brosir breitt. „Kannski gerist það
einhvern tímann. Með því er hann
kannski að segja að hann væri til í
að sjá mig meira. En ég reyni að vera
með honum eins mikið og ég get. Og
við njótum þess betur stundanna
okkar saman. Svo á hann gríðarlega
góðan föður sem hann fer auðvit-
að til líka í eina viku í mánuði og þá
reyni ég að nota þá viku extra vel.“
Katrín segir son sinn hafa mikinn
áhuga á pólitík og með sterkar skoð-
anir á málum. Það sé því mjög gam-
an að hlusta á hann. Og ef Júlíus hafi
áhuga á að feta þá leið seinna meir
þá myndi hún hvetja hann til þess.
„Ég hvet hann til þess að gera
það sem hann vill. Eins og staðan
er núna hefur hann engan áhuga á
því að verða stjórnmálamaður held-
ur ætlar hann að verða atvinnumað-
ur í fótbolta og ég hvet hann í því á
meðan hann vill það. Ef hann skiptir
um skoðun hvet ég hann líka áfram
í því.“
Er hann á réttum stað í pólitík að
mati mömmu sinnar?
„Já, já, já, já, hann er það. Og er
jafnvel róttækari en ég var þegar ég var
yngri,“ segir Katrín og skellir upp úr.
Er ekki ein
Katrín sagði í stuttu viðtali við tíma-
ritið Vikuna á liðnum vetri að hún
hefði aldrei verið í sambúð og aldrei
náð heilu ári í sambandi. Hvernig
stendur á þessu?
„Ég er bara voðalega sjálfri mér
nóg. Og ég hef nánast alla mína ævi
unnið mjög mikið. Svo á ég rosalega
mikið af vinum. Minn frítími fer því
mikið í fjölskyldu og vini og að njóta
þess að vera ein. Þannig að ef ég er
ekki að vinna upp glataðan tíma
með vinum og fjölskyldu finnst mér
ekkert betra en að vera ein. Kannski
spilar þetta eitthvað inn í, kannski
frekar en að mér finnist enginn nógu
góður,“ segir iðnaðarráðherrann og
hlær enn.
Óttast ekki að vera „einstæð“ það
sem eftir er, svo maður orði það eins
og það sé hræðilegt hlutskipti?
„Af hverju ætti ég að óttast það?“
spyr Katrín á móti. „Ég er ekki ein,
ég er umkringd fólki alla daga. og
ég á svo mikið til dæmis af góðum
og yndislegum vinum sem gefa mér
svo mikið að mér finnst ekkert vanta
þannig lagað. Kannski væri fínt að
hafa einhvern stuðning heima við
en ég fæ hann annars staðar. Annars
spái ég voða lítið í þetta.“
Sérðu þá ekkert í hillingum að
ganga í hjónaband, eiga nokkur
börn, fallegt hús, bíl og hund eða
eitthvað í þá veru?
„Nei, það er ekki markmið í sjálfu
sér. En ég er heldur ekki að reyna að
forðast það. Það bara kemur ef það
kemur. Auðvitað væri maður hugs-
anlega til í fleiri börn og svona, sér-
staklega af því að sá fyrsti heppnað-
ist svo vel. Mér finnst fátt dásamlegra
en börn og stór fjölskylda. Ég er nú
bara þrjátíu og fjögurra ára og ef
þetta gerist þá gerist það. Ef ekki er
það bara þannig. Ég ætla ekki að fara
að gera mér vonir og væntingar um
eitthvað. Þú þarft ekki að verða fyr-
ir vonbrigðum með eitthvað heldur
áttu að njóta lífs þíns eins og það er.“
Sápan og þýski boltinn
Í nærmynd af þér í sjónvarpsþættin-
um Íslandi í dag nýverið kom fram
að þú elskir sápuóperur og þýska
boltann. Er þetta rétt?
„Já. Í gamla daga sérstaklega
horfði ég mikið á sápuóperur til að
tæma hugann. Þá er ágætt að horfa
á einhverjar ræmur þar sem þú þarft
ekki að reyna á þig, svona aðeins til
að slaka á. Hvort maður kalli Friends
og svoleiðis léttmeti sápuóperur veit
ég ekki, en jú ég er mikið fyrir það.“
Hvað áhuganum á þýska boltan-
um viðkemur segir Katrín að faðir
hennar hafi lært í Þýskalandi þegar
hann var ungur maður og tók hann
við miklu ástfóstri við landið. Sá
áhugi hafi smitast yfir á Katrínu og
systkini hennar. „Ég var mjög ung
farin að sækja þýskutíma á laugar-
dögum, svona sex, sjö ára.
Ég er því altalandi á þýsku og hef
verið mikið þar. Svo býr einn bróð-
ir minn þar og á þýska konu þannig
að ég tengist Þýskalandi mikið. Mér
finnst þetta alveg yndislegt land og
ekki er verra að tala málið.“
Það má segja að þú sért í for-
ystusveit Samfylkingarinnar, ver-
andi einn af ráðherrum flokksins.
En hyggstu komast í fremstu víglínu
innan flokksins, það er í embætti
formanns eða varaformanns?
„Ég á mér engin slík markmið. Ég
á mér einfaldlega þau markmið að
vinna sem best sem kjörinn fulltrúi
í þeim störfum sem mér er treyst fyr-
ir hverju sinni. Lengra fram í tímann
horfi ég ekki. Það getur vel verið að
einn daginn passi ég inn í eitthvað
annað hlutverk en ég er í núna, og
auðvitað er ég reiðubúin til þess, en
allt á sinn stað og sína stund eins og
maður segir.“
Þingmennskan ekki ævistarf
Hvar sérðu þig fyrir þér eftir svona tíu,
tuttugu ár? Verðurðu ennþá á þingi
eða á ráðherrastóli?
„Ég veit það ekki. Þetta er mjög
erfið spurning. Lífið er svo ótrúlega
magnað og ég hef upplifað það sjálf
að maður getur ekki ákveðið svona
fram í tímann.“
Mér heyrist á þér að þig langi ekki
til að vera á þingi til 67 ára aldurs.
„Ég kem inn á þing tuttugu og átta
ára og kem ekki inn með það fyrir
augum að þetta sé ævistarf. Ég kem
inn með það fyrir augum að berjast
fyrir jafnaðarstefnunni, berjast fyrir
því að ryðja henni til rúms. Ég kom
líka inn sem einstæð móðir og var
búin að vera í streðinu og hafði, og hef
ennþá, það markmið að létta undir
með barnafólki og skapa fjölbreytt at-
vinnutækifæri fyrir ungt fólk. Ég vona
að ég nái að skila árangri í því. Þá er ég
glöð og svo sjáum við bara til.“
Í Íslandi í dag kom líka fram að
þig dreymdi um að verða aðalritari
Sameinuðu þjóðanna þegar þú varst
yngri. Áttu þér ennþá þann draum?
„Já, en samt má segja að sá draum-
ur sé kominn aðeins neðar í skúff-
una. Kannski vegna þess að maður
er orðinn raunsærri heldur en þeg-
ar maður var barn. En geymum við
ekki öll æskudrauma okkar í brjósti
okkar, svona innst inni? Ég á mér
þann draum eins og margur annar
um heimsfrið og mér finnst Samein-
uðu þjóðirnar og grunnhugmynda-
fræði þeirra samtaka alveg gríðarlega
merkileg. Ég væri því til í að vinna á
þeim vettvangi einhvern tímann í
framtíðinni þó að í dag geri ég mér
raunsærri mynd af því hvaða hlut-
verki ég gæti gegnt þar.
En í æsku ætlaði ég mér ýmislegt,
til dæmis að verða arkitekt og sprett-
hlaupari. Ég hef ekki áhuga lengur
á því að verða arkitekt, hef líka sætt
mig við að ég er hörmulegur teiknari.
En kannski verð ég svona „old girls“-
spretthlaupari.“
kristjanh@dv.is
„Fagra Ísland snerist í grunninn um það að búa til
almennar reglur og almennan ramma um nýt-
ingu og verndun náttúruauðlinda. Þar er hvergi
minnst nokkuð á Bakka eða Helguvík.“
Með einkasyninum Katrín og júlíus
eru bara tvö í heimili. Hún segir son
sinn sýna því skilning hversu mikið
mamma þurfi að vinna.
Mynd HEiða HElgadóttiR