Dagblaðið Vísir - DV - 10.06.2009, Blaðsíða 20
Miðvikudagur 10. júní 200920 norðurland
Fyrir nokkrum árum bjó ég á Akureyri. Ég og Ingveld-ur G. Ólafsdóttir, eigin-kona mín, nutum þess að
hafa útsýni út um eldhúsglugg-
ann út Eyjafjörðinn í átt að Kald-
bak, tignarlegu og háreistu fjalli ut-
arlega við austanverðan fjörðinn.
Við ræddum það oft að einn góð-
an veðurdag kæmi að því að við
færum í Fjörður, ævintýralandið
norðan Kaldbaks, sem stundum er
kallað Hornstrandir Norðurlands.
Sjálfur fór ég mína fyrstu för á fjöll
með bakboka árið 1995 í Fjörð-
ur og gekk þá út Eyjafjörðinn, um
Látraströnd í átt að Gjögurtá þar
sem sveigt er inn í dalverpi og farið
yfir Uxaskarð. Þaðan er horft ofan í
Keflavík í Fjörðum.
Ljóð Látra-Bjargar um Fjörður
er lýsandi fyrir þennan fagra norð-
urhjara þar sem Grímsey, Flat-
ey á Skjálfanda og Melrakkaslétt-
an blasa við göngugörpum í góðu
skyggni.
Fagurt er í Fjörðum
þá Frelsarinn gefur veðrið blítt,
heyið grænt í görðum,
grös og heilagfiskið nýtt,
en er vetur að oss gerir sveigja
veit ég enga verri sveit,
um veraldarreit,
menn og dýr þá deyja.
Leiðin um Fjörður getur legið í
hring með upphafs- og endastöð
í Grenivík. Flestir kjósa þó að aka
slóða norður fyrir Grenivík í átt að
Látraströnd ellegrar upp á Leirdals-
heiði en af henni liggur vegslóði alla
leið ofan í Hvalvatnsfjörð. Frá Greni-
vík niður í botn Hvalvatnsfjarðar er
um 27 kílómetra leið. Ferðalag um
Fjörðu er rakin þriggja daga ganga
með tvær til þrjár nætur í tjaldi.
Upp úr miðjum júní árið 2004
vorum við orðin óróleg. Sumarið
var komið þótt enn væri talsverður
snjór í fjöllum, einkum á Kaldbak
og í dularfullum fjallaklasanum þar
norður af. Tækifæri kom 18. júní. Þá
létti til og sól skein í heiði. Við kus-
um að aka á fólksbíl okkar upp á
miðja Leirdalsheiði en þaðan skyldi
haldið fótgangandi með bakpokana
ofan í Hvalvatnsfjörð. Sem við kom-
um að seli á leiðinni niður af heið-
inni, nálægt ánni sem myndar loks
stöðuvatn innan við sjávarkambinn
í botni fjarðarins, hittum við heima-
menn úr Grýtubakkahreppi sem
buðu okkur kaffi og meðlæti. Þeir
voru á leið með fjárrekstur mikinn
í sumarhagana og sannfærðu okk-
ur um að við værum langfyrst þetta
sumarið til að leggja upp í Fjarða-
göngu. Heimamenn buðust til að
taka bíl okkar ofan af heiðinni til
Grenivíkur og vildu fyrir alla muni
sækja okkur á tilteknum tíma út að
Látraströnd utan Grenivíkur við lok
göngunnar. Allt stóð það eins og
stafur á bók og erum við ævinlega
þakklát feðgunum á Grýtubakka II,
þeim Kristjáni Stefánssyni og Stef-
áni syni hans.
Merkileg saga byggðar
Gengið er austan árinnar ofan í
Hvalvatnsfjörð. Hún er vatnsmikil
og fyrirhöfn að vaða hana klyfjaður.
Við Tindriðastaði er ágæt göngubrú
yfir ána og þaðan upp á Þorgeirs-
höfða sem skilur að Hvalvatnsfjörð
og Þorgeirsfjörð. Við hugsum til
þess að í lok nítjándu aldar bjuggu
hér um 100 manns á 10 bæjum.
Í námunda við slysavarnaskýlið
í Þorgeirsfirði mótar enn fyrir býl-
inu á Þönglabakka og kirkjugarðin-
um. Lágfóta átti leið þar um er okk-
ur bar að garði. Komið var kvöld,
veður fagurt og því var sjálfgefið að
tjalda við ána og hvíla lúin bein eft-
ir gott dagsverk, líklega um 20 kíló-
metra leið.
Daginn eftir lá leiðin upp úr
Þorgeirsfirði upp Botnsfjall í átt að
Blæjukambi. Þar er hrikalegt í sjó
fram. Ekki er hægt að mæla með því
að ganga þá leið á svellum að vetr-
arlagi, svo mikið er víst. En það var
gert á árum áður og dæmi þess að
fólk tíndi þar lífi sínu. En að sum-
arlagi er þetta auðvelt þótt bratt sé
í sjó fram ofan klettabelta.
Haldið er áfram um hríð og
skyndilega blasir við Keflavík og
dalverpið upp af henni sem lýkur
uppi í Uxaskarði.
koMinn niður á grundir
Vestan Keflavíkur er vitinn á Gjögri
og Gjögurtá. Ekki er gengið fyr-
ir tána heldur upp dalverpið upp í
Uxaskarð. Þetta er falleg leið en æði
erfið með byrðar á baki.
Úr Uxaskarði blasir við Eyja-
fjörður utanverður. Handan fjarðar-
ins er horft inn í mynni Ólafsfjarðar
og á Ólafsfjarðarmúlann. Inn með
firðinum opnast Svarfaðardalur. En
neðan Uxaskarðs er Látraströnd.
Þegar komið er niður á grasbalana
á Látrum þykir flestum sem nóg sé
gengið þann daginn úr Fjörðum
enda Látrar góður áningarstaður.
Innan við Látra er Kleifin svo-
nefnd með hamrabeltum í sjó fram.
Gengið er í gróðursælli fjallshlíð-
inni ofar Kleifinni.
Látra-Björg, sem uppi var á átj-
ándu öld, orti eitt sinn er hún sá
ferðalang skrika á svelli ofan Kleif-
arinnar að vetrarlagi:
Fallega það fer og nett.
Flughálkan er undir.
Hann er að hrapa klett af klett.
Kominn niður á grundir.
Látraströndin er nánast undar-
lega gróðursæl. Kjarrið er hávax-
ið og blómaflóran fjölskrúðug. Þar
sést meira að segja villtur reynivið-
ur og hvergi hef ég séð jafngrósku-
mikla einiberjarunna.
Hægt og bítandi kemst maður
til móts við norðurodda Hríseyj-
ar. Þegar haldið er þaðan inn með
Eyjafirði komast göngumenn loks
á vegslóða. Vegurinn er tákn um að
ferðin sé á enda. Brátt sést til Krist-
jáns á Grýtubakka II á litlum Suz-
uki-jeppa sínum.
Við lítum hvort á annað ánægð
með okkur sjálf og minninguna um
ævintýralandið.
johannh@dv.is
Fjörður eru stundum kallaðar Hornstrandir Norðurlands. Þar bjuggu í lok nítjándu aldar um hundrað manns á
tíu bæjum í Hvalvatnsfirði, Þorgeirsfirði og Keflavík við Gjögurtá. Þetta er fögur tveggja til þriggja daga göngu-
leið með bakpokann en einnig er unnt að aka slóð ofan í Hvalvatnsfjörð og fara í skemmri gönguferðir.
„Fagurt er
í FjörðuM“
Úr Uxaskarði blasir við Eyjafjörður utanverður.
Handan fjarðarins er horft inn í mynni Ólafs-
fjarðar og á Ólafsfjarðarmúlann.
Látraströnd Ingveldur G.
Ólafsdóttir hvílir lúin bein og
nýtur sólarinnar.
Kvöldsól um Jónsmessu
Horft frá Látrum inn Látrakleif
og Eyjafjörð.
Uxaskarð Skyndilega blasa Eyjafjörður,
Ólafsfjörður og Tröllaskaginn við í allri
sinni dýrð úr Uxaskarði.
Blæjukambur Hrikaleg fegurð norðursins. Í fjarskanum
sjá göngumenn Grímsey rísa úr hafi. myndir Jóhann haUKsson
Í Fjörðum Yst við austanverðan
Eyjafjörð er ein áhugaverðasta
gönguleið fyrir náttúruunnendur
á Norðurlandi, enda er svæðið
stundum nefnt Hornstrandir
Norðurlands.