Dagblaðið Vísir - DV - 13.12.2010, Blaðsíða 11

Dagblaðið Vísir - DV - 13.12.2010, Blaðsíða 11
Fréttir | 11Mánudagur 13. desember 2010 Jóhannes Guðnason kom að fóstur- syni sínum, Halldóri Elfari Hann- essyni náfölum og meðvitundar- lausum um laugardagsnóttina. „Ég hrökk upp við þvílík læti um nóttina, ég hélt að það væri verið að brjótast inn hjá mér. Svo þegar ég kallaði á konuna heyrði ég bara öskur og grát- ur,“ segir Jóhannes um hina örlaga- ríku nótt. Sautján ára fóstursonur hans hafði farið í skyndilegt hjarta- stopp þar sem hann sat við tölvuna. Ekki er vitað hvað gerðist eða hvað olli því að svona ungur maður mað- ur fékk hjartastopp. „Þegar ég kom hlaupandi niður, þá sá ég konuna halda á, því sem mér fannst vera lík. Hann bara steinlá.“ Halldór Elfar get- ur þakkað skjótum viðbrögðum og skyndihjálparkunnáttu Jóhannesar að ekki fór verr. Námskeiðið bjargaði „Ég var sem betur fer nýbúinn að fara á skyndihjálparnámskeið. Olíudreif- ing býður okkur að fara á svoleiðis námskeið, þannig að ég var búinn að læra hjartahnoð.“ Jóhannes hringdi strax á neyðarlínuna, sem gat leið- beint honum símleiðis. „Mér var sagt að hefja hjartahnoð, en þegar ég var búinn að hnoða 10–20 sinnum var strákurinn ennþá blár og ekkert var að gerast,“ segir Jóhannes. „Mér var þá sagt að hnoða fastar og ég hnoð- aði fastar, þá loksins kom kippur í strákinn,“ segir Jóhannes. Með beint samband við Neyðarlínuna hnoðaði hann fósturson sinn til lífs. „Þá fór að koma froða upp úr honum, þetta var þá að virka!“ bætir Jóhannes við. Nauðsynleg þekking Þegar blaðamaður DV náði tali af Jóhannesi á sunnudaginn var hann á leið á Landspítalann til fósturson- arins. „Ég mætti í vinnuna í morgun eins og til stóð,“ segir Jóhannes, sem starfar sem vörubílstjóri. „Yfirmenn- irnir húðskömmuðu mig fyrir að taka vinnuna svona fram yfir barnið. Mér var sagt að leggja bílnum og drífa mig í bæinn.“ Þess má geta að Jóhann- es lýsti því í viðtali við DV í fyrra að hann hefði aldrei misst dag úr vinnu vegna veikinda. Skyndihjálparnám- skeiðið var á vegum vinnuveitanda Jóhannesar, Olíudreifingu, en starfs- mönnum fyrirtækisins býðst að fara á slík námskeið í Reykjavík. Jóhannes hefur verið atvinnu- bílstjóri í tugi ára, en aldrei fram að þessu hafði hann farið á skyndihjálp- arnámskeið, þótt þörfin hafi í raun alla tíð verið brýn. „Af því að ég keyri svo mikið út á land, þá hef ég kom- ið að gríðarlega mörgum bílslysum.“ En Jóhannesi hafði aldrei áður verið kennt að nota slökkvitæki, né heldur hvernig beita skyldi hjartahnoði. „Það er rosalegur ókostur að kunna þetta ekki. Nú kann ég þetta, og þetta kvöld vissi ég nákvæmlega hvað ég átti að gera,“ segir hann og bætir við að það að kunna rétt handtök á ögur- stundu geti verið spurning um líf eða dauða. „Ég tel mig hafa bjargað mannslífi, og það er eingöngu vegna þess að Olíudreifing býður starfs- mönnum sínum að fara á skyndi- hjálparnámskeið,“ segir Jóhannes. Baðst afsökunar eftir á Jóhannes var skiljanlega illilega brugðið þegar hann kom að fóst- ursyninum. „Maður var svaka- lega hræddur. Ég taldi barnið bara vera dáið,“ segir hann, og bendir á að hann hafi verið fremur stuttur í spuna við manninn hjá neyðarlín- unni. „Ég varð fremur reiður þegar hann fór að spyrja hvað drengurinn væri gamall og slíkt. Ég sagði hon- um að senda bara sjúkrabíl strax,“ segir Jóhannes, en bætir þó við að hann hafi séð eftir hvössum orðum þegar skelfingin rann af honum. „Ég hringdi aftur um tveimur tímum síð- ar, þegar ég var búinn að róast örlít- ið niður. Ég var þá svo heppinn að hitta á sama mann og áður. Ég bað hann afsökunar á minni framkomu. En hann gerði þá bara lítið úr þessu, sagði viðbrögð mín hafa verið full- komlega eðlileg. Menn verða nú reyndar hræddir í svona aðstæðum,“ bætir Jóhannes við. Hann vill þó taka fram að maðurinn hafi verið fag- mannlegur fram í fingurgóma. „Það var alveg sama hvað ég var brjálaður í símanum, alltaf hélt hann ró sinni. Það þarf nú karakter í það.“ Blessunarleg útkoma Margt hefði getað farið verr þetta kvöld. „Ég sagði honum að fara að koma sér upp í rúm áður en ég fór að sofa, en það er gott að hann gerði það ekki.“ Halldór hafði verið í tölv- unni, en hefði hann farið upp í rúm hefði líklegast enginn tekið eftir því að eitthvað væri að. „Það heyrðist rosalegur skellur, hann braut stólinn drengurinn þegar hann féll í gólfið.“ Hefði hann verið liggjandi, þá hefði líklega enginn orðið var við meðvit- undarleysi hans. „Ég segi nú bara, það er eins gott að hann var áfram í tölvunni og hlustaði ekki á mig,“ seg- ir Jóhannes. Um nóttina var Halldór flutt- ur á Landspítalann í Reykjavík, þar sem læknar reyndu að komast að því hvað olli hjartastoppinu. Seinna um daginn var hann útskrifaður, en hann mun þurfa að vera rúmliggj- andi í nánustu framtíð. „Þeir rann- sökuðu hann í dag á spítalanum,“ sagði Jóhannes á sunnudagskvöld- inu. „Þeir fundu ekki meinið, en á þriðjudaginn mun taugasérfræð- ingur líta hann.“ Jóhannes og konan hans, Sigríður Aðalborg Sigurðar- dóttir, eru þó vongóð um framtíð- ina. Jóhannes bendir á að allir ættu að ljúka skyndihjálparnámskeiði, hafi þeir kost á því. Gott sé að fyrir- tæki bjóði starfsmönnum sínum upp á námskeið af þessu tagi. „Ég vil að fyrirtæki geri einmitt svona. Ég vissi hvað ég var að gera, en fyrir tveimur mánuðum hefði ég ekki vitað það. Þetta skiptir öllu,“ segir Jóhannes. Skyndihjálpin bjargaði lífinu n 17 ára drengur fékk hjartastopp n Jóhannes Guðnason bjargaði lífi fóstursonar síns n Hann var nýbúinn á skyndihjálparnámskeiði n Náði að hnoða drenginn til lífs Símon Örn Reynisson blaðamaður skrifar simon@dv.is Jóhannes Guðnason og Halldór Elfar Hannesson „Mér var þá sagt að hnoða fastar og ég hnoðaði fastar, þá loksins kom kippur í strákinn.“ Skyndihjálp skiptir sköpum fyrir batahorfur: „Það ættu allir að fara á svona námskeið“ Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, hvetur alla til þess að fara á skyndihjálparnámskeið, en slík námskeið eru haldin reglulega á vegum samtakanna. „Rauði krossinn útbýr námsefni og síðan bjóða deildirnar upp á námskeið og eins bjóðum við upp á þessi námskeið til fyrirtækja. Sem betur fer er mikið um að skólar haldi námskeið og íþróttakennarar eru með réttindi til að kenna skyndihjálp,“ segir hann. „Það hefur náttúrulega margsýnt sig að það að fólk kunni skyndihjálp og viti hvernig það á að bregðast við, ræður úrslitum við slys og ef það eru hjartaáföll eða eitthvað slíkt. Það hefur sýnt sig að það ræður alveg batahorfum viðkomandi, að það sé fólk á staðnum sem kann að bregðast við strax þangað til heilbrigðismenntað fólk kemur á staðinn. Ef um er að ræða eitthvað sem tengist hjartastoppi þá er mikilvægt að kunna að hnoða og blása. Rannsóknir hafa sýnt að það margfaldar lífslíkur viðkomandi,“ segir hann. Námskeið Rauða krossins eru af ýmsu tagi. Fullt skyndihjálaparnámskeið er 16 tíma námskeið, en einnig er boðið upp á styttri námskeið í endurlífgun. Á 16 tíma námskeiði lærir fólk öll helstu atriði skyndihjálpar. „Það ættu allir að fara á svona námskeið. Þetta er einnig nokkuð sem fólk á að halda við. Reynslar sýnir okkur að þegar fólk hefur farið á svona námskeið er alveg ótrúlegt að sjá hversu hlutirnir rifjast upp þegar það verður að nota það sem það hefur lært.“ valgeir@dv.is Þegar slys gerast: 1 Tryggðu öryggi Fyrstu viðbrögð í skyndihjálp skulu alltaf vera að tryggja öryggi þess sem hjálpað er og tryggja að hann verði ekki fyrir frekari skaða. 2 Hringdu á 112 Næst skal hringja á neyðarlínuna, 112. 3 Beittu endurlífgun Ef viðkomandi andar ekki og svarar ekki áreiti, þá skal strax beita endurlífgunaraðferðum. 4 Stöðvaðu blæðingu Ef viðkomandi blæðir skal stöðva blæðinguna. Að beita hjartahnoði og blástursaðferð n Opnaðu öndunarveginn með því að sveigja höfuðið aftur. n Horfðu og hlustaðu eftir merkjum um eðlilega öndun. Lyftist brjóstkassinn? Andar viðkomandi frá sér? n Hnoðaðu á miðjan brjóstkassann með beinum handleggjum. Hnoða skal 30 sinnum. Hnoðtakturinn á að vera um það bil hundrað hnoð á mínútu. Það er rúmlega 1,6 hnoð á sekúndu. Eftir 30 hnoð, skal blása tvisvar. n Klemmdu fyrir nef og blástu í munn. Blástu þannig að brjóstkassinn lyftist lítillega. Blástu tvisvar, og ef öndun hefst ekki að nýju skal hnoða aftur 30 sinnum. Endurtakið ferlið þar til hjálp berst eða viðkomandi fer að anda eðlilega. Réttu viðbrögðin

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.