Dagblaðið Vísir - DV - 14.09.2012, Blaðsíða 12
Vilja rannsóknarleyfi
í skjálfandafljóti
12 Fréttir 14.–16. september 2012 Helgarblað
Í
rammaáætlun voru þrír virkjun-
arkostir í Skjálfandafljóti nefndir,
Fljótshnjúksvirkjun, Hrafnabjarga-
virkjun A og Eyjadalsárvirkjun, en
allir eru þeir settir í biðflokk, það er
að segja, á svæði sem skoða þarf betur
áður en ákvörðun um vernd eða nýt-
ingu er tekin. Nú hafa Hrafnabjarga-
virkjun hf., félag í meirihlutaeigu
Orkuveitu Reykjavíkur, og Landsvirkj-
un hins vegar sent inn sína umsókn-
ina hvort um rannsóknarleyfi vegna
fyrirhugaðra virkjana í Skjálfanda-
fljóti.
Gamlar hugmyndir
Náttúruverndarsinnar eru uggandi yfir
þessum rannsóknarleyfum en í niður-
stöðum 2. áfanga rammaáætlunar
var þetta svæði metið í hópi tíu efstu
sem búa yfir mjög miklum náttúru- og
menningarverðmætum. Svæðið var
einnig í hópi þeirra sem voru metin
verðmætust vegna landslags og víð-
ernis, enda um víðáttumikið svæði
þar sem athafnir mannsins eru lítt
áberandi að ræða. Að mati faghóps
I ætti ekki að ráðstafa þessum svæð-
um til nota sem samrýmast illa eða
ekki hinum ríku verndarhagsmunum.
Eins er tekið fram að vatnsaflsvirkjan-
ir og jarðvarmavirkjanir hafi mjög mik-
il áhrif á landslag og víðerni, ekki síst
á miðhálendinu. Því telur faghópur I
að þau áhrif hljóti að vega þungt við
ákvarðanir um hvort leyfa eigi fram-
kvæmdir tengdar orkunýtingu.
Engu að síður lenti svæðið í bið-
flokki en ekki verndarflokki, þannig
að óvíst er hvað verður. Hugmynd-
ir Orkuveitu Reykjavíkur um virkj-
anir á svæðinu eru ekki nýjar af nál-
inni en hugmyndin er að reisa þar
89 MW virkjun við Hrafnabjörg með
miðlun á fljótsdalnum þar sunnan
við. Hrafnabjargalón yrði myndað á
grunni gamals lóns en frá lóni og nið-
ur í Bárðardal fellur áin um Hrafna-
bjargagljúfur og í tveimur þekktum
fossum, Hrafnabjargafossi og Aldeyj-
arfossi, sem þykir á meðal fegurstu
fossa landsins með sinni einstöku
stuðlabergsumgjörð, og einum fossi
að auki, Ingvararfossi.
Málið í ferli
Á heimasíðu Framtíðarlandsins er
fullyrt að virkjunin myndi sökkva
stóru gróðursvæði á hálendinu með
25 kílómetra löngu miðlunarlóni auk
þess sem Aldeyjarfoss myndi þorna
upp. Þá er einnig bent á að ofan við
Aldeyjarfoss og votlendi við Sand og
Sílalæk við botn Skjálfandafljóts séu
svæði sem hafa komið til álita sem al-
þjóðlega mikilvæg fuglasvæði. Margar
fuglategundir verpi á þessum svæðum
og fjöldi annarra tegunda nýti svæðið
í ætisleit á leið til og frá norðlægum
slóðum. Með Hrafnabjargavirkjun A
yrðu þessi fuglasvæði lögð í hættu.
Umhverfis- og auðlindaráðu-
neytið vinnur nú að umsögn um
umsóknina. Verið er að vinna að
lokadrögum ráðuneytisins en frá
ráðuneytinu fer málið til Orkustofn-
unar sem annaðhvort gefur leyfi eða
hafnar umsókninni. „Það eina sem
ég get sagt er að við munum fjalla
um umsóknina, meðal annars út frá
þessari stöðu rammaáætlunar,“ segir
Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri í um-
hverfisráðuneytinu. „Við fáum yfir-
leitt álit frá okkar sérfræðistofnunum,
Umhverfisstofnun og Náttúrustofn-
un og stundum fleirum, og skoðum
þetta,“ segir Hugi en þar sem málið er
enn á borði ráðuneytisins getur hann
ekki gefið upp hver afstaða þess er.
Hjá Orkustofnun fengust þær upp-
lýsingar að málið væri í ferli en þar
sem aðeins er heimilt samkvæmt
auðlindalögum að veita einum aðila
rannsóknarleyfi á hverju svæði er nú
verið að skoða möguleikann á sam-
starfi Hrafnabjargavirkjunar hf. og
Landsvirkjunar.
Verðmæt viðskiptatækifæri
Rannsóknarleyfið felur ekki í sér
fyrir heit um forgang að virkjana-
leyfi á svæðinu síðar. Það er þó mat
Eiríks Hjálmarssonar, upplýsinga-
fulltrúa Orkuveitu Reykjavíkur, að
í rannsóknarleyfinu felist ákveðin
verðmæti, jafnvel þótt það standi ekki
til að reisa nýja virkjun sem stendur.
Meðal annars vegna þess að svæðið er
í biðflokki. „Málið er enn til meðferð-
ar í þinginu og Orkuveitan gerði engar
athugasemdir við það að þessi orku-
kostur yrði settur í biðflokk. Orkuveit-
an er ekkert að fara út í virkjanir,“ seg-
ir Eiríkur og útskýrir af hverju: „Hún
hefur ekki fjárhagslega burði til þess.
Meðal annars eru menn að glíma við
Hverahlíðarvirkjun og fjármögnun
hennar með nýjum og óhefðbundn-
um hætti. Þannig að það eru engin
slík áform hér á bæ.“
Hann segir að rannsóknarleyfið
hafi verið gefið út á sínum tíma, færst
á milli aðila í stjórnsýslunni og að lok-
um hafi verið óskað eftir því að leyfið
yrði endurnýjað. „Hrafnabjargavirkj-
un hf. sem er í eigu Orkuveitunnar og
Norðlendinga ákvað að standa vörð
um þetta rannsóknarleyfi og viðhalda
þeim réttindum sem Orkuveitan
hafði í selskap við heimamenn.“
Aðspurður segist hann ekki geta
sagt til um það hvort Orkuveitan hafi
áhuga á að virkja á þessu svæði ef til
þess fáist tilskilin leyfi og fjárhags-
staða hennar leyfi slíkar framkvæmd-
ir. „Ef og þegar – ég get ekki svarað
því,“ segir Eiríkur. „Það er ákvörðun
stjórnar og eigenda hennar að ráðast
í þvíumlíkt. Í þessu felst að réttind-
um sem Orkuveita Reykjavíkur fékk
árið 2004 í félagsskap við heimamenn
sé ekki gloprað út úr höndunum. Ef
þarna verður einhvern tímann virkj-
að. Það er ákvörðun stjórnvalda hvar
er leyft að virkja, en ef þarna verð-
ur einhvern tímann leyft að virkja
þá kunna að vera verðmæti í þessu
leyfi. Heimildin til þess að rannsaka
eitthvað getur verið verðmæt.“ Þegar
hann er beðinn um að skýra það nán-
ar segir hann: „Ef þarna reynist síðan
vera arðbær virkjanakostur og svæð-
ið lendir í nýtingarflokki í þá eru það
viðskiptatækifæri sem geta verið
verðmæti í.“
Einn fallegasti foss landsins
Andri Snær Magnason bendir hins
vegar á að þótt rannsóknarleyfið
feli ekki einu sinni í sér virkjunar-
leyfi þannig að Aldeyjarfoss sé ekki
í beinni hættu þá styggi það fólk að
það þurfi alltaf að vera á þessum stað,
„… að argast yfir einhverju svona. Af
hverju þurfa menn að vera heima
hjá sér með áhyggjur af einhverju
sem maður hélt að væri óumdeilan-
lega ein mesta gersemi landsins? Af
hverju er verið að halda samfélaginu í
þessari gíslingu? Er það svona sem við
ætlum að hafa þetta – eilíft stríð um
okkar helstu gersemar?“ spyr Andri
Snær. „Mér finnst bara að við hljótum
að vera þannig manneskjur að hver
sem sér þennan foss, þó að það sé að-
eins á myndum, viti að það er engin
ástæða til þess að fikta í honum. Það
er ekki orkuskortur á landinu og það
er ekkert aðkallandi sem gerir það
að verkum að við þurfum að ryðjast í
framkvæmdir á þessu svæði.“
Í huga hans er þetta óþarfa rösk-
un. „Um leið er þetta röskun á sam-
félaginu. Ég held að það yrðu mjög
margir mjög hryggir ef af þessu yrði. Ég
velti því fyrir mér hvaða tilgangi opin-
ber fyrirtæki þjóna ef þau ætla að vera
í því eilífðarhlutverki að svekkja fólk í
stað þess að þjóna því,“ segir hann.
Hann bendir einnig á að þótt Ald-
eyjarfoss sé kannski ekki eins þekktur
og Gullfoss eða aðrar náttúruperlur þá
hafi hann verið einkennisfoss Sagen-
haftes Íslands, merki fyrir heiðurs-
þátttöku Íslands á einni stærstu bóka-
sýningu heims í Frankfurt. „Þetta er
einn allra fallegasti foss á landinu og
svæðið þar í kring. Mér þætti mjög
skrýtið ef menn ætluðu að raska þess-
um fossi sem er í heilagra fossa tölu
hjá mörgu hálendisfólki. Þetta er eitt
mesta listaverk sem við eigum.“
Fegurð í stað eyðileggingar
Hann veltir því líka fyrir sér hvort ein-
hver yrði ósáttur við það ef þetta svæði
yrði verndað. „Upplifir einhver djúpt
ósætti og missir tilganginn í lífinu ef
hann fær ekki að virkja þennan foss?“
spyr hann og bætir því við að hann trúi
því ekki að manneskjurnar séu svo
ólíkar hér á landi. „Ég á erfitt með að
trúa því að eftir að við erum búin að
selja 80 prósent af orkunni til stóriðju
og framleiða mun meira en við þurf-
um séu enn til menn sem iða í skinn-
inu að fá að taka Aldeyjarfoss. Er ein-
hver ósáttur við að hafa hann? Er hann
þyrnir í augum einhvers?“
Hann segir jafnframt að það sé
orðið þreytandi að fólk þurfi alltaf
að vera í sjálfboðavinnu við að vekja
athygli á náttúruperlum og verja þær.
Aldeyjarfoss og aðrar gersemar eigi
bara að fá að vera þar sem þær eru
þannig að fólk geti uppgötvað þær
með tíð og tíma.
Að lokum hvetur hann fólk til þess
að huga að því hversu stóran hlut Ís-
lendingar áttu á Ólympíuleikum fatl-
aðra, „… þar sem Össur átti örugglega
annan hvern fót. Mér finnst að við
ættum að velta því aðeins fyrir okk-
ur hvað við getum gert merkilegra en
að eyðileggja það sem er fallegt. Eyða
kröftum okkar í að búa til eitthvað fal-
legt í stað þess að eyðileggja það sem
er fallegt.“ n
n Svæðið í biðflokki í rammaáætlun n Náttúruperlur í hættu verði virkjun leyfð
Skjálfanda-
fljótssvæðið
Skjálfandafljót kemur úr Vonarskarði og
rennur norður í Skjálfandaflóa.
Friðlýstar minjar á svæðinu: Þingey,
Skuldaþingey, Hrauntunga, Hofgarður
og nafnlaust býli við Fiskiá. Þingey og
Skuldaþingsey eru með merkari og best
varðveittu fornminjum á Íslandi og leifar
af fjölmörgum þingbúðum sjást þar enn.
Helstu náttúruminjar eru: Laufrönd
og Neðribotnar, Ingvararfoss, Aldeyjar
foss, Hrafnabjargafoss, Goðafoss,
Þingey, votlendi á Sandi og Sílalæk í
Aðaldal, Gæsavötn við Gæsahnjúk,
Tungnafellsjökull og Nýidalur.
Tegundir á válista: Margar fugla
tegundir, meðal annars snæugla BH,
mikið fálkavarp, fálki YH.
Annað: Ein sögufrægasta ferðaleið
landsins, Bárðargata, liggur um svæðið en
götuna eru ferðamenn farnir að ganga á ný.
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir
blaðamaður skrifar ingibjorg@dv.is
„Ef þarna verður
einhvern tímann
leyft að virkja þá kunna
að vera verðmæti í þessu.
Andri Snær Magnason Skilur ekki af
hverju það þarf að halda þeim möguleika
opnuðm að eyðileggja náttúruperlur með
virkjunum. „Er það svona sem
við ætlum að hafa
þetta – eilíft stríð um
okkar helstu gersemar?
Orkuveita Reykjavíkur Á meirihlutann í Hrafnabjargavirkjun hf., félagi sem vill virkja að
Hrafnabjörgum.
Aldeyjarfoss Þykir einn fegursti foss landsins og er í miklu dálæti á meðal ljósmyndara. Þessa mynd tók Mats Wibe Lund. Ef af virkjun
arhugmyndum yrði við Hrafnabjörg myndi Aldeyjarfoss skemmast.