Dagblaðið Vísir - DV - 13.03.2013, Blaðsíða 22

Dagblaðið Vísir - DV - 13.03.2013, Blaðsíða 22
22 Menning 13. mars 2013 Miðvikudagur Ekki dauðir úr öllum æðum n Kaffibrúsakarlarnir snúa aftur n Neistinn enn til staðar N ú veit það sérhver kjaftur/ þeir voru að snúa aftur/ Kaffibrúsakarlarnir“, heyrði ég sungið á einhverri út­ varpsstöðinni um helgina; ég heyrði ekki betur en það væru þeir sjálfir, Júlíus Brjánsson og Gísli Rúnar Jónsson, sem þar tækju lagið. Við skulum vona að þeir hafi lög að mæla. Lagið er gert í tilefni af endur­ komu þessa ágæta dúós sem frægt varð á sínum tíma og hefur víst aldrei gleymst alveg, þó að frægð þeirra sé vart hin sama meðal hinna yngri og þeirra sem vel muna þá nýborna. Nú eru þeir upp risnir í holdinu á sviðinu í Austurbæ – eða Austurbæjar bíói eins og húsið nefndist á meðan það var og hét – og ætla að halda þar til á meðan nokkur vill koma í heimsókn til þeirra. Lífsneisti í lúnum mönnum Heldur virtust þeir lúnir og lang­ þreyttir þegar þeir lyppuðust yfir sviðið með göngugrindurnar í upp­ hafi sýningar og svo sem skiljanlegt; erfiðismenn komnir vel yfir miðjan aldur og hafa væntanlega gert fleira frá því við sáum þá síðast en þamba kaffi úr brúsum. En fljótt reyndist þó meiri lífsneisti með þeim og úr varð á heildina litið notaleg og létt kvöldstund. Karlarnir settust með brúsana og nestisboxin á milli sín, eins og í Sjónvarpinu í gamla daga, létu dæluna ganga og gott ef þeir voru ekki bara alveg jafn skemmti­ legir og þá. Fyrir minn smekk og margra annarra í húsinu, heyrðist mér; ég get ekki talað fyrir aðra. Það er að sjálfsögðu ávallt nokkurt hættuspil að draga fram gamla kómík af þessu tagi. Húmor, ég tala nú ekki um sé hann tengdur vissum flytjendum, vill verða barn síns tíma, eins þótt hann feli ekki í sér revíu­ kenndar vísanir í dægurmál eða skot á þekktar samtíðarpersónur. Fyndni Kaffibrúsakarlanna byggðist mjög á alls kyns aulabröndurum, orða­ leikjum, útúrsnúningi, misskilnings­ dellu, tilsvörum sem urðu hlægileg án þess að þeim væri endilega ætlað það. Hættan er einna helst sú að gefa áhorfendum slíka fyndni í stórum skömmtum í senn, en ekki eins og í Sjónvarpinu, þar sem þeir birtust snöggt í stuttum, hnitmiðuðum innskotum, innan um annað efni, og voru svo horfnir. Ég segi ekki að manni hafi ekki fundist þetta orðið nokkuð gott nú, þegar komið var hlé og maður velti því fyrir sér hvernig þeir gætu spunnið þetta áfram án þess að missa dampinn. Engir nýgræðingar En karlarnir eru hvorugur neinn nýgræðingur á leikhúsvellinum og leikstjórinn ekki heldur, svo þetta tókst furðanlega. Ef nokkuð var lifn­ aði enn betur yfir sýningunni eftir hlé, þegar Sá stóri (Gísli Rúnar) tók að sýna töfrabrögð með misjöfnum árangri, auk þess sem hann reyndist allt í einu búa yfir heilmiklum miðilshæfileikum. Sambandið var þó nokkuð misgott og var þó Austurbæj­ arbíó notað fyrir skyggni lýsingar svo­ kallaðar í eina tíð, ef ég man rétt (fór aldrei sjálfur). Þá tók hann gamal­ kunnugt númer, bullþýðingu úr dönsku. Ég vona að unga kynslóðin, sem hefur ekki dönsku sem fyrsta mál í skóla, njóti þess ekki síður en við sem lærðum málið eiginlega fullt eins mikið af Andrés­blöðunum en á skólabekknum, gott ef ekki í gegnum nefið, eins og Halldór Laxness orðaði það. Trúlega hefði þó verið tryggara að uppfæra númerið yfir á alþjóða­ mál nútímans. Það hefði líka gefið því ferskara bragð. Aðhlynning aldraðra skemmtikrafta Það eru reyndar ýmsir fleiri sem koma við sögu þetta kvöld en Karl­ arnir tveir. Þarna er ágætur töfra­ maður, sem er aldrei kallaður annað en Lalli töframaður, en heitir sam­ kvæmt leikskrá Lárus Blöndal Guð­ jónsson og er – einnig samkvæmt leikskrá – einn af fremstu töfra­ mönnum landsins. Hann er ungur og sætur, alltént fyrir smekk kynnis­ ins, Helgu Brögu Jónsdóttur, sem dró hvergi af sér þar sem hún gassaðist fram og aftur um sviðið. Helga Braga hefur ekki sést mikið að undanförnu sem mér finnst svolítil synd, því að hún er lífleg gamanleikkona og ætti að geta tekið margt fleira að sér en þá „aðhlynningu aldraðra skemmti­ krafta“ sem hér er verkefni hennar. Svo var þarna bráðhuggulegt og flott fimleikapar, Rakel Másdóttir og Þórarinn Reynir Valgeirsson, sem hefði mátt nýta miklu betur. Þessir kraftar, parið, töframaðurinn og jafn­ vel kynnirinn, höfðu aðallega það hlutverk að hita upp fyrir stjörnurn­ ar, gefa þeim pásu og teygja kvöldið upp í fulla sýningarlengd. Meira samspil þarna á milli hefði getað lyft sýningunni verulega, en þá hefði þurft atkvæðameiri leikstjórn og sterkara handrit. Leikskráin er vönduð og smekk­ lega úr garði gerð, að sjálfsögðu með viðeigandi kaffiblettum hér og þar. Þar er ferli Kaffibrúsakarlanna gerð góð skil bæði í sögulegum annál og bráðskemmtilegu viðtali leikstjórans við þá kumpána. Gísli Rúnar klikk­ ar ekki á leiklistarsögunni fremur en öllu öðru. n Jón Viðar Jónsson leikminjar@akademia.is Leikrit Kaffibrúsakarlarnir Höfundar: Gísli Rúnar Jónsson, Júlíus Brjánsson og Gunnar Helgason Leikstjóri: Gunnar Helgason Leikmynd: Gunnar Baldursson Búningar: Helga Rún Pálsdóttir Tónlist og hljóðritun: Vilhjálmur Guðjónsson Ljós: Freyr Vilhjálmsson Sýnt í Austurbæ „… hún er lífleg gamanleikkona og ætti að geta tekið margt fleira að sér en þá „aðhlynningu aldraðra skemmtikrafta“ sem hér er verkefni hennar. Notaleg og létt kvöldstund „Karlarnir settust með brúsana og nestisboxin á milli sín, eins og í Sjónvarpinu í gamla daga, létu dæluna ganga og gott ef þeir voru ekki bara alveg jafn skemmtilegir og þá.“ Höldum veislu, Einar Áskell Tvær bækur um hinn einlæga og hugmyndaríka Einar Áskel hafa verið endurprentaðar. Bækurnar um Einar Áskel eru löngu orðnar sígildar og hafa verið gríðarlega vin­ sælar hjá íslenskum börnum og for­ eldrum þeirra í meira en þrjátíu ár. Einar Áskell á bráðum afmæli. Hann langar að halda veislu með sínu lagi og bjóða bara Viktori og Millu en Fía frænka hefur allt aðrar hugmyndir. Það er kominn morgunn og Einar Áskell þarf að drífa sig í leik­ skólann. En fyrst ætlar hann bara að klæða dúkkuna sína, laga bíl­ inn, kíkja í stóru dýrabókina … Inni í eldhúsi er pabbi orðinn óþolinmóður. Grasrótin á Faktorý Tónleika­ og skemmtistaðurinn Faktorý hefur farið af stað með nýja tónleikaröð í samstarfi við Tuborg. Tónleikaröðin kallast einfald­ lega Grasrótin á Faktorý og er meginmarkmið hennar að gefa ungum og efnilegum hljómsveitum og tónlistarmönnum kost á að koma sér á framfæri á alvöru tón­ leikastað í alvöru hljóðkerfi. Frítt verður á alla viðburði í þessari nýju tónleikaröð svo að ekki er við öðru búast en að þeir sem eru að taka sín fyrstu skref og koma fram á Grasrótinni geti auð­ veldlega náð til nýrra áheyrenda. Fyrstu tónleikarnir verða haldnir fimmtudagskvöldið 14. mars og eru það hljómsveitirnar Kajak og Dreamcast sem koma fram. Tónleikarnir hefjast stund­ víslega kl. 22 og er, eins og áður kom fram, frítt inn. SOSK design á HönnunarMars Fimmtudaginn 14. mars verður opnuð sýning á verkum hönnuðar­ ins Sunnu Óskar Þorvaldsdóttur sem vinnur undir merkjum SOSK design. Sýningin sem er hluti af HönnunarMars verður dagana 14.– 17. mars á 1. hæð Borgarbókasafns Reykjavíkur, Tryggvagötu 15. Á sýningunni mun meðal annars verða frumsýndur stóll sem kemur glóðvolgur úr smiðju Sunnu sem undanfarið hefur stundað nám í málmsmíði og hönnun í Iðn­ skólanum í Hafnarfirði. Hún mun einnig sýna aðra hönnun sína svo sem ávaxtarennu sem vakið hefur mikla athygli, rúmgaflsborð á hjól­ um og fleira. Þá ætlar Sunna að sýna og selja herðatré sem hún hannaði í til­ efni af Mottumars og sameinar þar marsana tvo Hönnunar­ og Mottu­ mars. Ágóði af sölu herðatrjánna rennur óskiptur til Krabbameins­ félagsins.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.