Húnavaka - 01.05.2012, Side 9
Ávarp ritstjóra
Ágætu lesendur.
Húnavökuritið kemur nú út í 52. sinn. Efni þess er að vanda fjölbreytt, þar skiptast á
frásagnir, kveðskapur, viðtöl, ferðasögur, mannalátsgreinar og fréttir svo nokkuð sé nefnt.
Stærð ritsins er svipuð og undanfarin ár eða um 270 bls. Þakkir eru færðar þeim fjölmörgu
sem lagt hafa til efni í ritið.
Árið 2011 var tiltölulega hefðbundið ár í héraðinu. Tíðarfar var þó nokkuð misjafnt,
vetrarmánuðirnir með betra móti en maí og júní sérlega kaldir og þurrir sem olli mörgum
töluverðum vandkvæðum og þá sérstaklega til sveita. Heyskapur var í minna lagi og kornrækt
gekk illa. Að öðru leyti var árið okkur Húnvetningum að mestu hagfellt þegar á heildina er
litið.
Ég held að við Íslendingar gerum okkur oft ekki grein fyrir því hvað við höfum það gott í
þessu landi. Við búum í frekar hreinu og lítt menguðu umhverfi, höfum sæmilega lífsafkomu,
erum laus við stríð og þær hörmungar sem því fylgja, höfum góð tækifæri til að mennta okkur,
búum við fjölbreytt menningarlíf, atvinnuleysi er yfirleitt lítið, grunnur heilbrigðiskerfisins er
traustur, við höfum kosningarétt og getum tjáð skoðanir okkar, náttúran er við bæjardyrnar og
þannig mætti lengi áfram telja.
Vissulega eru nokkur ljón á veginum, það verður aldrei á allt kosið og mannlegt eðli er
samt við sig. Hægt væri að telja upp ýmislegt sem miður fer en það verður ekki gert hér því
að mínu mati eru jákvæðu þættirnir svo miklu stærri og þýðingarmeiri en annmarkarnir.
Okkur hættir stundum til að sjá ekki skóginn fyrir trjánum en ef við gerum okkur grein fyrir
heildarmyndinni þá held ég að það séu fáir á þessari jarðarkringlu sem lifa jafn góðu lífi og
við sem þetta land byggjum. Gleymum því ekki í okkar daglega argaþrasi.
Á þessu ári, nánar tiltekið 30. mars, var liðin ein öld frá því að útgefandi þessa rits,
Ungmennasamband Austur-Húnvetninga, var stofnað. Í tilefni þess hefur það gefið út
sérstakt afmælisrit þar sem ýmsum þáttum í sögu þess eru gerð nokkur skil. Einnig var
heilmikil hátíðardagskrá 31. mars, að deginum til í og við Íþróttahúsið á Blönduósi og lauk
svo með hátíðarkvöldverði í félagsheimilinu þar.