Húnavaka - 01.05.2012, Page 10
Fremst í þessu riti er ávarp formanns sambandsins sem fer yfir ýmis atriði í hundrað ára
sögu USAH og nokkru aftar í ritinu eru fleiri atriði tengd afmælinu.
Áhrif ungmennafélagshreyfingarinnar á Íslandi á 20. öld voru veruleg og þar með einnig
í Austur-Húnavatnssýslu. Í ungmennafélögum sýslunnar og heildarsamtökum þeirra,
USAH, störfuðu flestir félagsmálafrömuðir okkar á 20. öld, framfarahugurinn var mikill
og þar með uppbyggingin. Það var m.a. fyrir hvatningu þessa fólks að félagsheimili voru reist,
sundlaugar byggðar og íþróttavellir og íþróttahús litu dagsins ljós.
En áhrif hreyfingarinnar voru líka mikil á mannlífið. Stór hluti ungs fólks tók virkan þátt
í starfi félaganna, bæði á félagslegu sviði og íþróttasviði. Þar fengu margir sína fyrstu reynslu
af félagsstarfi og þar hófu flestir íþróttamenn sinn keppnisferil. Það að starfa í nefndum,
ráðum og stjórnum er þroskandi fyrir alla sem það reyna, að starfa saman, takast á við
verkefni, setja sér markmið, hlusta og taka tillit til annarra, allt þetta gerir fólk færara að
takast á við lífið. Sama gildir um þátttöku í íþróttum, að læra að vinna og tapa, að þjálfa
líkamann til átaka, að vinna að ákveðnu takmarki, allt þetta og margt fleira þjálfar
íþróttamanninn til að mæta því sem síðar ber við á lífsleiðinni.
Ég held því að það sé ekki ofsagt að áhrif ungmennafélagshreyfingarinnar á uppeldi og
mannlíf hafi átt sinn þátt í því að hjálpa fjölmörgu ungu fólki að velja sér betri brautir en
ella, að læra að taka þátt í samfélaginu og skila þannig meiri mannauði til heilla fyrir okkar
þjóðfélag.
Ungmennasamband Austur Húnvetninga! Hjartanlega til hamingju með aldarafmælið.
Megi gæfa og gengi fylgja verkum þeirra sem þar starfa, æskulýðs þessa héraðs til heilla.
Megi lesendur Húnavökuritsins til lands og sjávar, sem og aðrir landsmenn, eiga
ánægjulegt ár við leik og störf.
Ingibergur Guðmundsson.
H Ú N A V A K A 8