Húnavaka - 01.05.2012, Page 46
H Ú N A V A K A 44
Shanghai er stærsta borg
Kína, sagt var að þar byggju
um 14 milljónir íbúa. Borgin
stendur sunnan við meginós
Yangtzefljóts, þar var því eng-
in upphitun. Gömul og ný
vest ræn áhrif leyna sér ekki.
Byggingar meðfram allri
strand götunni minna mjög á
enska stórborg, flestar byggðar
á 19. öld þegar siglingar og
áhrif Breta í Austur-Asíu stóðu
með mestum blóma. Við skoð-
uðum ýmis mannvirki, m.a.
fórum við upp í turn, sem átti
að verða einn hinn hæsti í heimi, en var þá ekki fullbyggður. Einnig er mér
minnisstæð brú sem hófst upp úr miðju íbúðahverfi og spann sig í hringum
hátt yfir eina af kvíslum Yangtze svo að ekki hindraði skipaferðir.
Okkur var boðið á fimleika- og danssýningu sem var frábær. Við fengum
teppi til að vefja um okkur því kalt var í húsinu. Ég kenndi í brjósti um fáklætt
listafólkið sem varð að sýna í þvílíkum kulda.
Helsti forystumaðurinn sem við hittum í Shanghai var gjörvulegur maður
og hlýlegur, sýnilega með vestrænt blóð í æðum. Hann sagði hagvöxt í
Shanghai hafa verið 22% árið á undan og ennþá meiri á sumum upp-
byggingarsvæðunum. Samdráttur væri á hinn bóginn á öðrum svæðum,
einkum í sveitum. Ég spurði hversu langt hann teldi vera þangað til Kína væri
komið í hóp fremstu efnahagsstórvelda heimsins. Hann brosti og benti á að
þjóðartekjur á mann væru ekki nema 12-1300 dollarar á ári. „Við eigum langt
í land en talaðu við mig eftir 50 ár.“ „Þá verðum við báðir dauðir“, sagði ég.
Þá vissi ég um þjóðartekjur okkar Íslendinga og hef nú fengið staðfest af
Hagstofunni að þær voru tæplega 23 þús. Bandaríkjadalir á mann.
Matvælaframleiðsla er mjög öflug í landinu, Kínverjar brauðfæða sig sem
kallað er. Þeir ala og framleiða t.d. gífurlegt magn af rækju í tjörnum og lónum
við sjávarsíðuna. Rís- og hveitiframleiðsla tók stakkaskiptum eftir að vísinda-
mönnum á vegum FAO, með dr. Björn Sigurbjörnsson í broddi fylkingar, tókst
að kynbæta rís og hveitiplöntur þannig að blaðvöxtur þeirra snarminnkaði en
kornuppskera margfaldaðist. Hefði þetta ekki tekist hefðu milljónir og aftur
milljónir manna dáið úr hungri árlega, einkum í suðaustanverðri Asíu og
Afríku.
Kínverjar leggja mikla áherslu á ferskar matvörur. Við komum á
matvælamarkaði, t.d. fiskmarkaði í Shanghai. Þar var fiskurinn að ótrúlega
miklum hluta geymdur lifandi í geysistórum kerjum. Við sáum húsmæður
ganga heim með efni í kvöldmatinn. Margar voru með 2-3 lifandi hænur,
héldu bara í aðra löppina og hænurnar virtust kunna þessu bærilega, veltu
aðeins vöngum og depluðu augunum.
Shanghai.