Húnavaka - 01.05.2012, Page 49
H Ú N A V A K A 47
rýrð á aðra. Salóme Þorkelsdóttir, forseti og foringi okkar, var elst í hópnum á
síðari hluta síns sjöunda áratugar. Hún var glæsilegur fulltrúi Alþingis, virtist
alltaf vel undirbúin og með reisn í fasi flutti hún sín mörgu ávörp.
Guðrún Halldórsdóttir var nokkrum árum yngri en dálítið þungfær orðin
og gekk við staf. En dugnaður hennar og viljastyrkur var slíkur að aldrei varð
hún til tafar og var þó ekki alltaf gengið slétta götu. Hún er ættuð frá
Másstöðum í Vatnsdal, greind kona með reynslu áranna, mannþekkingu og
góðvild meitlaða í svipmót sitt. Ævistarf hennar var uppbygging og lengi
skólastjórn Námsflokka Reykjavíkur. Þar lagði hún fram krafta sína og alla
alúð. Þegar hún lét af starfi fyrir aldurs sakir var það henni sárt að fyrsta verk
þáverandi ráðamanna Reykjavíkur, sem hún hafði stutt til áhrifa, var að
sundra og fella niður það starf sem hún hafði byggt upp. Virðing mín fyrir
þessum konum óx mjög í ferðinni og hefur ekki haggast síðan.
Eftirmáli
Á þeim liðlega 17 árum sem liðin eru frá því þessi ferð var farin hefur margt
breyst í Kína. Nú þarf ekki lengur að bíða eftir svari viðmælanda míns í
Shanghai um líklega efnahagsþróun í landinu næstu ár eða áratugi. Um
liðlega tveggja áratuga skeið hefur hagvöxtur í Kína verið um 10% að
meðaltali á ári. Og þó nú sé sagt að kominn sé afturkippur í þessa þróun,
vegna efnahagsþrenginga á Vesturlöndum, einkum á evrusvæðinu, var hag-
vöxtur í Kína 8,9% á síðasta ári.
Fyrir þremur árum var Kína komið í fjórða sæti mestu efnahagsstórvelda
heimsins. Og fyrir ári síðan var landið komið í annað sæti næst á eftir Banda-
ríkjunum. Stefna Kínverja hefur verið tiltölulega einföld á pappírnum. Þeir
laða erlent fjármagn til sín með afar lágu gengi gjaldmiðilsins, juan, lágum
launum fólksins og vægum öðrum rekstrarkostnaði. Fjármagnið streymir inn
og umsvif Kínverja og áhrif þeirra á efnahagsmál heimsins fara sífellt vaxandi.
Ríkisvaldið er svo sterkt að enginn þjóðfélagshópur hefur burði eða kjark til
þess að krefjast aukinnar hlutdeildar í arðinum. Þrátt fyrir það fjölgar auðvitað
þeim Kínverjum sem hafa verulegt fé handa á milli. Væru þeir til dæmis 3%
þjóðarinnar eru það liðlega 40 milljónir manna. Því verður fróðlegt fyrir okkur
Íslandinga að fylgjast með þróun mála austur þar og brýnt að sinna vel
mörkuðum okkar fyrir lúxusvörur í þessum heimshluta.
Heimildir:
Eigin minnismiðar, ritaðir í ferðinni.
Saga veraldar, útg. 1999. Nokkur mannvirki og söguleg atriði.
Kínverska sendiráðið. Staðfesting á tölu fulltrúa á þjóðþinginu og í fastanefndinni.