Húnavaka - 01.05.2012, Page 50
H Ú N A V A K A 48
Fimmtíu ára ferð til baka
færir ekki stöðu laka.
Þá var von um framtíð fegri,
fólksins vegur heiðarlegri.
Þá var landsins vígi varið,
vænna og betra hugarfarið.
Þjóðleg hugsun höfð í kolli,
hneigðir ekki í djúpum solli.
Birtingar var marktæk myndin,
miklu hreinni þjóðarlindin.
Hvergi stöðug sálarsyfja
séð af völdum eiturlyfja.
Oft þá voru dáðir drýgðar,
dagsins skyldur heiðri vígðar.
Reyndin var að röskur andi
réði bæði á sjó og landi.
Fangar hugann frægur róður,
fljótt sem jók á tveggja hróður.
Hlaut af máli matið trygga
manndómseðli Gunna og Sigga.
Vísir út til veiða sigldi,
varla neitt sig báran yggldi.
Þó var nepja og nokkur svali,
nóvember á dagatali.
Fyrir vitann fljótt þeir sveigðu,
fram og út og norður beygðu.
Höfðinn hvarf þeim brátt að baki,
blakkur skuggi í myrkra taki.
Hjá þeim léku í hug og sinni,
hafin upp í gegnum kynni,
ýmis ljós og eldibrandar
yls úr heimi Skagastrandar.
Er þeir komu út á miðin
ágæt þóttu veðurgriðin.
Þurfti ei sjómenn unga að eggja
enda byrjað strax að leggja.
Aflahugur brann í blóði,
betri veiði, meira í sjóði.
Mikið skal til mikils vinna,
mörgu þarf um borð að sinna.
Heldur var þó hált á dekki,
hættur stundum varast ekki,
hraustir menn í hörkulátum,
hendir það í mörgum bátum.
Fyrir borð þá féll hann Gunnar,
flaug úr stöðu haldleysunnar.
Slysið gerðist allt í einu,
ekki hægt að varna neinu.
RÚNAR KRISTJÁNSSON, Skagaströnd:
Róðurinn
Bragur um RÓÐURINN FRÆGA á vélbátnum Vísi frá Skagaströnd, 7. nóv. 1961.
Ortur í nóvember 2011 í tilefni þess að hálf öld var þá liðin frá atburðinum.