Húnavaka - 01.05.2012, Page 51
H Ú N A V A K A 49
Stakkst hann beint í bólakafið,
býsna kalt var norðurhafið,
er það féll um háls og herðar,
honum bauð til lokaferðar.
Marvaðann hann tróð og trúði
tæpast þeirri ógn sem knúði
fast á alla fjörsins strengi,
fékkst hann þó ei um það lengi.
Róað gat hann sál og sinni,
sett það fast í hugans inni,
að hann skyldi böls í brýnu
berjast fyrir lífi sínu.
Sixpensarinn fékk að fjúka,
fylgdu stígvél, úlpan mjúka.
Hreyfigetu hömlun alla
hann lét þar í djúpið falla.
Síðan hóf hann sundið fræga,
sýndi kraftinn eðlislæga.
Kynið bauð ei upp á annað,
úthaldið þar reynt og sannað.
Bátsins ljós hann ofar öldum
oftast greindi á sævi köldum.
Von það gaf og hugarhita,
hafði hann það sem stefnuvita.
Arma sterka út hann rétti,
Ægi mætti – líkur Gretti.
Óx við þolraun út´ í flóa,
einn af sonum Gamla Nóa.
Hélt sér við á hugsun styrkri,
hún var ofar kulda og myrkri,
tengd við lífsins ljósa streymi,
langt frá dauðans skuggaheimi.
Siggi á meðan fars á fjölum
færðist burt á legi svölum.
Vissi í engu að veldi Unnar
var að herða tök um Gunnar.
Glöggur samt í sínu fagi
sjá hann vildi allt í lagi,
spurði um Gunnar – gripinn ergi,
Gunnar fannst í bátnum hvergi !
Staðreynd þá var þungt að reyna,
það var á við martröð hreina.
Steig þar eins og yfir barma
endurvakning fyrri harma.
Fór um hljóðar hugarstöður
hugsun sár um eigin föður:
“ Svona fór hann – falinn bárum,
fyrir réttum þrettán árum ! ”
Samt var ekki á Sigga hikið,
siglt til baka rétta strikið.
Hugsun klár til bjargar búin,
brást þar ekki heldur trúin.
Horft var fast og hlustað líka,
höfð til staðar gætnin ríka.
Stóðu menn og horfðu hljóðir
hafs um myrkar ægislóðir.
Það var eins og tíminn teldi
tæpast neitt í sínu veldi.
Augnablikið öllu réði,
eitt gat fært þeim dýpstu gleði !
Við það eina allt var bundið,
að þeir gætu manninn fundið,
Gunnar þarna heimt úr helju,
hafs frá kaldri báru svelju.
Gekk þar allt að vænstu vonum,
vel þeir tóku eftir honum,
þegar öskrin eyrun særðu,
útkomuna bestu færðu.
Drifu þeir um borð í bátinn
buslarann til muna státinn.
Hann úr blautu fljótt var færður,
fataður og endurnærður.