Húnavaka - 01.05.2012, Side 53
H Ú N A V A K A 51
KARL HELGASON frá Blönduósi:
Í pokahorninu
Smásaga – sem síðar varð smábók
Hann vaknar við að barið er á gluggann. Hann þýtur upp, snarar sér í buxur,
hugsar fyrst, þungur af svefni:
„Það er Valdi.“
Valdi, jafnaldri hans og vinur, var vanur að berja á gluggann þegar hann
kom snemma að morgni um helgar og brann í skinninu eftir að segja Didda
frá nýjustu hugdettum sínum og heilabrotum. Hann vissi að mömmu Didda
þótti gott að sofa út, var tillitssemi í blóð borin – eða innrætt af ömmu sinni.
„Hef fengið hugljómun, Sjonni Jonna!“
Valdi var sá eini sem notaði Sjonna-nafnið. Þegar honum var mikið niðri
fyrir. Sjálfur vildi hann ekki að því væri flíkað. En fyrir Valda faldi hann ekkert.
Ekki heldur að hann hugsaði sér oft að hann væri Sjonni Jonna og ynni mörg
afrek. Það var hljómur í slíku gælunafni, á því var ævintýrablær og það hæfði
dáðum.
Hann áttar sig strax á að þetta getur varla verið Valdi. Hann hefði hringt frá
nýja staðnum sem hann fluttist til ef hann ætlaði í heimsókn til afa síns og ömmu.
Hann er við útidyrnar áður en hann er kominn að niðurstöðu um hver sé
á ferð. Langafi! Furðu beinn í baki, grátt hárið úfið, glettnisglampi í brúnum
augum í hrukkóttu, dálítið strengilegu andliti.
Björn langafi barði oftast að dyrum þegar hann kom skálmandi innan frá
elliheimilinu. Hann kaus að kalla bygginguna elliheimili, stundum Gaml-
ingjakot, þó að henni hefði verið gefið virðulegt nafn, Sjónarhóll, dvalarheimili
aldraðra.
Langafa var ekki orðið tamt að hringja dyrabjöllunni. Hann barði hressilega
að dyrum. Stundum guðaði hann á glugga.
„Sæll, kútur! Svafst eins og hrútur!“ segir langafi. Hann talar iðulega með
rími, aðdáandi hagyrðinga, hagorður sjálfur. „Það er þokkalegt, hnokki, að
liggja í bóli er vermir sólin.“
Honum þykir dálítil minnkun í að langafi skuli kalla hann kút og hnokka en
fyrirgefur honum það. Hann þekkir áráttu hans, skilur að langafa, nærri ní-
ræðum, þyki hann ungur. Honum þykir furðulegt að hann skuli vera svona
hress og hefur gaman af heimsóknum hans.
„Komdu inn, langafi.“ Hann talar hátt og skýrt, vill að mamma viti hver
kominn er.