Húnavaka - 01.05.2012, Page 55
H Ú N A V A K A 53
„Er þetta vísa, Björn langafi,“ spyr Silla.
„O, sussum nei, getur ekki heitið vísa,“ segir langafi. Á ekki að láta ykkur
heyra slíkt hnoð, svona bull. Nei, hlýt að vera að gamlast, gæti ekki að mér. En
sjáum til, verð að sýna ykkur að afi getur betur...
Já, þoka huldi sól um daginn, þá sagði gamli maðurinn:
„Hvarf nú yndið alls sem lifir,
íturlokkaða,
þokan hvolfist aftur yfir,
illa þokkaða.
Þessi er skárri, má heita vísukorn en samt ætti ég að kenna ykkur það sem
meira er um vert, til dæmis Breiðfjörð:
Sólin klár á hveli heiða
hvarma gljár við baugunum,
á sér hár hún er að greiða
upp úr bárulaugunum.“
Afi er farinn að kveða. Það heyrist eflaust í næstu hús.. Silla starir opinmynnt
á hann.
Mamma er komin fram.
„Sæll, Björn minn. Gaf Diddi þér kaffi?“
„Dugði til þess, drengurinn,“ svarar langafi. „Ójá.“
„Silla mín, komdu og klæddu þig.“ Sjálf er mamma enn í náttsloppnum.
„Veit ekki í hvað á að fara...“
„Ég sýni þér það. Komdu strax. – Ég kem svo, Björn minn,“ segir hún,
breytir um tón.
„Liggur ekki á, góða mín,“ segir langafi. „Við Nonni erum að spjalla um
garpinn Jón Pál. Hann er í ætt við okkur en ekki nærri.“
„Hann harmar það víst ekki, drengurinn,“ segir mamma. „Hann fylgist
með öllu sem sagt er um þann mann. – Sigurlaug!“
„Hvernig er hann skyldur mér, langafi?“spyr hann.
„Látum okkur sjá...“ Langafi hugsar sig um.. „Við mamma hans erum
fjórmenningar. Langafar okkar voru bræður. Amma mín og afi mömmu hans
voru bræðrabörn. Þið Jón eruð í sjötta og sjöunda lið.“
Mamma kemur og sest hjá þeim. Hann fer frá borðinu. Hefur um nóg að
hugsa.
Æ, þeir eru ekki nógu mikið skyldir. Hann getur varla kallað Jón Pál frænda.
Samt ætlar hann að gera það. Hann ætlar líka að skrifa Jóni Páli bréf og bjóða
honum í heimsókn. Sterkasti maður heims er alltaf á ferðinni til að keppa og
sýna. Kannski biður hann Geira, bróður mömmu, að reyna að fá Jón Pál til
að koma fram á 17. júní skemmtun. Einhvern tíma var talað um það.
Þá gæti Jón Páll sagt:
„Ég á frænda hér í hópnum. Það verður stæltur strákur. Hann er dálítið