Húnavaka - 01.05.2012, Page 56
H Ú N A V A K A 54
grannur núna, eins og ég var einu sinni. Nú fer hann að æfa og borða hollan
mat úr öllum fæðuhringnum og styrkjast og stækka og þykkna og þreknast.
Kannski verður það hann sem slær mér við. – Hvað segir þú um það, Sjonni
Jonna?“
Hann unir sér í dagdraumum. Þeir bera hann langt burt. Það að vera
frægur af því að vera frændi Jóns Páls og eiga í vændum að styrkjast og stælast
víkur fyrir ímyndun hans um að hann sé kominn með krafta í köggla. Sjonni
Jonna tekur þátt í landskeppni, hann lyftir ofurþyngd...
Hann hrekkur upp við hláturroku langafa. Reynir að rífa sig lausan úr
draumunum. Það tekur á. Hrekkur við þegar Silla kemur þjótandi.
„Diddi, við eigum að fylgja afa inn að Sjónarhóli.“
Henni bregður við að sjá hann:
„Ertu veikur, eitthvað? – Mamma, Diddi er...“
Hann grípur í hana, sussar ákaft.
„Það er ekkert að mér. Farðu fram, ég kem strax.“
Hann situr samt kyrr, reynir að safna kröftum. Hann heyrir afa þruma,
svara hvíslaðri spurningu mömmu.
„Nei, var hress, bara hress. Strákurinn spjarar sig. Allir mínir strákar hafa
spjarað sig, varað sig.“
Hann heyrir ekki hvað mamma segir nema „...voru svo góðir vinir, lagast
bráðum.“
Hún heldur að hann sé svona leiður vegna þess að Valdi er ekki á staðnum...
Hann rís seinlega upp.
Langafi er léttur á fæti. Silla verður að hlaupa við fót. Langafi leggur
handlegg um herðar hans, felur litla hönd Sillu í lófa, þylur:
„Upp hann stefndi, ekki tafði,
ól í brjósti mikinn hug
og í pokahorni hafði
hetjulundu, þor og dug.“
Slær allþétt á öxl hans, endurtekur:
„Og í pokahorni hafði
hetjulundu, þor og dug.“
Beindi langafi þessu til hans? Átti hann að sýna hetjulund? Hafa þor og dug
í pokahorninu?
Hann man langafa í sveitinni. Vinnusaman, stjórnsaman. Hafði tamið sér
hörku þegar hann fótbrotnaði um þrítugt. Beinin voru sett skakkt saman.
Hann hökti þó lengi, hafði fyrir heimili að sjá, ungum börnum, var nýbúinn
að kaupa jörð. Síðar var brotið höggvið upp, beinin færð í rétt horf en greru
seint.
Langafi hafði dugað.