Húnavaka - 01.05.2012, Page 61
H Ú N A V A K A 59
látin rekja upp ef ég gerði þetta ekki nógu vel.
Svo spurði ég hana hvort henni, barninu, hefði
ekki þótt leiðinlegt að sitja við og þurfa að klára
þetta fyrir fermingu? Þá kom hið æðrulausa
svar: Það var nú aldrei spekulerað í því.
Heimilislífið á Hnjúki var í föstum skorðum.
Alltaf var borðað þrímælt. Fyrst á morgnana
var hræringur, slátur, súrmatur, brauð og
svoleiðis. Klukkan 12 var alltaf kaffi. Þá var
farið að elda miðdagsmatinn sem var borðaður
klukkan þrjú. Að síðustu var borðaður
kvöldmatur, klukkan 10 á kvöldin, þegar allir
voru komnir inn. Fyrir utan fjölskylduna voru
ávallt tvær vinnukonur á Hnjúki og auk þeirra
var iðulega húsmennskufólk. Einnig var stúlka á
veturna sem spann á heimilisfólkið. Oftast voru
14-15 manns í heimili. Þar fyrir utan voru ýmsir
krakkar og nemendur.
Steinunn sá aldrei um að ganga frá eftir
máltíðirnar því þær stundir og fram að næstu
máltíð voru notaðar til hannyrða og kennslu.
Ljósmetið sem þær notuðu við hannyrðir sínar
var 15 línu lampi sem um það bil samsvarar 40-
60 kerta peru. Á sunnudögum var alltaf frí frá
störfum og oftast farið í útreiðartúra eða skemmt
sér á einhvern hátt.
Alla tíð klæddi Steinunn sig í upphlut eftir
hádegið á sunnudögum. Er hún var komin yfir
miðjan aldur saumaði hún sér upphlut sem hún notaði á sunnudögum þegar
hún settist í uppáhalds stólinn sinn í stofunni og saumaði út. Aldrei fór hún af
bæ nema vera í upphlut eða í peysufötum, þegar eitthvað meira stóð til.
Steinunn var afskaplega vel menntuð til munns og handa og virtist hafa nýtt
sér það mjög vel, bæði sem kennari við unglingaskólann á Ísafirði og síðan
einnig sem kennari heima á Hnjúki. Hún var mjög afkastamikil í hannyrðum
og afar vandvirk. Hún var dugleg að finna eitthvað út og breyta til.
Hannyrðir Steinunnar voru afar fjölbreyttar. Hún saumaði flíkur, venti
þeim og snéri, saumaði út og fleira en nýtnin var alltaf í fyrirrúmi þrátt fyrir
að segja megi að þetta hafi verið efnaheimili. Vinkona hennar, er rak
verslunina Baldursbrá í Reykjavík, sendi henni oft á tíðum garn og annað til
að vinna úr. Einnig pantaði hún ýmislegt frá Danmörku.
Eftir hana liggur mikill fjársjóður. Margir munir eftir Steinunni voru
afhentir Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi og þar er hægt að njóta þess að
skoða þá. Til eru fádæma vel saumuð yfirlök sem hún hafði saumað eftir
pöntun á meðan hún bjó í Reykjavík. Konan, sem pantaði lökin, dó áður en
þau voru fullkláruð og voru því aldrei sótt. Þessi yfirlök eru til sýnis í safninu.
Hekluð milliverk og dúllur í
sængurfatnað.
Unnið af Steinunni.
Annað af tveimur yfirlökum sem
Steinunn saumaði á Reykja-
víkurárum sínum. Stafirnir ÞS
saumaðir út í lökin Enskur og
franskur saumur. Ótrúlega
fallega gert og öll göt jöfn.