Húnavaka - 01.05.2012, Page 66
H Ú N A V A K A 64
Eftir á að hyggja var eitt sem við áttum sameiginlegt. Við vorum yfirleitt
hungraðir. Ég var í óðaönn að vaxa og Kátur át eins og aðrir hundar allt sem
að kjafti kom. Í þau skipti sem hann sýndi tennur þá hafði hann nælt sér í
sauðarhnútu og labbaði með hana út í hlaðvarpa og ef ég smjattaði framan í
hann eða sleikti út um þá reis á honum hvert hár. Annars var pottbrauð með
smjöri og kæfu einhver mesta sæla sem ég gat hugsað mér og mikið þótti mér
vænt um gömlu konuna sem rétti mér slíka krás þar sem við Kátur stóðum á
búrþröskuldinum og hann fékk líka eitthvað gott.
Eftir ævintýrið með kálfadrápið fór ég að velta því fyrir mér hvers vegna
Kátur var svona hræddur við byssuna og ég verð að segja eins og er að ég sló
því föstu að hann hefði svona slæma samvisku vegna þess hve oft hann stalst
frá mér í hrossaleitum. Til samanburðar hafði ég það að þegar við Grímur
hjuggum hausana af hænuungunum þegar þeir voru orðnir of margir þá var
hann ekki vitund smeykur við öxina og skemmti sér ágætlega þegar ungarnir
flugu hauslausir út í varpann.
Nú datt mér í hug að gera tilraun. Ég vissi hvar kindabyssan var geymd í
smíðaherberginu því ég svaf þar stundum. Skotin geymdi Grímur annarsstaðar.
Ég rak fingur inn í hlaupið, fór út, kallaði á Kát og lét hann þefa af mér. Það
brást ekki, hann lyppaðist niður, laumaðist burt með lafandi skottið. Nú færði
ég mig upp á skaftið og næst þegar ég átti að sækja hestana upp á háls fékk ég
mér dálitla púðurlykt, lét hundinn þefa og skipaði honum síðan valdsmannslega
að koma í hrossaleit. Og viti menn, Kátur lallaði með, var hinn sperrtasti og
hagaði sér eins og sómakær hundur. Ég komst að þeirri niðurstöðu í þessu máli
að hann gæti alveg búist við kúlu í hausinn fyrir óhlýðnina en afturámóti
mundum við aldrei höggva af honum hausinn.
Þegar við síðan komum úr hrossaleitinni leirugir og uppgefnir fengum við
aukabita og vorum alsælir. Reyndar sá ég það seinna að við Kátur vorum
einskonar sálufélagar. Hugsanir okkar snerust aðallega um eitthvað ætilegt.
Kátur var góður félagi en hann var enginn fjárhundur. Ég held að hann hafi
litið á sig sem varðhund og hann passaði vel sinn hlaðvarpa en hætti sér ekki
á ókunna stigu.
Það var ekki um mikla tilbreytingu að ræða fyrir okkur Kát í daglegum
störfum. Reyndar gerðist dálítið óvanalegt sum laugardagskvöld. Þá kom einn
og einn gestur ríðandi af bæjum í framdalnum í klippingu. Það kom nefnilega
upp úr dúrnum að Grímur var flinkur hársnyrtir. Þar sem ekkert rafmagn var
á bænum notaði Grímur handklippur, skæri og greiðu. Þarna sátu virðulegir
bændur á kolli á miðju gólfi, sólbrenndir og grómteknir, fengu í nefið hjá
gamla manninum (föður Gríms) og sögðu nýjustu fréttir. Stundum var þetta
helgina fyrir fimmtándu helgina en við þá hátíð voru ýmsir atburðir miðaðir í
sveitinni.
Þýðing þessa atburðar var nokkuð lengi að síast inn í mig en snemma heyrði
ég að þá fengju menn sér gjarnan í staupinu, sumir svo um munaði.
Einhverntíma rakst ég á nokkra ullarballa norðan undir vegg á Móhellunni og
lá hundur við hvern poka. Eigendurnir höfðu verið með einhvern rosta og
voru látnir sofa þarna úr sér vímuna.