Húnavaka - 01.05.2012, Page 95
H Ú N A V A K A 93
Við klifruðum upp tröppurnar á Lækjarbakka með rauðmaga í sitt hvorri
hendinni. Strax og dyrnar opnuðust hrópuðum við í kór: Viltu kaupa
rauðmaga?
Komuð þið með þetta alla leiðina hingað, vinirnir? sagði frúin á Lækjarbakka.
Já, auðvitað kaupi ég þessa rauðmaga. Viljið ekki koma inn og fá eitthvað í
svanginn? Ég vil fá kakó, sagði Almar og ruddist inn.
Eftir langan tíma fórum við að hugsa um að það væru ennþá margir
rauðmagar í kerrunni og við yrðum að halda áfram. En hvert átti að fara?
Áfram inneftir eða koma við á Jaðri? Eftir smá umhugsun héldum við áfram
inn eftir. En ef við mætum nú innbæingum? Þá yrðum við barðir eins og
harðfiskar.
Við slepptum gamlingjunum í Viðvík og komum að Höfðatúni, þar sem
amma og afi bjuggu áður en þau fluttu til Reykjavíkur. Hér bjó nýi læknirinn.
Við gengum upp tröppurnar á Höfðatúni eins og í gamla, góða daga og
börðum dyra með rauðmaga í hverri hendi.
Þegar læknisfrúin opnaði dyrnar horfði hún lengi á okkur alveg steinhissa.
Hvað eruð þið með? spurði hún loksins. Rauðmaga, sögðum við í kór. Já, ég
tek bara þessa fjóra, sagði hún. Hvað kosta þeir? Tja, eru þeir stórir eða litlir?
Þetta eru bara litlir rauðmagar svo þeir kosta tuttugu krónur.
Frúin fór nú inn og kom aftur með tvo rauða tíu krónu seðla og lét okkur
hafa en tók á móti rauðmögunum sem henni líkaði auðsjáanlega ekki að taka
við.
Við förum sko ekki í Vík, Hann Hjörtur útvegar þeim nógan rauðmaga en
við getum litið við hjá Góu í Sæbóli. Góa var úti á túni eitthvað að vinna við
túnið.
Viltu rauðmaga? spurðum við Góu umsvifalaust. Vil og vil, setjið hann bara
inn í ganginn, sagði hún. Hvað viltu marga? Ja, tveir ættu að duga. Stóra eða
litla? Tja, auðvitað stóra. Það verða tuttugu krónur.
Hvað? Nú hef ég ekki heyrt annað eins. Ætlið þið að taka borgun fyrir
rauðmagatittlinga? sagði Góa.
Já, tuttugu krónur, annars færðu ekkert. Ja, þetta eru eiginlega litlir
rauðmagar svo þú færð þá fyrir tíu krónur, sagði ég.
Það er eins gott því ég hef ekki tuttugu krónur, sagði Góa. Svo hallaði hún
sér fram á taðgaffalinn, sem hún var með og leitaði lengi í vasa á svuntunni.
Því næst dró hún upp rauðan tíkall og rétti okkur.
Hendiði honum bara inn í ganginn, sagði hún og hélt áfram að vinna á
túninu.
Við fórum nú áfram inn að Bjargi. Rósa hlýtur að kaupa rauðmaga. Við
bönkuðum en þar var enginn heima. Svo héldum við heim til Páls skólastjóra
á Breiðabliki.
Hvað viljið þið, piltar mínir? spurði Páll, þegar hann opnaði. Við erum að
selja rauðmaga, sögðum við í kór. Hjá okkur er nóg með einn rauðmaga, sagði
Páll og fékk einn rauðmaga.