Húnavaka - 01.05.2012, Síða 96
H Ú N A V A K A 94
Næsta hús var Ásberg. Hingað þori ég ekki. Frissi getur verið reiður, sagði
ég. Aumingi, sagði Almar.
Svo fórum við til Öddu prests á Sólbakka. Við börðum lengi að dyrum og
heyrðum örugglega Öddu hrópa en hvaðan?
Svo gengum við sjávarmegin við húsið og þar stóð Adda í dyrunum og
sagðist ekkert skilja í þessu. Það væri verið að berja að dyrum og svo væri
enginn útivið.
Við vorum að banka, sagði ég, hinum megin. Jæja, þar er nú læst, sagði
Adda. Við erum að selja rauðmaga, sögðum við.
Adda horfði lengi á okkur eins og henni hefði misheyrst. Já, já, auðvitað. Ég
tek einn, sagði hún loksins. Bara einn? Já, bara einn. Stóran eða lítinn? Lítinn.
Svo fékk hún einn fyrir fimm krónur.
Þegar við stóðum aftur úti á götu hugsuðum við. Okkur tekst aldrei að selja
alla þessa rauðmaga þegar fólk annað hvort er ekki heima eða kaupir bara
einn rauðmaga. Hvað gerum við nú? Jú, við förum inn að Útibúi og stillum
okkur upp við dyrnar og seljum kerlingunum, sem koma út úr Útibúinu,
rauðmagann á hálfvirði.
Svo keyrðum við af stað. Almar dró og ég ýtti og þá skeði fyrra óhappið.
Annað afturhjólið datt undan. Hvert í logandi, hrópuðum við næstum
samtímis. Hvernig komum við þessu nú inn í Útibú? Það eru tíu rauðmagar
ennþá eftir. Við verðum að losa úr kerrunni. Svo hentum við rauðmögunum
tíu bara beint á rykuga malargötuna og fórum að líta á hjólið. Það var nagli
sem hélt hjólinu á öxlinum sem var sargaður í sundur.
Hvað gerum við nú? Förum til Páls skólastjóra og biðjum hann að lána
okkur verkfæri.
Ég bankaði upp á hjá Páli og hann rak upp stór augu við að ég var kominn
aftur. Hvað nú? spurði hann og ég bar upp erindið. Jú, ætli sé ekki hægt að
leysa úr því. Komdu niður í kjallara.
Páll hvarf úr dyragættinni og kallaði svo í mig úr kjallaradyrunum. Komdu
og fáðu það sem þú þarft. Ég þarf bara einn 3ja tommu nagla og naglbít, sagði
ég. Hér eru sennilega þau verkfæri sem þú þarft, sagði Páll og benti á veggina,
sem voru þaktir alls konar verkfærum, meiri verkfærum en ég nokkurn tímann
hafði séð. Ekki einu sinni í Ketilhúsinu eða í smiðjunni hjá Bjössa frá Mánaskál
voru meiri verkfæri.
Ég tók miðlungs naglbít og Páll lét mig hafa nokkra nagla. Get ég eitthvað
aðstoðað? spurði Páll. Nei, nei, við reddum þessu alveg sjálfir. Ég kem strax
með verkfærin.
Síðan skaust ég út um kjallaradyrnar og gekk til Almars úti á götu. Almar
var nú búinn að gera klárt til að setja naglann í. Ég rek naglann í gegnum gatið
á öxlinum og dauðsá eftir að hafa ekki líka tekið með hamar. En nú var
naglinn í stæði sínu og ég beygði hann yfir öxulinn. Ég tók svo mikið á að mér
sortnaði fyrir augum. Svo réttum við kerruna við og Almar týndi upp rykuga
rauðmagana á meðan ég skilaði naglbítnum. Síðan héldum við suður fyrir
Andrésarbúð og stilltum okkur upp við dyrnar á Útibúinu.
Ekki leið á löngu þar til ein fín frú birtist með tvo stóra bréfpoka. Ég hafði